30.04.1985
Efri deild: 61. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4634 í B-deild Alþingistíðinda. (3936)

275. mál, almannavarnir

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyting á lögum nr. 94 29. des. 1962, um almannavarnir, sbr. lög nr. 30 29. apríl 1967 og lög nr. 55 30. maí 1979.

Í maímánuði 1982 kaus Alþingi sjö manna nefnd til að gera áætlun um eflingu almannavarna í landinu í samræmi við ályktun Alþingis frá 18. febrúar 1982: Í nefndina voru kjörnir Ásmundur Ásmundsson verkfræðingur, Bjarki Elíasson yfirlögregluþjónn, Friðrik Sophusson alþingismaður, Guðmundur Bjarnason alþingismaður, Jóhann Einvarðsson, nú aðstoðarmaður ráðherra, Kjartan Gunnarsson framkvæmdastjóri og Sveinn Torfi Sveinsson verkfræðingur. Formaður nefndarinnar var kjörinn Friðrik Sophusson og varaformaður Guðmundur Bjarnason. Guðjón Petersen framkvæmdastjóri almannavarnaráðs var ráðinn ritari nefndarinnar.

Nefnd þessi skilaði ítarlegu áliti og tillögum í aprílmánuði s. l. Frv. það um breytingu á lögum um almannavarnir, sem hér liggur fyrir, er flutt á grundvelli tillagna nefndarinnar en nál. í heild sinni er prentað sem fylgiskjal með frv. Vil ég leyfa mér að færa nefndarmönnum þakkir fyrir vel unnið starf.

Áður en vikið er að efni frv. er rétt að víkja nokkrum orðum að heildartillögum nefndarinnar en þeim má skipta í nokkra afmarkaða þætti.

Í fyrsta lagi eru tillögur um breytingu á lögum um almannavarnir og um setningu reglugerðar um öryggisbyrgi.

Í öðru lagi er áætlun um eflingu almannavarna sem ætlað er að hrinda í framkvæmd á næstu 10 árum.

Í þriðja lagi eru tillögur um aðgerðir á sviði almannavarna, löggæslu og hagvarna, ásamt tillögum um athugun á uppbyggingu stjórnsýsluviðbúnaðar, heilbrigðisviðbúnaðar og upplýsinga- og fræðsluviðbúnaðar á tímum hamfara.

Fram kemur í nál. að nefndin átti viðræðufundi með fjölmörgum aðilum, þar á meðal almannavarnaráði og fulltrúum almannavarnanefnda og björgunar- og hjálparsveita.

Enn fremur átti nefndin fund með yfirmönnum almannavarna í Danmörku, Noregi og Svíþjóð er héldu fund hér á landi. Með nál. fylgja sérstakar greinargerðir m. a. um allsherjarvarnir og um almannavarnir í Danmörku, Noregi og Svíþjóð.

Að því er varðar lög um almannavarnir lagði nefndin fram frv. að nýjum lögum um almannavarnir sem byggja á gildandi lögum um það efni frá 1962 með breytingum frá 1967 og 1979. Helstu brtt. nefndarinnar að því er varðar lög um almannavarnir eru þessar:

Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga verði skýrari og ábyrgð á almannavörnum verði skipt skv. verkefnum. Ekki verði um kostnaðarskiptingu að ræða milli ríkis og sveitarfélaga um sama verkefni nema að því er varðar opinber öryggisbyrgi. Kostnaðarskipting milli sveitarfélaga, sem hafa samstarf um almannavarnir, verði skv. íbúatölu.

Ekki náðist samstaða um skipan almannavarnanefnda í héraði. Í megintexta er þó sett fram tillagan sem mest fylgi hlaut í nefndinni. Er þar gert ráð fyrir því að lögreglustjóri sé formaður nefndarinnar. Aðrar tillögur koma fram í skýringum. Sams konar ákvæði og nú gildir í Reykjavík verði tekið upp í lög um skipan almannavarnanefnda á öllu landinu. Gefst sveitarstjórnum með því möguleiki á að skipa áhugamenn um björgunar- og líknarstörf í almannavarnanefndir.

