30.04.1985
Neðri deild: 62. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4662 í B-deild Alþingistíðinda. (3953)

455. mál, nýsköpun í atvinnulífi

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja mjög þessar umr., enda ekki ýkjamargt í ræðum sem mér sýnist nauðsynlegt að fjalla um. Þó voru fáein atriði sem ég vil koma að.

Ég get tekið undir ýmislegt í ræðu hv. þm. Ólafs Þórðarsonar. Andstaða hans gegn því að um hlutafélag yrði að ræða hefur ætíð verið kunn. Hann er einn af stjórnarmönnum í Framkvæmdastofnun og vill hafa hlutina óbreytta. Það vilja ekki allir sem þar eru, vil ég þó taka fram.

Það er misskilningur hjá hv. þm. að ríkissjóður eigi að lána 100 millj. til hlutafjárframlaga einstaklinga. Það segir hér: lána helming til fjögurra ára og með fullnægjandi tryggingum og venjulegum vöxtum. Það þýðir að það eiga ekki að vera niðurgreiddir vextir á nokkurn máta. Ég vona að það sé fullkomlega ljóst.

Að sjálfsögðu hefur sjóðshugmyndin ýmislegt til síns ágætis og var mikið rædd. Ég er hins vegar á þeirri skoðun að ef fjármagn fæst frá öðrum aðilum utan ríkisins sé það mjög jákvætt. En það er vissulega rétt að sú hætta fylgir fyrirtæki sem þessu að töluvert tapist af því sem fyrirtækið leggur til nýsköpunar í atvinnulífinu. Staðreyndin er þó sú að svona áhættufyrirtæki starfa um allan heim og mörg hafa orðið mjög mikilvæg í nýsköpun atvinnulífs. Þetta er t. d. ein algengasta leiðin sem tíðkast í Bandaríkjunum og þar hafa fyrirtæki, sem notið hafa aðstoðar áhættufyrirtækja, orðið mörg. Sagt er þar að u. þ. b. helmingur af þeim fyrirtækjum sem fara af stað í þessum háþróuðu greinum gefist upp eða verði gjaldþrota. Samt sem áður eru menn reiðubúnir að leggja fram fjármagn til stofnunar slíkra fyrirtækja.

Að sjálfsögðu stafar þetta af því að þegar vel gengur hækkar hlutafé, sem lagt er í þessi fyrirtæki, mjög í verði og getur oft komið margfalt til baka.

Ég skal ekkert segja um það hvernig þetta tekst hérna hjá okkur. Ég hygg að það fari mjög eftir því hvaða menn veljast til að stjórna þessu fyrirtæki. Það verður vandasamt starf. Velja verður menn sem hafa góða þekkingu á afvinnulífinu, sem eru jarðbundnir, sem hugsa vissulega um arðsemina, eins og kom fram hjá hv. þm. Ellert Schram, en þó ekki eingöngu, eru tilbúnir að taka áhættu. Ég held að forstjóri Iðntæknistofnunar, Ingjaldur Hannibalsson, hafi sagt ekki alls fyrir löngu að ef allt að 70% hugmynda um nýsköpun mistakast ekki sé of lítil áhætta tekin. Ég skal ekki segja hvort það er rétt en það er áreiðanlega mjög mikilvægt að til forustu veljist menn sem eru framsýnir og þora að taka áhættu, en ávaxta þó sitt fé vel í mörgum tilfellum og geta þannig staðið undir því sem mistekst.

Vel kann að vera að auka þurfi fjármagn til þessa fyrirtækis með árunum. Ég veit ekki hvort það er neitt verra að ríkissjóður leggi þá fram aukið hlutafé en að hann leggi fram aukið fé í sjóð. Ég veit ekki hvort það er neitt verra. Mér sýnist það fullkomlega koma til greina. Ef svo fer að einkafjármagn fæst ekki í þetta fyrirtæki verður þessi starfsemi að sjálfsögðu keimlík því sem væri sjóður. Ég held að reynslan verði að skera úr um þetta. Menn eigi ekki að fordæma þessa tilraun fyrir fram.

