30.04.1985
Efri deild: 61. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4639 í B-deild Alþingistíðinda. (3940)

243. mál, Veðurstofa Íslands

Frsm. (Egill Jónsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. um frv. til l. um Veðurstofu Íslands. Undir nál. hafa allir nm. samgn. Ed. skráð nöfn sín. Í forföllum eða fjarveru Karls Steinars Guðnasonar mætti Eiður Guðnason til nefndarstarfa.

Ég vísa til fyrri umr. um málið og framsöguræðu samgrh. um skýringar á frv. eins og það var lagt fram. Nefndin fjallaði um það á fundum sínum og fékk umsagnir frá flugráði, flugmálastjóra, Hafrannsóknastofnun, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, starfsmannaráði Veðurstofunnar og öryggisnefnd Félags ísl. atvinnuflugmanna. Í þessum umsögnum komu fram nokkrar ábendingar um breytingar á texta frv. Voru þar mestar að efni til tillögur frá starfsmannaráði Veðurstofu Íslands. M. a. vegna þess að frv. var samið í samvinnu við Veðurstofuna af starfsmönnum samgrn. þótti nefndinni eðlilegt að á þessar umsagnir yrði litið í samgrn. Og það var gert. Ráðuneytisstjórinn þar og fulltrúi hans fóru yfir umsagnirnar og ræddu við þá aðila sem þær sendu. Á grundvelli þeirrar umfjöllunar hefur svo nefndin gert brtt. sem fylgja hér með á sérstöku þskj. Þær eru að sjálfsögðu ekki mjög veigamiklar, en eru hins vegar fyllri útfærsla á lagatextanum og þeim meiningum sem þar koma fram, en skýra sig að öðru leyti sjálfar.

Ég sé ekki ástæðu til þess, virðulegi forseti, að fjalla nánar um þetta mál.