30.10.1984
Sameinað þing: 11. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í B-deild Alþingistíðinda. (395)

90. mál, Seðlabanki Íslands

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Siðleysi að byggja seðlabankahús núna, sagði hv. síðasti ræðumaður. Það var ekki talið siðleysi á síðasta Alþingi, þegar flutt var frv. hér um það að stöðva þessa byggingu, þá var slíkt ekki talið siðleysi af hv. stjórnarliðum, sem enn eru þeir sömu og stöðvuðu það frv. Það hefði verið þægilegra, a.m.k. auðveldara að telja launþegum á Íslandi trú um nauðsyn á 30% kjaraskerðingu á þessu ári, ef menn hefðu líka tekið á þeim þætti sem hér er verið að ræða um en ekki sleppt honum lausum eins og upplýsingar hæstv. ráðh. bera greinilega merki.

Það er vissulega orðin venja hér að við hv. þm. hlustum á svör — ekki ráðh. sjálfra, heldur forsvarsmanna þeirra stofnana sem spurt er um. Mér finnst alltaf hafa vantað á að hæstv. ráðherrar. sem ættu ef þeir risu undir nafni að ráða ferðinni í þessum efnum, létu uppi sína skoðun, eins og í þessu tilfelli. Telur hæstv. bankamálaráðherra að það sé með eðlilegum hætti sem seðlabankamálið hefur þróast meðan hann hefur setið við völd, á sama tíma og hæstv. ráðh. stuðlar að yfir 30% skerðingu á nauðþurftalaunum launafólks? Telur hæstv. ráðh. að Seðlabankinn þurfi nauðsynlega að eiga allan þennan bílaflota, fjallabíla ásamt öðru? Ég held að það sé vonlaust verk fyrir hæstv. ríkisstj. og meiri hl. hér á Alþingi að ætla sér að telja þjóðinni trú um að ekki séu til peningar til að borga brýnustu nauðþurftir launafjölskyldna í þessu landi á sama tíma og þeir halda hlífiskildi yfir óráðsíu af því tagi sem hér hefur verið upplýst í dag. Það hefði vissulega verið skynsamlegra og minnkað taugastríð hæstv. ráðh. sumra hverra að láta eitthvað af þessum fjármunum renna til hækkunar á launum opinberra starfsmanna. Það hefði verið nauðsynlegra þjóðfélagsins vegna heldur en að láta þróast við Skúlagötuna það siðleysi sem hv. þm. Árni Johnsen, stuðningsmaður hæstv. ríkisstj. orðaði hér áðan, siðleysi í merg og bein lá við að hann segði. (ÁJ: Það voru orð þm.) Það voru orð þm., já en ég er að tala um hv. þm. Það er alveg rétt.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þetta meir. Öllum er augljóst að óráðsía hefur hér viðgengist. Það hefði verið nær af hv. Alþingi að grípa í taumana þegar tækifæri gafst á síðasta þingi og stöðva þetta a.m.k. um sinn, meðan þær þrengingar ganga yfir þjóðfélagið sem hæstv. ríkisstj. sjálf hefur sagt að væru og hefur að verulegum hluta kallað yfir íslenski þjóðfélag. Enn er tími til að spyrna við fótum þó að ráðrúmið sé þrengra en ef það hefði verið gert fyrr. Ég vil spyrja hæstv. viðskrh. í lokin: Er það hans mat að hér hafi verið haldið skynsamlega á málum í ljósi þess ástands sem er í þjóðfélaginu að því er varðar peningamál? Leggur hæstv. ráðh. blessun sína yfir þessa þróun í seðlabankamálinu, eins og ekki verður komist hjá að álita ef ekki koma greinilegri svör en hér hafa verið gefin?