Ég vil einnig taka fram að ég er ósammála hv. þm. í meginatriðum í því sem hann sagði um rétt eða rangt gengi. Vel má vera að gengi hafi oft ekki verið skráð eins og sumar atvinnugreinar hafa óskað, en ég hygg að í flestum tilfellum hafi menn reynt að rata meðalveginn á milli rétts gengis og kjara í landinu. Ég held að öllum sé ljóst að gengisfelling leiðir strax til hækkunar á verðlagi og ef menn eru ekki reiðubúnir til þess að láta þá hækkun koma fram í hærri launum, sem þá þýðir að gengisfellingin er á örskömmum tíma runnin út í sandinn, hlýtur gengisskerðing eða gengisfelling að leiða til kjaraskerðingar. Þetta hélt ég að öllum mönnum væri ljóst. Og ég vil taka það skýrt fram að ég var fyrir mitt leyti ekki reiðubúinn til þess að ganga lengra í því að fella gengi s. l. haust eða í maí 1983 þar sem jafnframt var gert ráð fyrir því að laun hækkuðu ekki með vísitölubindingu. Ég tel að ekki hefði verið fært að leggja meiri kjaraskerðingu á almenning í landinu, sem að vísu — án þess að ég fari að tala um það — má rekja til þess samdráttar í þjóðarframleiðslu sem orðið hefur á undanförnum árum. Ég held að menn verði að vega það og meta hvað unnt er að fella gengi.

Mér er tjáð af mönnum í sjávarútvegi að gengi muni vera nokkuð eðlilega skráð eins og er. Mér er einnig tjáð af forustumönnum iðnaðar að það sé jafnframt þeirra mat. Ég held að á Íslandi verði gengið aldrei ákveðið með uppboði á götuhornum, eins og stundum hefur heyrst. Ég held að enginn geti séð fyrir þann glundroða sem því mundi fylgja. Það eru ekki nema örfáar þjóðir í heiminum sem treysta sér að ákveða gengi í kauphöllum, stærstu þjóðir eins og Bandaríkjamenn, Þjóðverjar og Bretar og ef ég veit rétt Svisslendingar og Japanir. Ég held að smáþjóðir eins og Íslendingar gætu aldrei tekið upp þá hætti og væru þá vitanlega í stórhættu fyrir þeim áhrifum sem erlendir aðilar gætu haft á innlent gengi. En nóg um það.

Hv. þm. Ellert Schram saknar þess að ekki er minnst á „matarnefndina frægu“ í fundargerðunum. Ég vissi að vísu ekki fyrr að nm. hefðu borðað svo vel. Það er rétt að ég fann lítið bitastætt í ályktun þeirrar nefndar, hvorki í áliti sjálfstæðismanna eða framsóknarmanna. Ég segi það alveg eins og er. Mér var að vísu sagt að formaður nefndarinnar hefði lagt til að sameina alla stofnlánasjóðina í einn. Líklegast er það róttækasta hugmyndin. En hún fékk ekki brautargengi. Ég leit svo á að það sem hér er til umr., þessar þrjár stofnanir, sé öllu nær áliti sjálfstæðismanna en framsóknarmanna í nefndinni. Ég man ekki betur en í áliti sjálfstæðismanna sé undirstrikað að það eigi að vera öflug Byggðastofnun eða fer ég þar með rangt mál? Það er eins og mig minni að það hafi komið greinilega fram í því áliti einnig og það er ráð fyrir því gert í því sem hér er lagt til.

