30.04.1985
Sameinað þing: 76. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4623 í B-deild Alþingistíðinda. (3923)

421. mál, sjómannadagurinn sem lögskipaður frídagur

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Um langt árabil hefur það verið svo að fyrsti sunnudagur í júní hefur verið sjómannadagur, sérstaklega helgaður þeirri stétt án þess þó að þar væri um lögskipaðan frídag að ræða. Nú hefur það lengi verið baráttumál sjómannasamtakanna að þessi dagur, fyrsti sunnudagur júnímánaðar, verði lögskipaður frídagur. Ég hef leyft mér á þskj. 693 að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. sjútvrh.:

„Hyggst sjútvrh. beita sér fyrir því að Alþingi ákveði nú á þessu þingi að sjómannadagurinn verði lögskipaður frídagur?“