30.10.1984
Sameinað þing: 11. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í B-deild Alþingistíðinda. (398)

90. mál, Seðlabanki Íslands

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen:

) Herra forseti. Í fyrsta lagi var beint hér sex fsp. til viðskrh. og þær birtar á þskj. Ég met það svo, að í fsp.-tíma svari ráðh. þeim fsp. sem til þeirra er beint. Menn hafa gagnrýnt að verið sé að eyða tíma Alþingis með löngum ræðum þegar hægt sé að svara spurningum. Ég hef reynt að gera það með þeim hætti og ég mun halda áfram að gera það. Ég get svo haft skoðun á byggingu Seðlabankans og látið hana koma fram þar sem umr. um seðlabankabygginguna sem slíka eru á dagskrá.

Hv. 10. landsk. þm. spurði hér áðan um endurskoðun á lögum Seðlabankans og að hæstv. fjmrh. hefði vikið að því hér á síðasta þingi. Ég gerði ítarlega grein fyrir því þá að það hefur starfað nefnd sem skipuð var af þáv. viðskrh. Tómasi Árnasyni. Sú nefnd hefur skilað frv. til viðskrn. Innan tíðar mun það frv. verða lagt fyrir Alþingi og þá fá alþm. tækifæri til að koma fram með sínar tillögur um Seðlabankann, starfsemi hans og annað er þar við kemur. (GHelg: Hver er formaður nefndarinnar?) Formaður nefndarinnar fyrst var núv. hæstv. sjútvrh., en síðan tók við formennsku í nefndinni hv. 1. þm. Suðurl. Aðrir sem í nefndinni hafa verið eru fyrrv. viðskrh. Lúðvík Jósepsson, fyrrv. alþm. Jón G. Sólnes, fyrrv. viðskrh. Kjartan Jóhannsson og Björn Líndal deildarstjóri í viðskrn. Þessi frv., þ.e. um Seðlabankann og um viðskiptabankana, verða lögð fyrir Alþingi innan skamms tíma.

En umr. sem þessar og þau orð sem hér hafa verið sögð eru þess eðlis að mig langar til að gera þau að umtalsefni þótt örstutt verði.

Hv. fyrirspyrjandi sagði að þessar stofnanir þendust út o.s.frv. án þess að nokkur fengi rönd við reist. Ég veit nú ekki betur en Alþingi hafi kosið bankaráð Seðlabankans allt frá upphafi og a.m.k. þeir stjórnmálaflokkar sem lengst af hafa átt fulltrúa hér á Alþingi kosið fulltrúa sína í bankaráð. Þeir aðilar sem þar hafa setið hafa verið valdir af þingflokkunum og þeir þess vegna haft fullan aðgang að þessum mönnum og getað fengið að vita það sem þá lysti og ef þeir hefðu óskað eftir getað sett þeim forskrift um hegðun í bankaráðinu.

Virðum fyrir okkur hverjir hafa gegnt embætti viðskrh. undanfarin fimm ár. Það skyldi þó ekki vera að menn fyndu fulltrúa næstum allra stjórnmálaflokkanna, sem á Alþingi sitja, m.a.s. sjálfan formann Alþfl., og ég man ekki eftir því að gerðar hafi verið neinar athugasemdir í neinu tilviki. Kannske ekki ástæða til að svo hafi verið gert. Formaður Alþb. var líka viðskrh. og Framsfl. hefur átt viðskrh. og Sjálfstfl. nú. Ef menn vilja koma hér upp og „sletta úr klaufunum“, eins og það er orðað, þá geta menn gert það. En það hafa allir, sem borið hafa ábyrgð á stjórn þessa lands, haft tækifæri til að koma sínum afhugasemdum að.

Það eru kannske fleiri hús í þessu landi sem menn horfa á í dag. Það skyldi þó ekki vera að hv. fyrirspyrjandi ætti eftir að flytja inn í eitt af þeim. Mér er sagt að hann hafi lagt til að leggja það niður. Það tíðkast í dag að koma með tillögur um að leggja hlutina niður. En við skulum bara átta okkur á því að hér er um að ræða útvarpsráð og forustumenn útvarpsins, sem hafa tekið ákvörðun um það hvernig að þeim hlutum skuli staðið, og það er langt síðan það var gert. Að mínum dómi þýðir ekki að koma hér fram nú og ræða málin. Það má spyrja um bókasafn. Það hefur hv. 10. landsk. þm. gert og hún fékk tækifæri til að skoða það á sínum tíma. Menn tala um laxveiði, tala um málverk. Ég þekki þetta ekki svo að það verður þá að gera það undir einhverjum öðrum kringumstæðum. Ég hef hins vegar séð bókasafnið og það er mjög gott bókasafn. Ég er alltaf ákaflega hrifinn þegar ég sé falleg og góð bókasöfn. (GHelg: Hann hefur bara ekki efni á því að eiga það.)

Hér var verið að bera saman fjármuni sem þessi stofnun hefur notað og menn brugðu sér til Eþíópíu. Ég hef aldrei komið þangað svo að ég veit ekki hvernig hagar til þar. Hér kom hv. 5. þm. Reykv. og sagði að ráðuneytisstjórarnir og bankastjórarnir í Eþíópíu — ég las í fréttinni að marxistarnir og Leninistarnir hefðu keypt sér whisky til að halda upp á 10 ára yfirtökuafmælið, en það stóð nú ekki með að þetta væru ráðuneytisstjórar og bankastjórar. Einhver hvíslaði því að þeir væru bara ekki til þar, það væri ekki það kerfi sem þar væri starfað eftir. (Gripið fram í.) Vel má vera að hv. þm. þekki betur þar til og sjálfsagt gerir hann það. En ég held að slíkar umr. sem hér hafa farið fram eigi að eiga sér stað þegar málefni Seðlabankans verða hér til umr. Svör við þeim spurningum sem hér voru á þskj. frá hv. 5. landsk. þm. gaf ég, en fsp. hans er hér til svara. Ég get svo haft, eins og ég sagði áðan, skoðanir á þessum hlutum, en ég tel eðlilegt að þær komi fram þegar málefni Seðlabankans verða hér til umr. Ég tel að þau svör sem ég gaf séu fullnægjandi svör við þeim fsp. sem til mín var beint og það kom reyndar fram í svari fyrirspyrjanda.