02.05.1985
Sameinað þing: 78. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4714 í B-deild Alþingistíðinda. (3979)

Skýrsla um utanríkismál

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Sú skýrsla sem hér liggur fyrir gefur í sjálfu sér tilefni til þess að minnast á mjög mörg atriði. En ég mun halda mig við fáein þeirra þó svo ég verði kannske að taka með því áhættuna af því að vera borið á brýn að vera með hólfaða heimssýn. Það verða ekki nema nokkrir þættir sem ég tek hér til umfjöllunar.

Ég vil þá fyrst fagna því að hæstv. utanrrh. hefur lagt fram þáltill. um staðfestingu á hafréttarsamningnum. Ég vil í annan stað minna á það mikla starf sem hefur verið unnið í rn. og af hálfu utanrmn. til þess að treysta réttindi okkar Íslendinga á hafsbotninum og þá á grundvelli ályktana sem hér hafa verið gerðar á Alþin í varðandi Rockall-hásléttuna og Reykjaneshrygginn. Ég tel að þetta tvennt sé ákaflega mikilvægt og að á þessu sviði hafi verið unnin mjög mikilvæg störf undir ágætri forustu formanns utanrmn., Eyjólfs Konráðs Jónssonar, og hæstv. utanrrh.

Það er ekki vafi á því og kemur fram í máli flestra, sem taka til máls um utanríkismál, að ekkert sé okkur mikilvægara en að tryggja að friður geti haldist a. m. k. í okkar heimshluta. Sjálfsagt getum við ekki gert öllu meiri kröfur, því að við getum ekki haldið því fram að friður hafi ríkt í heiminum, svo margar styrjaldir sem ríkt hafa víðs vegar í öðrum og fjarlægari löndum. Þess vegna hljótum við líka að sjá til þess að einskis sé látið ófreistað til að þessi friður haldist. Það er vissulega verkefni sem yfirskyggir allt annað sem við erum að fást við.

Við Íslendingar höfum valið að tryggja öryggi okkar með aðild að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningi við Bandaríkin. Það verður ekki annað sagt en þetta hafi gefist okkur vel. Við höfum svo sannarlega notið friðar og í okkar heimshluta hefur ríkt stöðugleiki og jafnvægi. Það er þó vitaskuld ævinlega hætta á því að þetta jafnvægi raskist og það hefur valdið okkur áhyggjum hversu mjög hernaðarumsvif hafa aukist á hafinu hér fyrir norðan okkur. Þess vegna megum við að sjálfsögðu ekki sofna á verðinum og það dugar ekki að vera með úreltan viðbúnað eða úreltan búnað yfir höfuð tekið. Við Alþfl.-menn teljum þess vegna nauðsynlegt að sá búnaður sem úreltur er, eins og t. d. ratsjárstöðvar, verði endurnýjaður. Og við leggjum á sama hátt áherslu á að áfram verði haldið endurnýjun á olíugeymum í Helguvík. Á þetta legg ég áherslu. Ef menn eru með úreltan búnað, þá getur það boðið hættunni heim eins og ég hef áður gert hér að umtalsefni.