Aukið verði við verkefni almannavarnaráðs málaflokkum á sviði almannavarna sem ekki hefur verið gert ráð fyrir í núgildandi lögum. Þessir málaflokkar eru: 1) Athugun og mat á hættu vegna náttúruhamfara og hernaðar. 2) Rekstur viðvörunarkerfa. 3) Almannavarnir vegna æðstu stjórnar landsins og mikilvægra stofnana. 4) Söfnun neyðarbirgða og tæknibúnaðar. 5) Aðstoð milli umdæma og aðstoð ríkisstofnana á sviði almannavarna. 6) Umboð almannavarnaráðs verði rýmkað til skyndiráðstafana á hættutímum.

Lágmarkskröfur um viðbúnað á sviði almannavarna verði settar með reglugerð svo að tryggt verði að sveitarstjórnir hugi að og sinni viðbúnaði gegn vá.

Loks er lagt til að í lögin verði settur nýr kafli um hagvarnir og hagvarnaráð.

Frv., sem hér liggur fyrir, byggir á tillögum þingkjörnu nefndarinnar. Er frv. flutt sem brtt. við gildandi lög. Í frv. eru ekki teknar með breytingar á 3., 7. og 20. gr. laganna sem nefndin gerði tillögur um, en þar var gert ráð fyrir því að almannavarnaráð tæki ákvarðanir um atriði sem nú eru í höndum ríkisstjórnar eða ráðherra. Ákvarðanir skv. 3. gr. laganna varða setningu fyrirmæla um almenna umferð, reglur og öryggi á opinberum stöðum og svæðum sem almenningur hefur aðgang að. Ákvarðanir skv. 20. gr. varða fyrirmæli um brottflutning fólks af hættusvæðum. Varða þessi atriði grundvallarréttindi borgaranna sem eðlilegt er að þeir, sem bera pólitíska ábyrgð, taki ákvörðun um en ekki embættismenn. Hér ber þó að hafa í huga að lögreglustjórar, sem jafnframt fara með stjórn almannavarna, hafa í krafti síns embættis víðtækar heimildir til að gera til bráðabirgða nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja öryggi borgaranna. Geta þeir í því sambandi leitað álits almannavarnaráðs og ráðherra þar til ákvörðun ríkisstjórnar liggur fyrir.

Frv. gerir því ekki ráð fyrir breytingu á ákvarðanatöku um þessi atriði. Í þessu sambandi er rétt að taka fram að vegna breytinga á ákvæðum þessum er eðlilegt að almannavarnaráð undirbúi tillögur og geri áætlanir er auðveldi og flýti ákvörðun um þessi atriði. Ákvarðanir um þessi atriði varða ekki einungis setningu fyrirmæla heldur og brottfall þeirra.

Ég hef hér rakið helstu brtt. skv. frumvarpsdrögum þingkjörnu nefndarinnar og að hvaða marki þær eru ekki teknar inn í frv. það sem hér er til umræðu. Ég tel ekki ástæðu til að víkja að einstökum brtt. eða skýringum við þær. Er gerð grein fyrir þeim í grg. með tillögum nefndarinnar sem og í athugasemdum við frv.

Þó tel ég rétt að taka fram að í 5. gr. frv. er lagt til að almannavarnanefndir kjósi sér sjálfar formann. Í tillögum þingkjörnu nefndarinnar komu fram mismunandi sjónarmið um það hvernig formennsku skyldi varið. Var það ýmist óbreytt skipan með borgarstjóra, bæjarstjóra eða oddvita sem formann, formennsku í höndum lögreglustjóra sem að öðru leyti fer með stjórn almannavarna og loks sú skipan að nefndin kjósi sér sjálf formann. Rök má færa fyrir formennsku hvort heldur er í höndum framkvæmdastjóra sveitarfélags eða oddvita eða í höndum lögreglustjóra. Hef ég hallast að því að lögbinda ekki formennskuna enda geta mismunandi sjónarmið átt við í hinum ýmsu umdæmum og því sé eðlilegt að nefndirnar kjósi sér sjálfar formann.

