30.04.1985
Sameinað þing: 76. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4620 í B-deild Alþingistíðinda. (3918)

435. mál, uppeldisstörf á dagvistarheimilum

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég vil bæði þakka hæstv. ráðh. fyrir skýrsluna, sem ég varð eins og hv. síðasti ræðumaður að fá lánaða en á nú, og jafnframt fyrir svör hennar svo langt sem þau náðu. Ég tek undir það sem hv. síðasti ræðumaður sagði. Ég tel að margt hafi tekist afar vel við þá skýrslu sem nú er búið að vinna. En það nægir mér auðvitað ekki sem flytjanda þess frv. sem hér um ræðir og varðandi framkvæmd þess að skýrslan verði látin ganga milli dagvistarheimila og foreldra, jafnvel þó að hver landsmaður fengi að sjá hana. Ég held að þeir sem þá skýrslu gerðu hljóti að hafa hugsað hana sem grundvöll að starfsáætlun. Skýrslan er ekki starfsáætlun í sjálfu sér. Hún bendir á markmið og leiðir, en síðan þarf vitaskuld að vinna upp úr henni áætlun um starf og þá auðvitað námsgögn.

Ég held að það komi skýrt fram í þessari skýrslu og hefur auðvitað oft verið haldið fram að það sem fyrst og fremst vantaði í uppeldisstarf á dagvistarheimilum væri samræming og aðstaða fyrir starfsfólk dagvistarheimila til þess að vinna sitt starf. Benda má á að kennsla sem þessi, sem vitanlega hefur farið fram á dagvistarheimilum þó að hún væri ekki með neina stefnumótun að bakhjarli, hefur farið fram við afskaplega slæm skilyrði. Við vitum öll að fóstrur hafa alls ónógan tíma til að undirbúa sig undir sitt starf auk þess sem þær eru eins og allir vita og eins og aðrir opinberir starfsmenn eru skammarlega illa launuð stétt og satt að segja stundum lítils virt.

Í frv. mínu kom fram að þetta starf skyldi vinna í samráði við þá aðila er að uppeldis- og skólamálum vinna. Það var ekki lítill þáttur í mínu máli, þegar ég mælti fyrir þessu frv., að samræma þyrfti forskólakennsluna og fyrstu ár grunnskóla, vegna þess að alkunna er að þar hefur myndast töluvert bil sem stundum hefur reynst kennurum, sem við börnunum taka, erfitt að brúa. Þá á ég ekki við það að börnin hafi verið verr undirbúin af dagvistarheimilum. Miklu fremur það að það hefur verið þroskamunur á þeim börnum sem komu frá dagvistarheimilum. Ég held þess vegna, hæstv. ráðh., að ég hljóti að spyrja hvort þess megi ekki vænta að frú Valborg Sigurðardóttir stýri því starfi sem þarf að vinna til þess að útbúa í hendur fóstra og forstöðumanna námsgögn og jafnvel tillögur um tíma handa starfsfólki til að undirbúa sitt starf o. s. frv. og að við megum vænta þess að sjá tillögur um það við gerð næstu fjárlaga að í þetta verði veitt einhverju fé. Annars verður framkvæmd þessa frv. að sjálfsögðu einungis orðin tóm. Þar með er ég ekki að vanmeta það grunnefni sem þegar hefur verið unnið. En því aðeins hefur það eitthvert gildi, að það verði síðan notað til grundvallarvinnslu þannig að frv. komi að verulegu gagni einmitt með tilliti til fyrstu ára barnanna síðan í grunnskóla. Ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh. hvort ég hafi ekki örugglega skilið hana rétt, að þetta standi til, því að svo sannarlega var frv. mitt til þess flutt. Mér nægir engan veginn að fyrir liggi einhvers staðar skýrsla sem ég vænti nú að verði prentuð í einhverju upplagi en í augnablikinu er hún greinilega sjaldgæf vara. En jafnvel þó að hún væri til í miklu stærra upplagi kemur hún auðvitað ekki ein og sjálf nema að mjög takmörkuðu gagni. Á þetta vil ég leggja mikla áherslu.