Eins og kom fram hjá hæstv. utanrrh., þá er vitaskuld jafnframt nauðsynlegt að við aukum þekkingu okkar sjálfra á varnar- og öryggismálum. Ég fagna þeirri stefnu sem utanrrh. hefur boðað í þeim efnum og ég held að hún njóti stuðnings allra flokka í þinginu. En það að við höldum vöku okkar og endurnýjum úreltan búnað og leggjum áherslu á að jafnvægi ekki raskist á ekki að þýða það, að við leggjum okkur ekki fram um að slakað verði á spennu í heiminum, leggjum okkur ekki fram um það að stuðlað verði að afvopnun og lögð áhersla á það að dregið verði úr vígbúnaði. Þvert á móti er það svo að jafnvægi og slökun spennu eru tvær hliðar á sama máli og hvorugt fær staðist án hins. Þetta eru í raun og sannleika tvíburar. Af þessum ástæðum og með tilliti til þess sem hér hefur verið sagt áður er það augljóst að við hljótum að reyna að treysta öryggi okkar með samvinnu við aðra aðila eftir því sem frekast er mögulegt. Og ég held að sú afstaða, sem kom fram í máli hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar, að við skyldum vera hlutlaus og utan allra hernaðarbandalaga sé barnaleg og fái ekki staðist. Ég hef stundum orðað það svo, þegar menn segja að við séum skotmörk Rússa vegna þess að við séum í varnarsamstarfi við vestrænar þjóðir, að ef fara ætti þá leið sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson gerði að umtalsefni yrðum við skotmörk beggja í staðinn og spennan mundi aukast í kringum okkur. Ég get ekki heldur fallist á þá heimssýn, sem mér finnst koma fram hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni og hv. þm. sigríði Dúnu, að það sé álitamál hvort stórveldið væri verra. Án þess að fara út í smáatriði eða afsaka framkomu Bandaríkjanna í ýmsum greinum, þá er ég ekki í neinum vafa um að á þessum tveimur stórveldum er mjög verulegur munur.

Ég tel að við hljótum vitaskuld að stuðla að því eftir mætti, jafnframt því að við sjáum til þess að öryggi okkar sé upp haldið og jafnvægi ríki í okkar heimshluta, að unnið verði að gagnkvæmri og alhliða afvopnun sem væri tryggð með alþjóðlegu eftirliti. Ég tel að við eigum að gera það eftir því sem mögulegt er og við eigum að hvetja til alþjóðlegra samninga um reglubundna fækkun á kjarnavopnum. Öllum slíkum aðgerðum verður að fylgja eftir og gera það með þeim hætti að þeir málsaðilar sem hér um ræðir geti unað því og treyst að slíkt samkomulag sé haldið. En það er ekki afvopnunin ein sem skiptir máli heldur ekki síður að leitast við að draga úr spennu á öllum sviðum, leitast við að draga úr tortryggni á milli þjóða heims og þá einkum stórveldanna. Ég tel að Alþingi Íslendinga og Íslendingar allir hljóti ævinlega að leggja allri slíkri viðleitni lið.

Ég veit að það getur reynst erfitt að koma fram þeirri slökun spennu og þeirri nauðsynlegu eyðingu á tortryggni sem ég geri hér að umtalsefni, þegar við er að eiga aðila sem mistúlkar sjónarmið okkar, vill feigt það efnahagskerfi sem við búum við og það pólitíska kerfi sem við búum við. En samt verðum við að reyna vegna þess að það er enginn annar valkostur. Við, hin vestrænu lýðræðisríki, verðum að beita hugkvæmni í þeim efnum og framsýni. Við verðum í rauninni að vera í viljanum staðföst og sýna einbeitni án þess að láta nokkru sinni í minni pokann eða fórna hagsmunum okkar og öryggi.

Það er vissulega satt að það ríkir mikil spenna milli stórveldanna. Það sem er jafnframt alvarlegt er að samband milli stórveldanna er lítið og sameiginleg samtöl þeirra eru ótíð meðan við fáum oft að heyra yfirlýsingar sem einkennast af óvináttu og jafnvel fjandskap. Það er tortryggni sem ríður húsum. En jafnvel þótt svona sé og jafnvel þótt við séum gersamlega ósammála þeim markmiðum sem menn hafa í Sovétríkjunum, þá eru þau þarna og við verðum að lifa við það og finna aðferðir til að lifa með þeim, aðferðir sem eru betri en það ógnarjafnvægi sem við búum við og því er. nauðsynlegt að andrúmsloftið breytist og batni. Við verðum sem sagt að læra að lifa saman, austur og vestur, því að annars deyjum við saman. Og við ætlum að lifa.