Að því er varðar ákvæði 9. gr. frv., þ. e. kaflans um hagvarnir og hagvarnaráð sem forsrh. er ætlað að skipa, þá er það algerlega byggt á tillögum nefndarinnar. Ég taldi þó ástæðu til að þingnefnd hugaði betur að því hvort eigi að skipa þeim málum með einfaldari hætti en leggja þau undir svo fjölmennt ráð, 15 manna, að óbreyttri löggjöf um stjórnarráð. Hv. Nd. hefur fjallað um þetta frv. og ekki séð ástæðu til að gera breytingar á þessari skipan. En ég vænti þess að hv. allshn. Ed. muni einnig íhuga það.

Í 11. gr. frv. er fjallað um breyttar reglur um greiðslu kostnaðar af ráðstöfunum til almannavarna þannig að kostnaður af verkefnum, sem undir ríkisvaldið falla, greiðist að öllu leyti úr ríkissjóði en sveitarstjórnir beri að öllu leyti kostnað vegna almannavarna í héraði, þó svo að ríkissjóður beri 2/3 hluta kostnaðar vegna byggingar og reksturs opinberra öryggisbyrgja.

Með þessu er stefnt að skýrari kostnaðarskiptingu milli ríkissjóðs og sveitarfélaga. Leitað hefur verið umsagnar fjárlaga- og hagsýslustofnunar að því er kostnað varðar. Er í umsögn stofnunarinnar bent á að eðlilegt sé að kostnaður vegna sjúkrahúsa og sjúkrastofnana skiptist skv. lögum um heilbrigðisþjónustu og almannatryggingar. Er bent á að erfitt sé að afmarka rekstur og birgðahald og greiða hluta kostnaðar skv. einum lögum en annan hluta skv. öðrum lögum. Er bent á að ef um náttúruhamfarir eða annað slíkt yrði að ræða, sem yrði ofvaxið stofnun að greiða af venjulegum rekstri, megi gera sérstakar ráðstafanir, en birgðakaup og almennur undirbúningur vegna hugsanlegrar hættu ætti að vera hluti af daglegum rekstri og greiðast skv. því.

Í umsögn fjárlaga- og hagsýslustofnunar er talið að í heild sé um að ræða flutning kostnaðar frá sveitarfélögum til ríkissjóðs. Erfitt sé þó að meta kostnaðarauka ríkissjóðs, en kostnaðarmestu liðirnir falla á ríkissjóð, t. d. viðvörunarkerfið. Þá er ríkissjóði ætlað að bera kostnað vegna nýmæla um hagvarnir og sérhæfðar birgðir.

Hæstv. forseti. Ég hef nú rakið í nokkrum atriðum þær tillögur sem felast í frv. því til laga um breytingu á lögum um almannavarnir sem hér liggur fyrir. Segja má að meginefni þeirra sé annars vegar að styrkja stöðu almannavarnaráðs og hins vegar að kveða skýrar á um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga að því er varðar verkefni og fjárhagslega ábyrgð.

En lög mynda eigi nema ramma um það verkefni sem fást skal við. Þetta gerði þingkjörna nefndin sér ljóst. Nefndin lagði því fram áætlun um eflingu almannavarna. Náði hún til 10 ára tímabils. Varðar áætlunin bæði almannavarnir ríkisins og sveitarfélaga.

Að því er ríkisþáttinn varðar er um að ræða aukningu í skrifstofuhúsnæði Almannavarna ríkisins, aukinn mannafla á skrifstofu, eflingu tæknibúnaðar ýmiss konar, fræðslustarf með námskeiðahaldi fyrir leiðbeinendur, yfirmenn og liðsmenn stofnana og félagasamtaka, viðhald skipulags almannavarna og umsjón með almannavarnanefndum, aukningu rekstrar- og viðhaldsfjár til að mæta þessum kostnaði og yfirtöku verkefna. Þá leggur nefndin til að settar verði reglur um öryggisbyrgi skv. heimild í lögum en gerir þó tillögu um skipan nefndar almannavarnaráði til ráðuneytis um endurskoðun á áætlunum um almannavarnir gegn hugsanlegri kjarnorkuvá og mögulegri beitingu eiturefna.

