30.10.1984
Sameinað þing: 11. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í B-deild Alþingistíðinda. (393)

90. mál, Seðlabanki Íslands

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir svör hans. Þeim mun minni peninga sem þessi þjóð á, þeim mun fínni hús byggir hún til að geyma þessar fáu og verðlitlu krónur. Þeim mun meiri erfiðleika sem við er að eiga í opinberu lífi og hjá einstaklingum, þeim mun meira fjölgar bankaútibúum og þeim mun glæsilegri verða þau. Og kórónan á öllu því sköpunarverki er stórhýsið, sem er að rísa hér norðan undir Arnarhólnum, þar sem hvergi er til sparað, þar sem hvergi er slegið af framkvæmdahraða þó að annað verði að bíða, vegna þess að þar eru nógir peningar. Ég bar þessa fsp. fram hér til að fá fram upplýsingar um byggingarkostnað þessa húss. Það verður fróðlegt að bera það saman við ýmsar aðrar opinberar byggingar, sem byggðar hafa verið, fróðlegt að bera það saman við opinberar byggingar sem við vitum um, þar sem sparnaðar og aðhalds hefur verið gætt í hvívetna og tekist að byggja ódýrari hús en kannske nokkurs staðar annars staðar á landinu. Nefni ég þar t.d. verknámshús við Fjölbrautaskólann á Akranesi og heimavistarhús við þann skóla þar sem aðhalds og sparnaðar var gætt til hins ýtrasta. En þessi bygging Seðlabankans er minnismerki sem aldrei skyldi reist hafa verið.

Ég spyr hér hvaða ráðstafanir Seðlabankinn hafi gert til aðhalds og sparnaðar í rekstri og það kemur fram í svari hæstv. ráðh., sem er skýrt og skilmerkilegt, að ekkert slíkt hefur verið gert. Og menn bera því við að það sé svo erfitt að gera slíkt meðan bankinn búi við núverandi aðstæður. Það er spurt um starfsmannafjölda og það kemur í ljós að stöðugildi voru 128 auk þriggja bankastjóra. Sjálfsagt hefur þetta fólk ýmis verkefni.

En ég leyfi mér að halda því fram að þarna hljóti eins og í fleiri opinberum stofnunum að vera hægt að hagræða og gæta aðhalds og sparnaðar. Ég held raunar að Seðlabanki Íslands sé dæmi um stofnun sem hefur stokkið út úr kerfinu og vex sjálf, stjórnar sér sjálf, fer sínu fram — bókasafn, málverkasafn, nýbygging — fer sínu fram án þess að nokkur geti þar rönd við reist, án þess að nokkur geti þar í rauninni gert athugasemdir. Það eru fleiri svona stofnanir í kerfinu. Ég held að Landsvirkjun sé t.d. ein þeirra. Ég held að þetta sé umhugsunarefni fyrir Alþingi og alþm. Þessi stofnun er stikkfrí.

Það var spurt um risnukostnað. 1.6 millj. frá 1. jan. til 31. ágúst. Þetta getur verið eðlilegt. En þetta getur líka verið óeðlilegt. Það var minnst hér á laxveiðileyfi. Það hefði líklega verið rétt að spyrja sérstaklega um þau. En það liggur hér fyrir þinginu önnur fsp. um þau efni svo að þar koma væntanlega fram einhver svör. Það var spurt hér um bifreiðaeign. Tvær bifreiðar af gerðinni Range Rover. Ég leyfi mér að spyrja: Hvað hefur Seðlabankinn við slíka torfærubíla að gera? Er það til að flytja menn í laxinn? Er það til að flytja peninga? En svo á hann sérstakan seðlaflutningabíl Chevrolet Suburban, svona eins og lögreglubílana, — og það veitir sjálfsagt ekkert af því. En ég leyfi mér að setja spurningarmerki við þessa bílaeign Seðlabankans. Range Rover, árgerð 1984, Audi, árgerð 1984, til hvers eru þessir bílar brúkaðir? Til að flytja menn til laxveiða eða hvað? Eru þetta bílar bankastjóranna? Ég held að þarna megi setja ýmis spurningarmerki og ég leyfi mér að draga í efa að þarna sé aðhalds gætt. Þarna sýnist mér miklu frekar sem látið sé vaða á súðum bæði í rekstri og framkvæmdum. Ég held að alþm. ættu að hugleiða hvernig á að bregðast við slíku hjá stofnunum ríkisins.

Nú er Seðlabankinn auðvitað nauðsynleg stofnun, ekki skal ég draga úr því. En þessar stofnanir verða auðvitað að fara eftir reglum. Þegar gætt er aðhalds og sparnaðar í öllum rekstri ríkisins, ekki síst því sem varðar almenning, þegar hækkaðar eru álögur á almenning t.d. fyrir lyf, lækniskostnað og því um líkt, þá er bara allt stjórnlaust annars staðar, þá eru bara keyptir dýrari og dýrari bílar. Ég held að stjórnendur þessarar stofnunar skuldi okkur skýringar, enn frekari skýringar en hér komu fram í þessu svari. En ég ítreka þakkir mínar til viðskrh. fyrir þetta svar.