Ég held að eina leiðin sé sú að auka samband og samskipti á öllum sviðum, á menningarlega sviðinu, á pólitíska sviðinu og í efnahagsmálum og reyna með þessum hætti að byggja brú. Ég veit að tortryggni sovésku þjóðarinnar og valdhafanna þar er mikil og ég veit að þeir hafa aðrar hugmyndir og markmið en við um veröldina, um frelsið, um efnahagskerfið. En eitt markmið ætti þó að geta verið sameiginlegt: það að lifa. Í mínum huga er þetta sú leið sem verður að fara í slökun spennu þótt hún sé torsótt og vafalaust löng. Til að fara þessa leið þarf sjálfsagt bæði festu og sveigjanleika. En það þýðir alls ekki, eins og ég gerði að umtalsefni hér í upphafi, að vestræn lýðræðisríki eigi ekki að sinna öryggismálum sínum því að jafnvægi verður að vera í vörnum á hverjum tíma. Slökun án jafnvægis stenst ekki og þess vegna er jafnvægi í varnarviðbúnaði í mínum huga órjúfanlegur þáttur í viðleitninni til slökunar.

Það má vissulega segja að ógnarjafnvægið hafi tryggt okkur frið. En kostnaðurinn við það er mikill og tilhugsunin um ógnarjafnvægið sjálft er í sjálfu sér hrollvekjandi. Og hitt skulum við líka hafa í huga, að það sem einu sinni hefur gilt þarf ekki að gilda áfram. Ég held að við viljum öll gjarnan komast úr þessum farvegi og þess vegna verðum við að leita leiða sem geta komið í stað ógnarjafnvægisins. En mér er ljóst að það mun taka tíma. Eitt af því sem við, vestræn lýðræðisríki, hljótum að hyggja að í því sambandi er að við séum ekki eins háð kjarnorkuvopnum og við í raun erum. Þetta er mikið og mikilvægt verkefni.

Herra forseti. Þetta vildi ég sagt hafa almennt um utanríkismálin og að því er varðar það vígbúnaðarkapphlaup sem í gangi er og þá heimsmynd sem við lifum við. Það væri ástæða til þess að fara nokkrum orðum um mörg málefni sem fyrir eru tekin í þessari skýrslu og ýmislegt reyndar einnig sem ekki er að finna í skýrslunni. En ég ætlaði ekki að fjalla um Miðausturlönd eða Afganistan eða önnur atriði af þessu tagi og einskorða mig einungis við tvennt.

Í fyrsta lagi vil ég aðeins minnast á það ástand sem ríkir í Nicaragua. Ég hef löngum óttast að sú stefna, sem hefur verið ríkjandi í þeim málum af hálfu Bandaríkjastjórnar mundi hrekja þessa þjóð í faðm Rússa. Ég óttast það enn frekar af nýjustu tíðindum. Ég held að það sé ástæða til þess að Evrópuþjóðir taki höndum saman um að veita þeim, sem þarna fara með stjórn, möguleika á öðru samstarfi en við Sovétmenn. Það væri fróðlegt að vita hvort hæstv. utanrrh. hefur hugleitt þetta sérstaklega eða hver stefna ríkisstj. er í þessum málum.

Í öðru lagi vil ég minnast stuttlega á málefni Suður-Afríku og apartheid-stefnuna, þá fyrirlitlegu stefnu. Mér hefur oft fundist ótrúlegt tómlæti hér á landi um það sem er að gerast í Suður-Afríku og mér finnst enn ríkja hér verulegt tómlæti í þessum efnum þó umræður hafi nokkuð aukist. Við Alþfl.-menn fluttum þáltill. um þessi málefni 1982. Hún varð ekki útrædd og lýsti það í sjálfu sér nokkru tómlæti á þeim tíma. Ég tel að við Íslendingar verðum að standa að hertum aðgerðum til þess að þrýsta á ríkisstjórn Suður-Afríku um afnám apartheid-stefnunnar og það að skila aftur Namibíu. Ég tel það nauðsynlegt að við stöndum okkur í þessum efnum. Um þetta mál er farið nokkrum orðum í skýrslu hæstv. utanrrh. En ég fæ ekki séð af því sem þar stendur hvers sé að vænta af hálfu ríkisstj. í þessum efnum og vildi þess vegna gjarnan beina þeirri spurningu til hæstv. utanrrh. hver sé afstaða ríkisstj. um aðgerðir á þessu sviði og hvort vænta megi sérstakra aðgerða af hálfu íslenskra stjórnvalda.