Að því er varðar almannavarnir sveitarfélaga er um að ræða:

1. Markviss uppbygging verði hafin á skipun hjálparliðs á einstökum almannavarnasvæðum í samvinnu við starfandi björgunar- og líknarfélög í sveitarfélögunum, en í helstu þéttbýliskjörnum landsins nægir fjöldi félagsmanna í björgunar- og líknarfélögum ekki til að fylla nauðsynlega tölu hjálparliðs.

2. Almannavarnir sveitarfélaga hefji reglubundin þjálfunarnámskeið í héraði fyrir hjálparlið skv. skipulagi almannavarnaráðs um þjálfun og fræðslu.

3. Hafin verði kerfisbundin söfnun og uppbygging búnaðar og tækja fyrir hjálparlið almannavarna í héruðum.

4. Almannavarnanefndir leiti samstarfs við lögreglu, slökkvilið og björgunarsveitir um sameiginlegar stjórnstöðvar þessara aðila til neyðaraðgerða.

Þessar tillögur, sem eru til frekari athugunar hjá almannavarnaráði, er nauðsynlegt að þingnefnd kynni sér náið því að þær varða m. a. þátt fjárveitingavaldsins í eflingu almannavarna. Sama er og um annan viðbúnað á sviði allsherjarvarna sem svo eru nefndar og um er fjallað í áliti nefndarinnar og varða stjórnsýsluviðbúnað, upplýsinga- og fræðsluviðbúnað, heilbrigðisog hollustuviðbúnað og hagvarnir. Eru þetta allt þýðingarmiklir þættir er varða öryggi ríkis og borgara, en varða ekki almannavarnir í hefðbundnum skilningi. Snerta þessi atriði flesta þætti stjórnsýslu okkar.

Hæstv. forseti. Almannavarnir varða öryggi almennings. Almannavörnum er ætlað að skipuleggja og framkvæma ráðstafanir sem miða að því að koma í veg fyrir, eftir því sem unnt er, að almenningur verði fyrir líkamstjóni eða eigna af völdum hernaðaraðgerða, náttúruhamfara eða af annarri vá og veita líkn og aðstoð vegna tjóns sem orðið hefur. Ég fullyrði að á undanförnum árum hafa almannavarnir í landinu áunnið sér í vaxandi mæli traust og tiltrú fólksins. Almannavarnir hafa eflst vegna verkefna í Vestmannaeyjum, Neskaupstað og í Mývatnssveit svo að nokkur dæmi séu nefnd. Það má segja að með lagabreytingu árið 1967 hafi yfirbragði almannavarna verið breytt en þá voru náttúruhamfarir tilgreindar sérstaklega sem fast viðfangsefni almannavarna. Nauðsyn ber þó til að efla þessa starfsemi frekar svo að hún geti fengist við hver þau vandamál sem upp koma hverju sinni. Að því miðar frv. það sem hér liggur fyrir.

Eins og ég sagði áður hefur hv. Nd. fjallað um frv. og afgreitt það frá sér með þeirri einu breytingu að gert er ráð fyrir að við bætist einn fulltrúi í almannavarnaráð og skuli hann tilnefndur af þremur aðilum, Landssambandi flugbjörgunarsveita, Slysavarnafélagi Íslands og Landssambandi hjálparsveita skáta er skipti með sér setu í ráðinu eitt ár í senn. Ég tel að það sé nokkurt íhugunarefni hvort fjölga eigi í almannavarnaráði frá því sem nú er. Vissulega eru það margir aðilar sem koma nálægt þeim verkefnum sem almannavarnaráði eru falin og tengjast þeim á ýmsan hátt en það hlýtur að vera nokkuð erfitt að gera þar upp á milli hverjir eigi þá að bætast við í ráðið. En hv. Nd. hefur komist að þessari niðurstöðu og ég geri ráð fyrir að hv. allshn. Ed. muni íhuga það atriði.

Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. allshn.