Ég get tekið undir það með hv. þm. að arðsemi þarf að hafa í huga, kannske í flestum tilfellum, en í mörgum tilfellum er ekki unnt að meta kostnað á mælikvarða arðseminnar. Hvernig verður fjármagn til heilsugæslunnar metið á mælikvarða arðsemi? Ég hef aldrei getað séð það. Eða fjármagn til tryggingakerfisins svo ég nefni þá þætti tvo sem ráða helmingi af ríkisútgjöldunum? Er hægt að meta neyðarástand í byggðum þar sem atvinnufyrirtækin stöðvast og atvinnuleysi verður og menn leggja á flótta, er hægt að meta tilraun og viðleitni til að lagtæra slíkt á mælikvarða arðseminnar? Ég held engu fremur heldur en fjármagn til svona mikilvægra þátta eins og ég nefndi áðan.

Það er misskilningur hjá hv. þm. að Byggðastofnun séu ekki mörk sett í því sambandi að ráðstafa fjármagni. Í 11. gr. segir:

„Því aðeins er Byggðastofnun heimilt að veita óafturkræf framlög að þau séu ætluð til rannsókna og tilrauna í atvinnumálum sem samrýmast hlutverki stofnunarinnar eða til að koma í veg fyrir neyðarástand í atvinnu- og byggðamálum.“

Þetta takmarkar að sjálfsögðu mjög heimild stjórnar stofnunarinnar til þess háttar ráðstöfunar á fjármagni. Auk þess takmarka vitanlega 2. og 3. gr. útlána að því að þessu leyti því þau verða að vera af byggðaástæðum.

Ég vil hins vegar taka undir það með hv. þm. að í þessu frv. er alls ekkert dregið úr því verkefni sem Byggðasjóður innan Framkvæmdastofnunar ríkisins hefur sinnt til þessa og nægir raunar að vísa til þess sem andsvars við því sem hv. 3. þm. Reykv. ræddi um í ræðu sinni í gær. Það var heldur alls ekki ætlunin. Ég held að stjórnarflokkarnir séu báðir sammála um að hér þurfi að vera öflug Byggðastofnun. Hins vegar hefur sumt í starfsemi Byggðastofnunar verið gagnrýnt. Undir sumt get ég tekið. Ég tel t. d. að þessi sjálfvirku lán sem frá upphafi hafa tíðkast við Byggðastofnun, 3 eða 5% vegna bátakaupa, sem að vísu er búið að afnema hygg ég, 10, 15, 20% til kaupa á vinnuvélum og stofnun iðnfyrirtækja um land allt o. s. frv., hafi ekki verið markviss byggðastefna. Það er að vísu ekkert í þessu frv. sem tryggir að svo haldi ekki áfram. Það fer að sjálfsögðu eftir mönnunum sem stjórna stofnuninni eins og flest. En þó er skýrt tekið fram, bæði í aths. og þeirri framsögu sem ég hélt hér, að til þess sé ætlast að stofnunin vinni markvissar að byggðamálum og einbeiti sér að verkefnum sem eru til þess að koma í veg fyrir að lífvænlegar byggðir fari í eyði.

Sagt hefur verið að Framkvæmdasjóður hafi verið mikilvægur bakhjarl Byggðastofnunar. Það er rétt. Svo hefur vissulega verið. En til þess er ætlast að Byggðastofnun starfi í nánum tengslum við Þróunarfélagið og aðra sjóði atvinnuveganna. Ætlað er að sjóðir atvinnuveganna verði opnaðir miklu meira en þeir eru nú. M. a. eru í þeim frumvarpsdrögum sem liggja fyrir ákvæði um að þeim verði heimilt að lána til hvaða atvinnustarfsemi sem er og reyndar kaflar í frv. sem gera ráð fyrir að þeir láni til nýsköpunar í atvinnulífinu hvar sem er á landinu. Þannig má segja að þessi nýja Byggðastofnun muni ekkert síður starfa með þessum sjóðum í framtíðinni en hún hefur gert með Framkvæmdasjóði til þessa. Ég held fyrir mitt leyti að farið sé inn á rétta braut með því að gera Byggðastofnun sjálfstæðari en þó að skapa henni alla möguleika til þess að vinna vel að hinum mikilvægu byggðamálum.

Hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson flutti hér nokkra ræðu um kerfið og ég get vísað til þess sem hv. þm. Ólafur Þórðarson sagði um það. Þó vil ég nefna eitt atriði sem kom mér á óvart. Þegar hann einu sinni sem oftar kenndi framsóknarmönnum um það sem afvega hefur farið, taldi hann m. a. upp stjórn ríkisfjármála og stjórn viðskipta- og bankamála. Hvorugur þessara manna telst til Framsfl. Báðir þessir hæstv. ráðh. hafa að mínu mati hins vegar farið vel með sína málaflokka. Ég er ekki með þessu að taka undir gagnrýni hv. þm., en varla getur gagnrýni hans á þessa menn talist gagnrýni á Framsfl. þó að hann heimfæri allt á okkur nú.

Ég vil hins vegar koma að örfáum atriðum sem hann nefndi. Ég get tekið undir ýmislegt sem hann ræddi málefnalega um þessi frv., eins og t. d. að hverfa meira frá miðstýringu o. s. frv. Ég get líka tekið undir það með hv. þm. að vel kemur til greina að veita landshlutum, hvort sem það eru fylki eða fjórðungar, meira forræði sinna mála. Lengi hefur verið mikið fylgi í Framsfl. við þá hugmynd. M. a. vildum við eitt sinn setja lög um fjórðungssamböndin og gera þau að slíkum aðilum. Um það náðist ekki samstaða. Hins vegar verð ég að viðurkenna ýmsar aths. sem hafa komið fram. T. d. hafa menn spurt: Er víst að sú djúpstæða skipting, sem sumir hugsa sér jafnvel á fjármagni þar sem sagt er að fjármagn sem aflað er í einstökum landshluta skuli verða í þeim landshluta, sé til góðs? Ísland er lítið land, lítið markaðssvæði og okkur veitir ekki af að standa saman um hin fjölmörgu stóru félagslegu mál, t. d. í heilsukerfinu, í tryggingunum o. s. frv. Hve djúpt á þessi skipting að verða? Á að skipta upp heilbrigðiskerfinu, á að skipta upp tryggingakerfinu o. s. frv.? Ég verð að viðurkenna, þótt ég sé fylgjandi auknu sjálfsforræði fylkja, að mér finnst sumt sem um þetta hefur vérið sagt og m. a. hefur falist í orðum hv. þm. vera miklu frekar mælt í áróðursskyni, ef ég má orða það svo, fljótfærnislegu áróðursskyni, en að um djúpa hugsun sé að ræða. Ég veit að hann hefur flutt slíkar ræður víða um landið, enda er þetta nokkuð vinsælt í dag.

Hv. þm. sagðist efast um að með þessum frv. væri nóg að gert. Undir það vil ég taka. Ég er sannfærður um að alls ekki er nóg að gert, enda sagði ég í framsöguræðu minni að svo væri ekki. Ég nefndi önnur atriði sem eru til meðferðar og eru ekkert síður mikilvæg. Ég nefndi endurskipulagningu menntakerfisins sem menntmrh. er með í ítarlegri athugun. Ég nefndi auknar rannsóknir og tilraunir og fjármagn í því skyni sem ríkisstj. hefur þegar ákveðið að auka um u. þ. b. þriðjung á þessu ári frá því sem það hefur verið. Og ég nefndi markaðsstarfsemi þar sem verið er að athuga nánari tengsl og samstarf utanrrn. og utanríkisviðskipta. Þetta eru allt saman mikilvægir þættir. Ég gæti bætt við fleiru sem er til athugunar í ríkisstj., eins og t. d. að aðflutningsgjöld og fleira þess háttar mætti fella niður af fyrirtækjum sem leggja í áhættusamar nýjar greinar.