Þessu næst, herra forseti, langar mig til að fara fáeinum orðum um það sem nefna mætti utanríkisviðskipti. Ég vil þá fyrst minnast á þá ógn sem ég tel að íslensku efnahagslífi standi af styrkjum og niðurgreiðslum í sjávarútvegi í ýmsum samkeppnislöndum okkar. Ég tel að aðgerðir þessara samkeppnislanda okkar séu hliðstæðar við verndartolla og séu þess vegna andstæðar þeim anda, sem ríkir í ýmiss konar alþjóðasamþykktum og alþjóðastofnunum, sem við Íslendingar erum aðilar að og þessi samkeppnislönd okkar líka. Ég hef áður gert þetta að umtalsefni, bæði hér úr þessum stól og eins í utanrmn. Ég held að það séu um níu mánuðir síðan ég bað um það í utanrmn. að skýrsla yrði samin um stöðu þessara mála í ýmsum grannlöndum okkar. Það eina sem ég hef séð er nokkur samantekt um hvernig þessum málum sé komið í Noregi. Ég hefði gjarnan viljað inna hæstv. utanrrh. eftir því hvað tefji frágang slíkrar skýrslu og hvenær hennar sé að vænta. Ég held því miður að allt of fáum sé ljóst hvað hér er í húfi.

Ég hef sjálfur leitast við að gera þetta að umræðuefni bæði í Evrópuráðinu og EFTA, reyndar kannske með nokkrum árangri í Evrópuráðinu, því að þar var mér falið að leggja fram skýrslu um fiskveiðimál, sem m. a. fjallaði um hættuna á niðurgreiðslum og styrkveitingum í sjávarútvegi, og þar fékkst samþykkt ályktun þar sem varað var nokkuð við í þessum efnum. En það hrekkur ekki nema skammt þó að við þm. tökum þessi mál upp þar sem við höfum tækifæri til. Það sem mestu skiptir er að ríkisstj. hafi frumkvæði í þessum málaflokki. Ég tel nauðsynlegt að hún hafi frumkvæði að því að taka upp tvíhliða viðræður við þjóðir eins og Norðmenn og Kanadamenn um þetta vandamál. Ég vildi gjarnan inna hæstv. utanrrh. eftir því hvað sé að gerast í þessum efnum, hvað ríkisstj. hafi á prjónunum.

Næsti þátturinn er varðar utanríkisviðskipti og ég vildi drepa hér stuttlega á er það sem ég gæti nefnt saltfiskstoll Efnahagsbandalagsins. Það gerðist hér á einni nóttu að 23 ára gömul ákvörðun um það að ekki skyldi vera tollur á saltfiski og skreið í viðskiptum okkar við Efnahagsbandalagið var ógilt. Í þessari ákvörðun Efnahagsbandalagsins felst viðskiptahindrun, í henni felst verndaraðgerð og þessi aðgerð Efnahagsbandalagsins brýtur gegn þeirri stefnu sem Efnahagsbandalagið hefur boðað og brýtur gegn Lúxemborgar-yfirlýsingunni sem forráðamenn Efnahagsbandalagsins hafa staðið að. Þessu getum við Íslendingar ekki unað og verðum að berjast gegn því af alefli. Ég skora á ríkisstj. að beita sér eftir mætti í þessu máli. Ég tel nauðsynlegt að við knýjum Efnahagsbandalagið til að viðurkenna að hér hafi hreinlega verið um mistök að ræða af þeirra hálfu.

