30.04.1985
Efri deild: 61. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4638 í B-deild Alþingistíðinda. (3938)

289. mál, Landmælingar Íslands

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Þetta frv. var flutt í janúarmánuði í Nd. og vísað þar til samgn. sem hafði málið til afgreiðslu. Samgn. Nd. gerði nokkrar breytingar á frv. sem fram komu á þskj. 768. Þessar breytingar voru sjö að tölu og voru ekki mikilvægar hvað snerti efni frv. en eru að mörgu leyti til þess að gera frv. betra og skýrara að undanskilinni einni till. sem nefndin flutti. Hún var við ákvæði til bráðabirgða um að endurskoða þessi lög ekki síðar en að þremur árum liðnum.

nál. í Nd. og brtt. stóðu allir nm. nema einn, sem skilaði séráliti og lagði fram tvær brtt., sem voru efnislega um að skipa Landmælingum stjórn frá tilteknum aðilum, eins og þar segir, og sömuleiðis um skipulag og starfsháttu Landmælinga, um samráð milli þeirra aðila sem landmælingar stunda. Þær tillögur voru felldar í Nd. en brtt. meiri hl. samgn., sex nefndarmanna, voru samþykktar. Er frv. því óbreytt eins og þeir lögðu til.

Með frv. þessu er verið að leggja drög að fyrstu lögum um Landmælingar Íslands. Frv. er í sex köflum. I. kaflinn fjallar almennt um skipulag stofnunarinnar. Í II. kafla eru talin upp helstu verkefni stofnunarinnar og í III. kafla er áætlun um verkefni stofnunarinnar til tiltekins tíma í einu. IV. kaflinn fjallar um höfundarétt og útgáfurétt Landmælinga Íslands og í V. kafla, sem ber heitið Fjármögnun, er gert ráð fyrir tvenns konar gjaldi til að tryggja fjárhagsgrundvöll stofnunarinnar. Með þessum kafla er stefnt að því að gera Landmælingar Íslands sem sjálfstæðasta fjárhagslega einingu sem geti látið í té þjónustu við almenning og opinberar stofnanir hverju sinni.

Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að rekja frekar efni þessa máls en ég legg mikla áherslu á að hv. nefnd hraði afgreiðslu þess. Ég vil til viðbótar geta þess, að Landmælingar Íslands hafa nú tekið við mikilli og dýrmætri gjöf frá Geodætisk Institut. Það eru frumkort sem danska herforingjaráðið gerði hér, einkum á árabilinu 1902–1910 og eiginlega allt fram að síðustu heimsstyrjöld, ásamt mikilli gjöf í myndum sem er að mínum dómi ómetanleg fyrir okkar þjóð að eiga. Tel ég að þetta sé einhver mesta og besta gjöf sem við Íslendingar höfum fengið. Þetta verður allt í vörslu Landmælinga Íslands og ég tel því eðlilegt og tímabært að þessari stofnun sé sett löggjöf.

Ég hef þessi orð ekki fleiri en legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. samgn.