30.04.1985
Sameinað þing: 76. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4625 í B-deild Alþingistíðinda. (3927)

433. mál, lán til fiskeldisstöðva

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að ótrúlega margir þröskuldar eru, að því er virðist, í götu þeirra aðila sem vilja ná í fjármagn til þess sem við köllum gjarnan nýsköpun í atvinnulífi. Á það bæði við um fiskeldi og fjölmargt annað. Þeir eru margir sem til mín hafa komið og tjáð mér þá sögu að þeir gangi frá banka í banka og sjóði í sjóð og fái alls staðar sömu svörin: Við lánum ekki í neitt nýtt.

Ég held hins vegar að það sé ekki rétt að ríkisstj. hafi ekkert aðhafst í þessum málum. Hún er nú með í undirbúningi fjölmargar aðgerðir til að stuðla að mörkun nýrrar stefnu í atvinnumálum sem fyrst og fremst stefnir að því að liðka fyrir slíkum aðilum. T. d. er unnið að athugun á endurskoðun alls sjóðakerfisins þar sem gert er ráð fyrir að nema burtu úr lögum þau ákvæði sem binda sjóðina við ákveðnar atvinnugreinar. Ég get tekið undir það að tekið hefur nokkuð lengri tíma en við ráðgerðum að endurskoða þessi lög. En um svo viðamikil mál virðast vera skiptar skoðanir og við mjög marga þarf að ræða. Þetta er nú á síðasta snúning. Ég vil líka vekja athygli á stórauknu fjármagni sem veitt hefur verið til nýsköpunar í landbúnaði með uppbyggingu loðdýraræktar sem hefur stórlega aukist á síðustu tveimur árum.

Sá áhugi, sem komið hefur fram á fiskeldi, er lofsverður þótt ég verði að viðurkenna að mér finnst dálítið hratt farið og verð að lýsa þeirri von minni að ekki hljótist af því stór skakkaföll. Ríkisstj. hefur gert ráð fyrir því að fiskeldi geti fengið lán í hvaða stofnlánasjóði sem er þegar lögum um þá verður breytt. En þegar ljóst var að nokkur töf yrði á slíkum breytingum, þó að þær séu nú skammt fram undan, ákvað ríkisstj. á s. l. ári að breyta þeim reglum sem gilda hjá langlánanefnd um heimildir til erlendrar lántöku vegna fiskeldis. Ákveðið var að fyrirtæki, sem fari í fiskeldi, skuli hafa heimild til erlendrar lántöku sem nemur 50% af öllum stofnkostnaði, þar með talinn rekstrarkostnaður fyrstu tvö árin. Hér er um mjög verulega útvíkkun að ræða því gilt hafa þær reglur að eingöngu er lánað 2/3 út á vélar og annan tækjabúnað sem keyptur er erlendis en hér er allur stofnkostnaður meðtekinn. Sett var það skilyrði að eigið fé í slíkum fyrirtækjum þyrfti að verða 25% og jafnframt gert ráð fyrir því að innlendir sjóðir í breyttri mynd, eins og ég nefndi áðan, eða Framkvæmdasjóður í núverandi mynd, láni 25%.

Mér sýnist að hv. fyrirspyrjandi sé að tala um tvö mál. Þessi 50% heimild til lántöku erlendis veit ég ekki betur en hafi verið til að mæta þeim lánveitingum sem Norræni fjárfestingarbankinn hefur lofað. Þau lán verða tekin fyrir milligöngu innlendra banka og eru þess vegna með fullri ábyrgð. Mér er tjáð að engir erfiðleikar séu á útvegun þess fjármagns, þ. e 50%. Hins vegar verður að segjast eins og er að orðið hefur dráttur á því að útvega þau 25% sem eru á milli þessara lána og eigin fjár fyrirtækjanna. Framkvæmdasjóður fór fram á það fyrir skömmu að bakábyrgð ríkissjóðs yrði veitt fyrir þeim 25% sem Framkvæmdasjóður væri þá reiðubúinn að veita. Um þetta var fjallað. Fjmrh. telur það óeðlilegt, m. a. með tilvísun til þess að ríkissjóður er fullábyrgur fyrir útlánum Framkvæmdasjóðs nú þegar og því ætti að vera óþarft að hafa sérstaka — jafnvel þó um sé að ræða einfalda — ábyrgð ríkissjóðs fyrir þessum lánum.

Við það hefur svo bæst nú alveg nýlega að ljóst er að þær 50 millj. kr., sem ríkisstj. að tillögu Framkvæmdastofnunar gerði ráð fyrir í slíkar lánveitingar úr Framkvæmdasjóði, eru langt frá því að vera fullnægjandi skv. þeim síðustu hugmyndum um fiskeldi sem virðast streyma inn. Er ljóst að Framkvæmdasjóður getur varla fullnægt þörfum þessara tveggja fyrirtækja sem hv. fyrirspyrjandi sérstaklega nefnir í sinni fsp. Því er einmitt nú þessa dagana málið til nýrrar meðferðar hjá ríkisstj. Ég geri fastlega ráð fyrir því að það verði afgreitt mjög fljótlega, annaðhvort — eins og komið hefur til greina — að veita fyrirtækjunum sjálfum aukna heimild til erlendrar lántöku, þá e. t. v. á eigin ábyrgð — enda eru þessi fyrirtæki öll með verulegu erlendu áhættufé og okkur er tjáð að þau eigi að geta fengið slík lán án ábyrgðar ríkisbanka eða ríkissjóðs erlendis — eða og kannske einnig að leggja til að þessi fyrirtæki auki eigið fé og stuðla að því að innlendu aðilarnir geti fengið lán til eiginfjáraukningar. Þetta er leið sem er til umræðu m. a. vegna þess að veruleg áhætta fylgir tvímælalaust þessum stóru áætlunum og það væri heilbrigt ef eigendur gætu lagt fram eigið fé.

Síðast í gær átti ég allítarlegar viðræður við einn seðlabankastjóra m. a. um þessa fjárþörf og ég endurtek að þetta mál verður tekið til endurmeðferðar hjá ríkisstj. einhvern næstu daga með tilliti til alveg nýlegra upplýsinga og nýrra sjónarmiða.