30.04.1985
Sameinað þing: 76. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4622 í B-deild Alþingistíðinda. (3922)

435. mál, uppeldisstörf á dagvistarheimilum

Kristín S. Kvaran:

Virðulegi forseti. Áður en ég fer nánar út í það, sem ég ætlaði að segja, vil ég leiðrétta hér örlítið í máli hv. 10. landsk. þm. Frú Valborg Sigurðardóttir er ekki fóstra eða forstöðumaður. Hún var skólastjóri Fósturskólans. (Gripið fram í.) Nei, og er ekki fóstra heldur. En það er nú óskylt.

Í þessu nefndaráliti, sem heitir Uppeldisáætlun fyrir dagvistarheimill, markmið og leiðir, segir m. a., með leyfi forseta:

„Nefndin hefur nú lokið störfum en vill að lokum leggja áherslu á að unnið verði áfram að gerð fræðsluefnis fyrir starfsfólk og foreldra. Nefndin leggur enn fremur til að í kjölfar þessarar uppeldisáætlunar komi ritröð um skyld efni, t. d. um: 1. einstaka þætti í uppeldisstarfi dagvistarheimila, 2. tengsl dagvistarheimila og skóla, 3. fötluð börn og börn með sérþarfir og 4. skóladagheimili.“

Mig langar til að drepa aðeins á það að vissulega hefur í gegnum tíðina mikill tími af þeim knappa tíma sem fóstran hefur umfram sinn langa vinnutíma á dagvistarheimilum farið til þess að undirbúa næstu daga, vikur og mánuði, gera drög að starfi sínu og til að búa til þau gögn sem hún þarf til þess að fræða börnin sem þar eru.

Varðandi samræmingu starfsins á dagvistarheimilunum og fyrstu bekkja í grunnskólunum, þá hefur þar verið unnið geysilega mikið starf. Það segir sig reyndar sjálft að þetta verður einungis í höndum hvers og eins starfsmanns á þessum heimilum og engin samræming þar að lútandi, en þar hefur farið fram alveg geysilega merkilegt starf. Það vildi ég láta koma fram hér vegna orða hv. síðasta ræðumanns þar að lútandi.