30.04.1985
Sameinað þing: 76. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4620 í B-deild Alþingistíðinda. (3917)

435. mál, uppeldisstörf á dagvistarheimilum

Kristín S. Kvaran:

Virðulegi forseti. Hér er verið að spyrja um það sem í fsp. er nefnt starfsáætlun um uppeldisstörf á dagvistarheimilum. Það ber að þakka fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessum mjög svo mikilvæga málaflokki hér inni á Alþingi. Mikilvæga málaflokki, segi ég, vegna þess að þetta mál snýst um þá einstaklinga sem mynda framtíðarþjóðfélag þessa lands. Brýna nauðsyn ber til þess að í þjóðfélaginu fari almennt fram umræða um það mjög svo mikilvæga og krefjandi starf sem innt er af hendi á dagvistarheimilum við, að ég vil segja, lítinn skilning ráðamanna þar að lútandi, lítinn skilning bæði hvað varðar vægi starfsins sem slíks og þá sem afleiðingu þess það skilningsleysi og lítilsvirðingu sem fram kemur í launakjörum þeim sem fóstrum er boðið upp á. Þess vegna er þessi uppeldisáætlun, sem inniheldur markmið og leiðir þess starfs sem fram fer á dagvistarheimilum, svo mikilvæg. Eftir því sem ég best fæ séð eftir þá lauslegu yfirferð yfir skýrsluna, sem ég fékk að láni í gær, hefur tekist mjög vel til. Þarna hefur verið unnið mikið starf sem, eins og áður sagði, hefur skilað sér í mjög heildstæðu verki.

Að öðrum nm. ólöstuðum, sem unnið hafa að þessari áætlun, tel ég ástæðu til að færa sérfræðingi nefndarinnar, Valborgu Sigurðardóttur, sérstakar þakkir fyrir hve vel hefur tekist til. Í heild er áætlunin mjög vel fram sett og á góðu máli jafnframt því sem hún hefur þann ótvíræða kost að mér sýnist hún ekki koma til með að binda á neinn hátt hendur þeirra sem ætlað er að vinna út frá henni.

Eftir að áætlunin hefur verið send út til kynningar vonast ég til að umræða öll og skilningur á þessum málum eflist að mun, bæði meðal almennings og ekki síður meðal ráðamanna.