Þriðja atriðið, sem kannske má tæpast flokka undir utanríkisviðskipti, varðar hins vegar sérstaklega efnahagsmál á Íslandi. Það eru loðnuveiðarnar og sá ágreiningur sem óleystur er og uppi er milli Norðmanna, Grænlendinga og Íslendinga. Hæstv. utanrrh. gerði þetta að umtalsefni í ræðu sinni og um það er fjallað í skýrslunni. Þetta er horn í síðu okkar, þetta er norrænt líkþorn, liggur mér við að segja, og úr því verður að leysa, annars er loðnustofninn í hættu og þar með ýmsir efnahagslegir hagsmunir okkar Íslendinga og reyndar allra þessara þjóða. Ég ætla að láta í ljós von um að ötullega verði unnið að þessu máli og lausn megi finnast og fást áður en haustvertíð hefst.

Að síðustu, herra forseti, vil ég fara fáeinum orðum um þróunarsamvinnu og þróunarhjálp. Þau mál hafa áður komið til umfjöllunar hér og ég hef áður gert þeim allítarleg skil og skal ess vegna vera stuttorður að þessu sinni. Ég held að Íslendingar hafi verið óþægilega tómlátir um þessi mál mörg undanfarin ár en nú sé þjóðin að vakna í þessum efnum. Mér finnst lofsvert það framtak sem kirkjan og Rauði krossinn hafa staðið fyrir og sú aukning sem hefur orðið í frjálsum framlögum fyrir atbeina þessara aðila. En þeim mun hörmulegra er hversu smánarlega lágt hið opinbera framlag er. Fjárframlag til þessa málaflokks hér á landi er langt frá því að vera sambærilegt við þann stuðning sem t. d. önnur Norðurlönd veita. Það framlag sem ætti skv. samþykktum og yfirlýstum markmiðum, sem Ísland hefur aðhyllst, að vera 0.7% er nú á árinu 1985 aðeins 0.08% .

Á Alþingi 1981–1982 fluttum við þm. Alþfl. till. til þál. um að fela ríkisstj. að láta Þróunarsamvinnustofnun Íslands gera í samráði við fulltrúa þingflokkanna fimm ára áætlun um aukinn stuðning Íslendinga við þau ríki sem skemmst eru komin á þróunarbrautinni. Í þeim texta sagði þá m. a. að fjárhagslegar forsendur áætlunarinnar séu þær að framlög hins opinbera nemi 0.7% af þjóðarframleiðslunni í lok áætlunartímabilsins. Til að ná þessu marki verði við það miðað að tvöfalda opinbert framlag á ári hverju næstu árin. Þessi till. náði ekki fram að ganga á þeim tíma. En nú hillir sem betur fer undir að áætlunargerð þessi verði unnin. Ég fagna því mjög að tekist hefur, að því er virðist, allvíðtæk samstaða um að setja niður markmið af þessu tagi, sem reynt verði að ná í áföngum og áfangarnir verði markaðir. Þó að hugmynd okkar hafi á sínum tíma verið sú að þetta yrði gert á fimm árum, þá getur það auðvitað ekki orðið að ágreiningsefni hvort árin eru fimm, sex eða sjö. Aðalatriðið er að við stígum þetta skref.

Herra forseti. Eins og kom fram hér í upphafi, þá hef ég ekki fjallað um nema fáeina drætti í þeirri skýrslu um utanríkismál sem hér liggur fyrir og ekki nema fáein af þeim atriðum sem gjarnan hefði verið ástæða til að ræða. Ég hef gert það viljandi að lengja ekki umræður frekar en ég hef gert með þessu og velja úr einungis nokkur atriði.

Ég vil svo ljúka máli mínu með því að endurtaka það, sem ég sagði í upphafi, að ekkert er okkur mikilvægara en friður verði tryggður. Við höfum notið friðar með því fyrirkomulagi sem við höfum valið okkur til þess að skipa öryggismálum okkar og það verðum við ævinlega að virða. En jafnframt ber okkur skylda til þess að reyna allt sem unnt er til þess að stuðla að því að dregið verði úr spennu í heiminum og vígbúnaðarkapphlaupi megi linna.