Ég get tekið undir það með hv. þm., þó að það sé e. t. v. annað en það sem hér er til umræðu, að skuldir þjóðarinnar eru allt of miklar. Ég vísa því hins vegar á bug að við framsóknarmenn eigum alla sök á þeirri skuldasöfnun. Margir fleiri hafa þar komið að og sannast að auðveldara er að skipa sjálfan sig í dómarasætið eftir á og hvítþvo hendur sínar. Rétt er að skuldir orkugeirans eru rúmlega helmingur af öllum skuldum þjóðarinnar. Þar hafa hlutir farið á allt annan veg en ráð var fyrir gert. Vissulega má hugleiða hvort rétt hefði verið að verja t. d. 500 millj. kr. sem lánsfé til athugana á virkjun Lagarfljóts og Fljótsdalsár. Ég hygg að u. þ. b. milljarður sé nú af lánsfé í rannsóknum sem ekki verða nýttar eins og nú horfir fyrr en einhvern tíma á næsta áratug. Hins vegar lá fyrir allt önnur orkuspá þegar þetta var gert. Ég varð ekki var við að hv. þm. eða aðrir gagnrýndu þá orkuspá þegar hún var lögð fram. Eftirspurn hefur stórlega minnkað, m. a. vegna orkukreppunnar í heiminum.

Hv. þm. spurði: Hvaða þjóðir hafa náð mestum árangri? Og hann sagði réttilega að ýmsar þjóðir í austrinu, í Asíu, hefðu náð mestum árangri. Margt má eflaust af þeim þjóðum læra. Þó vil ég vekja athygli á því að allt skipulag þar er svo gjörólíkt því sem er hjá okkur að fjarri fer að megi heimfæra þeirra siði á íslenskt þjóðfélag.

En það eru líka þjóðir sem eru okkur nær sem hafa náð verulegum árangri á þessu sviði. T. d. hafa Skotar náð mjög miklum árangri í því að laða að fyrirtæki til nýsköpunar í atvinnulífinu. Ég held að segja megi að á ráðstefnu sem ég sótti nýlega á Ítalíu, og fjallað var um þessi mál, var almennt lýst þeirri stefnu að ríkisvaldið ætti að koma að þessum málum á u. þ. b. þann hátt sem hér er lagt til, þ. e. í gegnum menntakerfið, rannsóknirnar og í gegnum markaðsmálin og á einhvern máta að tryggja aðgang að fjármagni fyrir aðila á þessum sviðum. Vitanlega er þetta nokkuð breytilegt frá einu landi til annars. sums staðar koma áhrif ríkisvaldsins mest í gegnum framlag til hernaðar. Ákaflega mikil áhrif eru víða frá rannsóknum sem stundaðar eru í hernaðarskyni. Um það er að sjálfsögðu ekki að ræða hér.

Hv. 3. þm. Reykv. Svavar Gestsson flutti hér eina af sínum algengu ræðum. Ég verð að segja að mig er farið að undra hve mikillar stöðnunar gætir hjá þessum hv. þm. Það er hárrétt hjá þm. að í þessum frv. er gert ráð fyrir því að hverfa að verulegu leyti frá ríkisforsjá. Ég spyr: Hvað hefur komið út úr allri þeirri áætlanagerð sem gert var ráð fyrir með stofnun Framkvæmdastofnunar ríkisins og reyndar víðar? Hve margar áætlanir atvinnuveganna hafa verið samþykktar hér á hinu háa Alþingi? Ég held að þrjár ítarlegar áætlanir hafi verið gerðar, tvær á sviði landbúnaðar og ein á sviði iðnaðar, og ef ég man rétt hefur engin náð samþykki á Alþingi.

Áætlanir áætlunardeildar Framkvæmdastofnunar hafa því miður ekki orðið sá grundvöllur að þróun atvinnulífs sem að var stefnt. Ég fullyrði að ein áætlun þar náði þessum árangri. Það var áætlun um endurskipulagningu frystihúsanna. Ég vek athygli á fjölmörgum byggðaáætlunum sem eru mjög upplýsandi. Ég spyr: Hve margar hafa verið lagðar til grundvallar við útlán til þessarar starfsemi? Með þessu er ég ekki að segja að það hafi ekki fjölmargt mjög gott verið gert á síðasta áratug. Það liggur í hlutarins eðli og sést m. a. af því að við náðum verulegum árangri í vexti þjóðarframleiðslu og vorum orðnir í lok áratugarins meðal hæstu þjóða með þjóðarframleiðslu á hvern íbúa, taldir skv. skýrslum Efnahags- og framfarastofnunar fjórðu í röðinni af meðlimaríkjum þeirrar stofnunar. Einhver árangur hefur því svo sannarlega náðst, eins og hv. þm. Ólafur Þórðarson rakti hér áðan.

