30.10.1984
Sameinað þing: 11. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í B-deild Alþingistíðinda. (392)

90. mál, Seðlabanki Íslands

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að leggja aðeins orð í belg við þessa umr. Nokkrum sinnum hef ég gert málefni Seðlabankans að umræðuefni hér á hinu háa Alþingi. Eitt sinn gerði ég fsp. vegna hins mikla bókasafns Seðlabankans. sem fæstir þm. vissu að væri til, því síður að yfir það hefði verið byggt stórhýsi að Einholti 4. Hv. þm. stóðu hér og spurðu furðu lostnir: Hvar er þetta hús? Síðan hefur það gerst að aðeins má eygja þetta mikla bókasafn í ársskýrslu Seðlabankans, þó afar ófullkomið, og enginn hefur enn þá séð ástæðu til að skila sérstökum ársreikningi fyrir þennan mikla rekstur. Ég minnti á það þá. Nú man ég ekki hvort þetta var árið 1981 eða 1982, en þá var munur á innkaupum til bókasafns Seðlabankans og Háskólabókasafns sá, að Háskólabókasafn hafði árið áður keypt bækur fyrir 50 millj. en Seðlabankinn fyrir 30 millj. Munurinn á þessum tveimur söfnum var líka sá, að annað bókasafnið, Háskólabókasafn, á að vera miðstöð mennta og menningar í landinu á æðsta skólastigi. Inn í hitt safnið kemur enginn nema starfsmenn.

Ekki er mér kunnugt um að á þessu hafi verið tekið á nokkurn hátt, hvorki af bankaráði Seðlabankans — og við skulum ekki gleyma því að þar sitja hv. alþm. -né heldur að gerð hafi verið við það athugasemd að seðlabankinn fær að ráðskast með arð sinn á þennan hátt.

Í annað sinn minntist ég hér á málefni Seðlabankans við umr. um fjárlög. Þá ítrekaði ég enn þessi málefni Seðlabankans og gagnrýndi að Seðlabankinn sjálfur ráðstafaði arði sínum eða hluta af honum. Annars staðar eins og t.d. í Finnlandi rennur sá arður beint í ríkissjóð. Þá sagði hæstv. núv. fjmrh. af miklum þunga, eins og hans er háttur, að lög um Seðlabanka Íslands þyrfti að endurskoða og skyldi hann sjá til þess að það yrði gert. Þar sem hann er nú hér ekki staddur kynni að vera að hæstv. viðskrh. hefði eitthvað heyrt af áhuga hæstv. fjmrh. um endurskoðun á lögum um Seðlabanka Íslands og þess vegna vil ég leyfa mér að spyrja hann: Hefur ríkisstj. rætt það að einhverju? Það nær auðvitað ekki nokkurri átt að þessi stofnun okkar allra, arður af henni, skuli vera notaður til þess að byggja skrauthallir yfir hégómlega bankastjóra og til þess að safna skrautbókum í kringum enn hégómlegri embættismenn. Einhver var nú svo tungulangur hér eftir þessa umr. að segja við mig: Þú minntist ekkert á málverkasafnið. Ég veit ekkert um málverkasafnið. Ég veit ekki heldur nógu mikið um allar laxveiðiferðirnar og annað sem þessir peningar eru notaðir til. Ef hið háa Alþingi hefði rænu á, eins og hæstv. fjmrh. virtist hafa svo mikinn áhuga á, að taka af þessum mönnum ráðin, kynnu að finnast peningar sem nú vantar til að greiða íslenskum launþegum laun sem þeir geta lifað á.