30.04.1985
Sameinað þing: 76. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4627 í B-deild Alþingistíðinda. (3928)

433. mál, lán til fiskeldisstöðva

Fyrirspyrjandi (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Það getur orðið löng bið hjá þessum ágætu aðilum, sem allir tala um að eigi að vera vaxtarbroddur efnahagslífsins, að bíða eftir því að endurskoðun sé lokið á öllu sjóðakerfinu. Á sama tíma og forsrh. segir í öðru orðinu að við höfum dregist aftur úr talar hann jafnframt um að þetta gangi of hratt.

Ég get ekki skilið orð forsrh. öðruvísi en þannig að það mál, sem ég geri hér að umtalsefni, sitji bara fast. Hvað sem öllum heimildum langlánanefndar líður er hér um að ræða tvo aðila sem hafa fengið vilyrði frá banka sem við erum aðili að, Norræna fjárfestingarlánabankanum, um það að þeir geti fengið að taka þar lán á tiltölulega hagstæðum kjörum ef þeir geti útvegað ábyrgðaraðila á Íslandi. Að því er annað fyrirtækið a. m. k. varðar er það ekki vegna þess að ekki séu nægar eignir fyrir hendi, því að fyrirtæki sem standa á bak við Fiskeldi Grindavíkur velta heilum milljarði á ári og eiga stóreignir, heldur af þeirri ástæðu að bankinn óskar eftir því að fyrir hendi sé einn ábyrgðaraðili. Ríkið er því ekki að hætta neinu. Það eru feikilegar eignir sem standa að baki þessu, langtum hærri fjárhæðir en hér er um að ræða að taka að láni. En þetta situr fast af því að Framkvæmdasjóður vill fá einfalda ábyrgð frá ríkinu en fjmrh. segir að það sé óþarfi af því að ríkið eigi framkvæmdastjórann. Síðan eiga þessir aðilar bara að bíða og hlusta á forsrh. tala um að heimilað hafi verið í langlánanefnd að þeir færu upp í 50% og að málin séu til nýrrar meðferðar m. a. með tilliti til þess að hjálpa mönnum til að auka eigið fé.

Þessir menn eru búnir að labba í gegnum allt bankakerfið á Íslandi og sjóðakerfið til að reyna að fá lán til að auka eigið fé. Ég get ekki skilið forsrh. öðruvísi en svo að ekki sé meiningin að þessi fyrirtæki tvö fái að taka þetta lán. Er það virkilega svo? Þessi fyrirtæki, sem eru í fararbroddi í uppbyggingu, hafa fengið vilyrði frá þessum banka sem við erum aðilar að og höfum fullt traust á. Þeir geta ekki fengið þá hagræðingarfyrirgreiðslu að Framkvæmdasjóður veiti þá ábyrgð sem hér um ræðir með öllum þeim bakábyrgðum og eignum sem hér eru fyrir hendi. Mér finnst þetta alveg lygilegt.

En ég vil í þessu sambandi spyrja hvort ekki sé rétt munað hjá mér að annað íslenskt fyrirtæki einmitt í þessari grein hafi fengið lán hjá Norræna fjárfestingarbankanum og þá með milligöngu Framkvæmdasjóðs, nefnilega ÍSNO? Hvað er þá í veginum núna úr því að hægt var að gera þetta áður? Mér finnst þetta alveg með endemum. Ég trúi ekki öðru en að ríkisstj. greiði úr þessu. Ef hún getur ekki greitt úr þessu máli er allt þetta hjal um fiskeldi sem vaxtarbrodd atvinnulífsins gjörsamlega út í hött. Menn ætla þá að stíga á þetta og segja: Þeir menn sem eru komnir í uppbyggingu eiga ekki að fá að halda því áfram. Mér finnst þetta svar gjörsamlega ófullnægjandi og ég beini því eindregið til forsrh. að hann beiti sér fyrir því að úr þessu máli verði leyst.