Ég hygg að tvímælalaust sé að við erum komnir á enda á þeirri braut, m. a. af þeim ástæðum, sem ég nefndi, að við getum ekki lengur sótt aukinn afla í sjóinn og landbúnaðarvörur verða ekki framleiddar til útflutnings. Ég held að flestir geti verið sammála um það.

Hv. þm. talaði mikið um að þessar stofnanir heyrðu undir forsrh. Ég skal ekki fara mörgum orðum um það, hv. 1. þm. Suðurl. fjallaði um það mál. En staðreyndin er sú að langsamlega flestir lögfræðingar sem fróðastir eru um stjórnskipun hafa sagt aftur og aftur að það samræmist ekki íslenskri stjórnarskrá og stjórnarskipunarlögum að stofnanir og fyrirtæki heyri undir ríkisstj. í heild. Það kannast allir við að ríkisstjórnin er ekki fjölskipað stjórnvald. Þetta hafa fjölmargir sagt. Staðreyndin er sú að þær stofnanir sem hafa verið taldar heyra undir ríkisstj. í heild hafa í raun heyrt undir forsrh. Forsrh. hefur farið með málefni Framkvæmdastofnunar öll árin síðan hún var sett á fót. Forsrh. hefur í ýmsum tilfellum rætt um þau mál í ríkisstj., ekki nálægt því þó í öllum. Svo er einnig með aðra ráðh. sem fara með sína málaflokka. Þeir koma með þau mál inn í ríkisstj. Ég get fullvissað hv. þm. um að hann þarf engar áhyggjur að hafa af því að fullt og gott samráð verður innan þessarar ríkisstj. um skipan mála hjá þeim fyrirtækjum og stofnunum sem hér um ræðir.

Hv. þm. hneykslaðist á því að hér væri verið að ausa út, held ég að hann hafi orðað það nokkurn veginn, 500–700 millj. kr. Svo er út af fyrir sig alls ekki. Á fjárlögum í ár eru 50 millj. sem hlutafé ríkisins í þetta fyrirtæki og þá gert ráð fyrir því að aðrar 50 fáist á fjárlögum næsta árs. Á lánsfjáráætlun er gert ráð fyrir 500 millj. kr. til nýsköpunar í atvinnulífinu, þ. e. á þeim lið sem fellur undir Framkvæmdastofnun ríkisins, og gert ráð fyrir því að 200 millj. af því lánsfé verði til ráðstöfunar fyrir Þróunarfélagið. Þetta er það fjármagn sem þegar er annaðhvort afgreitt eða til afgreiðslu hér á hinu háa Alþingi. Ég vil ekki bóka 300 millj. ríkisábyrgð sem sóun á fjármagni, því fer víðs fjarri. Ég vek athygli á því að ríkisábyrgðir t. d. til uppbyggingar togaraflotans hafa að ákaflega litlu leyti fallið á ríkissjóð, mjög litlu leyti. Ég vil alls ekki bóka það á þessari stundu að 100 millj. til viðbótar í hlutafé af hálfu ríkisins verði að koma til.

Hv. þm. ræddi um að verið væri að gera fjórar stofnanir úr einni. Ég veit ekki hver var sú fjórða. Kannske þjóðfræg stofnun sem fyrir löngu var gerð að sjálfstæðri stofnun. A. m. k. las ég þá skýringu í Þjóðviljanum. Það þýðir alls ekki að um útvíkkun á þessari starfsemi sé að ræða út af fyrir sig. Þar segir ekkert um að starfsmannafjöldi verði meiri í þessum stofnunum.

