30.04.1985
Sameinað þing: 76. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4627 í B-deild Alþingistíðinda. (3929)

433. mál, lán til fiskeldisstöðva

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég sagði hv. fyrirspyrjanda áðan kurteislega að fsp. hans væri byggð á röngum forsendum og misskilningi. Ég veit ekki til þess að nein vandræði séu með lánin frá Norræna fjárfestingarbankanum. Eins og ég sagði áðan verða þau tekin í gegnum innlenda banka og mér hefur ekki verið tjáð að þar séu nein vandræði. Ég spurði reyndar annan þessara aðila að gefnu tilefni að því. Vandræðin hafa verið með þessi 25% sem ber á milli eigin fjár og þess sem langlánanefnd hefur heimild til að veita fyrirtækjunum. Ég veit ekki hvort hv. fyrirspyrjandi hefur kynnt sér hvað þessar hugmyndir hafa stækkað næstum á síðustu dögum, hvað þetta eru orðin mörg hundruð milljóna sem hann er að tala um að fjárfesta. Það má hver lá ríkisstj. að hún taldi — að tillögu Framkvæmdastofnunar — að 50 millj. til Framkvæmdastofnunar til útlána í þessu skyni á þessu ári væri hæfileg upphæð þegar bætt er við því sem fyrirtækin fá heimild til að taka beint erlendis.

Það eru ekki nema örfáir dagar síðan mér var tjáð af öðrum forstjóra Framkvæmdastofnunar að ljóst væri að þetta væri alls ófullnægjandi. Ég hef óskað eftir áætlun yfir það hvað menn teldu þá að þurfi. Ég er ekki búinn að fá hana í hendurnar enn. Þessi mál hafa því breyst mjög mikið að stærð á stuttum tíma síðan upphaflegu plönin voru gerð.

Ég sagði hv. þm. hvað ríkisstj. er að hugleiða til að greiða úr þessu máli sem er miklu lengra gengið en nokkurri atvinnugrein hefur verið leyft til þessa, t. d. að taka lán erlendis, jafnvel allt að 75% af stofnkostnaði. Mér hafa tjáð fyrirtæki í þessari grein að þau þurfi jafnvel ekki ríkisábyrgð því eins og hv. þm. hefur sagt eru þessi fyrirtæki með miklar eignir. Er þá íslenskum bönkum eitthvað ofætlað þó að þeir veiti ábyrgðir? Til hvers eru þessir bankar þegar þeir hafa veð í svo miklum eignum sem þarna er um að ræða? Ég held að hv. þm. ætti að kynna sér betur þessi plön. Ég mótmæli því að ég telji annars vegar mikla þörf á nýsköpun í atvinnulífinu og síðan mæli ég gegn þeim hugmyndum sem þarna eru uppi. Það er alrangt. Ég sagði: Við skulum vona að ekki verði mistök á þessum sviðum. Við þekkjum t. d. sjúkdóma sem hafa komið upp í fiskeldisstöðvum og eru ákaflega alvarlegt mál og alls ekki séð fyrir endann á því hvaða afleiðingar það kann að hafa fyrir fiskeldi í landinu. Ég lýsti aðeins þeirri einlægu ósk minni að þessi gífurlega stóru plön verði ekki til þess að veruleg skakkaföll verði á þessu sviði. En ég fagna stórhug manna í fiskeldi og ég tek undir það sem kemur fram í nýlegri skýrslu, sem er að koma út á vegum Rannsóknaráðs ríkisins, að hér getur verið um grein að ræða sem eftir nokkra áratugi veltir og selur erlendis jafnvel fyrir eins mikla fjárhæð og sjávarútvegur okkar Íslendinga gerir allur í dag. Hins vegar get ég sagt að nýlega hafði samband við mig maður sem gjörþekkir markaðsmál í Bandaríkjunum og varaði við þeirri miklu þenslu sem er í laxeldi og taldi regnbogasilung álitlegri. Kannske væri athugandi að skoða markaðsmálin mjög vel áður en við förum út í tugþúsundtonna framleiðslu eins og nú er þegar komið á teikniborðið.

Ég endurtek: Þetta eru mjög athyglisverðar framkvæmdir og ber að stuðla að þeim. Ríkisstj. hefur gengið lengra en í nokkurri annarri atvinnugrein með heimildir til lántöku og mun athuga þau nýju viðhorf sem nú eru með fullum vilja til að greiða úr vanda þessara fyrirtækja.