Menn hafa rætt um það hér að leggja mætti niður Framkvæmdasjóð ríkisins, sem hv. þm. Ellert Schram minntist sérstaklega á. Þetta var vandlega athugað, en það var af fróðustu mönnum talið ógerlegt vegna þess að hann er í svo miklum skuldbindingum erlendis sem um allar yrði að endursemja ef sjóðurinn yrði lagður niður. Hins vegar er gert ráð fyrir að hann verði til húsa hjá Seðlabanka Íslands og starfslið Seðlabankans sinni að verulegu leyti þörfum sjóðsins. Ég gæti best trúað því að þegar allt er tekið saman verði fækkun á því starfsliði sem nauðsynlegt er hjá þessum stofnunum.

Hv. þm. ræddi mikið um að mjög væri dregið úr allri áherslu á byggðaþróun. Út af fyrir sig hefur hv. þm. Ellert Schram svarað því, eins og ég sagði áðan. Þó vil ég koma að einu atriði. Hann gerði mikið úr því að ekki væri minnst á jafnvægi í byggð landsins. Ég vil halda því fram að í 3. gr. sé ekkert síður fjallað um þessi mál en í gildandi lögum. Hér stendur:

„Byggðastofnun fylgist með þróun byggðar í landinu. Stofnunin getur gert eða látið gera áætlanir um þróun byggða og atvinnulífs í þeim tilgangi að treysta búsetu og atvinnu í byggðum landsins.

Í samræmi við hlutverk stofnunarinnar veitir hún lán eða annan fjárhagslegan stuðning í því skyni m. a. að bæta aðstöðu til búsetu í einstökum byggðarlögum og koma í veg fyrir að óæskileg byggðaröskun eigi sér stað eða lífvænlegar byggðir fari í eyði.“

Ýmsir hafa velt því fyrir sér hvað í raun merki jafnvægi í byggð landsins. Þýðir það óbreytt ástand o. s. frv.? Í meðferð þessara mála töldu menn að æskilegt væri að skilgreina jafnvægi í byggð landsins. Segir hér: „koma í veg fyrir að óæskileg byggðaröskun eigi sér stað eða að lífvænlegar byggðir fari í eyði.“ Það skal viðurkennt að ekki er lokað fyrir það að einhverjar byggðir dragist saman ef þær eru ekki taldar lífvænlegar, enda held ég satt að segja að þrátt fyrir þá áherslu sem í frv. er lögð á að halda byggð um land allt sé ekki fortakslaust að halda uppi byggð þar sem byggð er ekki lífvænleg.

Nokkuð hefur verið rætt hér um eignarhaldsfyrirtækið og virtist gæta þess misskilnings að það væri einn angi af þessu. Það er ekki. Í eignarhaldsfyrirtækinu er gert ráð fyrir að sameina á eina hendi ýmsa þá hlutafjáreign sem er nú í höndum ýmissa ráðherra. Er gert ráð fyrir því að eignarhaldsfyrirtækið heyri undir fjmrh. sem fer með langmest af þessari hlutafjáreign. Gert er ráð fyrir því að með þessu verði samræmd starfsemi ríkissjóðs á þessu sviði sem er nú að ýmsu leyti ómarkviss. Það er því mál sem er óviðkomandi því sem hér er til umr.

Hv. þm. sagði eitt mjög fróðlegt í lokaorðum sínum þegar hann gat um þá þróun sem hér hefur orðið í þjóðarframleiðslu. Hann nefndi í fyrsta lagi að þjóðarframleiðsla hér væri orðin eingöngu u. þ. b. 70–80% af því sem hún er á Norðurlöndunum og Bandaríkjunum á hvern mann. Vel má vera að þessar tölur séu réttar. Ég vil aftur vísa til þess sem Ingjaldur Hannibalsson forstjóri Iðntæknistofnunar sagði nýlega þegar hann fullyrti að þjóðarframleiðsla á hvern mann hefði fallið á fjórum árum úr því að vera 85% af þjóðarframleiðslu í Sviss, sem hefur verið fremst landa, í 56% á s. l. ári. Það er reyndar enn þá meiri samdráttur en kom fram í orðum hv. þm.

En það var ekki síður athyglisvert, sem hv. þm. sagði, að þjóðarframleiðsla á hverja vinnustund er hér töluvert innan við helming af því sem hún er t. d. í Bandaríkjunum og reyndar með fjölmörgum öðrum þjóðum. Það er ekki nýtt. Svo hefur verið um mörg ár. Það skýrir að verulegu leyti ýmsar meinsemdir í okkar efnahagslífi. Það skýrir m. a. að hér er þörf miklu fleiri vinnustunda til að ná sömu þjóðarframleiðslu á hvern mann. Það skýrir m. a. það að framleiðni okkar grundvallaratvinnuvega á hverja vinnustund er mjög lág. Það var einmitt þetta sem ég gat um í minni framsöguræðu að væri einna mestur þrándur í götu æskilegra kjarabóta. Ég gat þess að því væri ákaflega nauðsynlegt að auka framleiðni í fiskvinnslunni með nýrri tækni, einmitt til að bæta þetta ástand, til að auka framleiðsluna á hverja vinnustund.

En vill ekki hv. þm. jafnframt spyrja sjálfan sig að því hvers vegna svona hafi farið? Getur ekki verið að það sé rétt, sem ég hef sagt, að við séum komnir á enda á þeirri braut sem við höfum byggt gífurlegan vöxt þjóðarframleiðslunnar á á undanförnum áratugum? Getur ekki verið að við verðum að leita nýrra leiða? Getur ekki verið að við verðum að hverfa frá mikilli ríkisforsjá, mikilli áætlanagerð og hlúa að þeim greinum sem hafa svo sannarlega átt fyrst og fremst heiðurinn af mikilli þjóðarframleiðslu í löndunum í kringum okkur og í Japan og í Bandaríkjunum? Fyrst og fremst verðum við að innleiða slíkar greinar bæði sem sérstakar atvinnugreinar og sem þátt í nýsköpun hinna gömlu atvinnuvega.

Það er fróðlegt dæmi sem ég sá í einni skýrslunni frá Japansferðum iðnrekenda upp á síðkastið. Japanir komust í mikla erfiðleika með sinn fataiðnað og geta ekki keppt á venjulegan hefðbundinn hátt við fataiðnað í löndum þar sem vinnuafl er ódýrara. Þeir lögðu verulegt fjármagn í það að auka framleiðni í fataiðnaðinum. Þeir lögðu fjármagn í það að þróa alls konar vélmenni til nota í þessum iðnaði. Þeim hefur tekist að fækka starfsliði í fataiðnaðinum um helming, hækka launin um u. þ. b. helming og keppa nú með árangri við þau lönd sem hafa ódýrara vinnuafl. Ég held satt að segja að við eigum að leita að einhverju slíku í okkar fiskvinnslu. Ég veit að það er miklu erfiðara en í fataiðnaði. Ekki er um sömu efni að ræða eins og í föt. Það er margt sem því veldur, en ég er sannfærður um að ná má verulegum árangri með hinni nýju tækni til að auka framleiðni í fiskvinnslu.

Ég er sem sagt sannfærður um, eftir að hafa hugleitt tölur eins og hv. þm. var með, eftir að hafa kynnt mér eins rækilega og ég get það sem aðrar þjóðir eru að gera, að leið okkar upp úr þeim öldudal sem við erum í og því alvarlega ástandi, sem hér er og kemur fram í þessum tölum, er einmitt nýsköpun í atvinnulífinu eftir leiðum sem hér er lagt til. Ég vil segja að lokum að vel má vera að þetta sé ekki nóg og ríkisvaldið þarf vitanlega að hugleiða það, en ég leyfi mér að fullyrða að mjög ákveðin og markviss skref séu með þessu tekin til að stuðla að nýsköpun í íslensku atvinnulífi.