02.05.1985
Sameinað þing: 78. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4719 í B-deild Alþingistíðinda. (3980)

Skýrsla um utanríkismál

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég mun hér í örfáum orðum einkum fjalla um norrænt samstarf og vil byrja með því að vekja athygli á þskj. 807 sem er skýrsla um norrænt samstarf árið 1984. Þetta er skýrsla frá Íslandsdeild Norðurlandaráðs. Þar er í nokkuð ítarlegu máli greint frá starfsemi Norðurlandaráðs og Íslandsdeildarinnar og ég mun aðeins stikla á örfáum punktum úr þessari skýrslu.

Á 32. þingi Norðurlandaráðs, sem haldið var í stokkhólmi 27. febr. til 2. mars 1984, var fjallað um ýmis efni eins og gefur að skilja. Af hálfu íslensku fulltrúanna í Norðurlandaráði var m. a. fjallað um aukna aðild Færeyja, Grænlands og Álandseyja að Norðurlandaráði og ábyrgð þá sem því fylgir fyrir hin löndin og um niðurgreiðslur Norðmanna á fiskútflutningi sínum. Einnig komu fram efasemdir hjá íslensku fulltrúunum um að aukin flokkspólitísk áhrif, sem æ meir gætir í starfsemi Norðurlandaráðs, ykju líkur á árangursríku starfi.

Af hálfu Íslendinga, eins og annarra fulltrúa í Norðurlandaráði, var einnig í almennu umræðunum mikið fjallað um tillögur hinnar svonefndu Benkow-nefndar sem lagði til breytingar á skipulagi og starfsháttum Norðurlandaráðs. Kom fram nokkur ótti um að sum atriði í þessum tillögum, t. d. tillögurnar um sameiningu fjárlaganna og menningarmálafjárlaganna, hefðu í för með sér hnignun í samstarfi í menningarmálum ef samhliða sameiningunni yrðu ekki gerðar ráðstafanir sem tryggðu menningarmálasamstarfinu þann grundvallarsess sem því bæri í norrænu samstarfi. Það var ekki gengið frá þessu máli á þinginu í Stokkhólmi, heldur var því frestað til 33. þingsins, sem haldið var í Reykjavík, að taka afstöðu til skýrslunnar og m. a. í þeim tilgangi að landsdeildunum gæfist kostur á að fjalla nákvæmlega um málið. Við settum þarna fram vissar efasemdir um nokkur atriði og ýmsar þessara aths. báru árangur. Fulltrúi Íslands í Benkow-nefndinni, Matthías A. Mathiesen viðskrh., hafði gert fyrirvara við ákveðin atriði og að mestu leyti urðu tillögurnar í endanlegri gerð þannig að tekin voru til greina þau sjónarmið sem Matthías A. Mathiesen setti fram í nefndinni.

Ríkisstjórn Íslands gat þess þegar hún samþykkti ráðherranefndartillögurnar að hún vænti stuðnings við þingmannatillögu þá sem fyrirhugað væri að leggja fram um samnorræna rannsóknastarfsemi á Íslandi. Umræður höfðu þá þegar farið fram um að eðlilegt væri að samnorræn rannsóknastarfsemi, tengd undirstöðuatvinnugreinum Íslendinga og annarra norrænna fiskveiðiþjóða, yrði byggð upp á Íslandi samtímis því sem starfsemi Norræna iðnþróunarsjóðsins yrði efld og flutt til Noregs. Við undirbjuggum tillögugerð um þessa norrænu rannsóknastarfsemi og Íslandsdeildin boðaði til fundar með hópi sérfræðinga á sviði fiskifræði, líffræði, líftækni, sjávarlíffræði og landbúnaðar. Sérfræðingarnir sem við höfðum einkum með í ráðum voru Sigmundur Guðbjarnason, Vilhjálmur Lúðvíksson, Björn Dagbjartsson, Guðmundur Eggertsson, Jakob Jakobsson, Ragnar Ingólfsson, Guðmundur Einarsson og Þorsteinn Tómasson. Það voru haldnir fundir með þessum sérfræðingum og þeir aðstoðuðu okkur við að móta hugmynd að þingmannatillögu sem við höfum nú flutt í Norðurlandaráði um samnorræna líftæknistofnun á Íslandi. Tillagan um þessa samnorrænu líftæknistofnun hljóðar á þessa leið:

„Norðurlandaráð felur ráðherranefndinni að gangast fyrir stofnun norrænnar líftæknistofnunar á Íslandi. Líftæknistofnunin hafi það meginhlutverk að þróa aðferðir sem hefðu hagnýtt gildi við nýtingu á auðæfum hafsins.“

Þessa tillögu kynntum við síðan á þingi Norðurlandaráðs sem haldið var hér í Reykjavík. Hún hlaut mjög góðar undirtektir og ég held að ég megi fullyrða að pólitískur vilji sé fyrir því að setja þessa stofnun hér upp og vænti ég þess að á næsta þingi verði þessi tillaga samþykkt.

Eins og ég sagði áðan og flestir sjálfsagt muna var 33. þing Norðurlandaráðs háð hér í Reykjavík dagana 4.8. mars. Íslandsdeildin skipaði á fundi 16. okt. 1984 nefnd til að vinna að undirbúningi þingsins. Í þeirri nefnd voru Ólafur G. Einarsson, Friðrik Ólafsson, Hörður Bjarnason, Aðalsteinn Maack og Snjólaug Ólafsdóttir, auk mín. Snjólaug Ólafsdóttir var framkvæmdastjóri fyrir þinginu og skilaði þar miklu og mikilvægu starfi. Ég hygg að þetta Norðurlandaráðsþing, sem haldið var hér í Reykjavík, hafi að allra dómi tekist vel. Framkvæmd þingsins var góð og mörg merkileg mál afgreidd. Málefnaundirbúningur undir þetta þing hafði verið mjög markviss og vandaður. Það er rétt að geta þess að formaður ráðherranefndarinnar s. l. ár var hæstv. viðskrh. Matthías Á. Mathiesen og undir hans stjórn var unnið skipulega og vel að undirbúningi frá ráðherranefndarinnar hálfu. Hann hafði sér til aðstoðar ágætan starfsmann, Jón Júlíusson.

Staða okkar í Norðurlandaráði er sterk eins og stendur því að auk þess að hafa forsæti í ráðinu er hv. þm. Eiður Guðnason formaður menningarmálanefndar ráðsins og hv. þm. Guðrún Helgadóttir er formaður í upplýsinganefndinni. Snjólaug Ólafsdóttir er formaður í ritaranefndinni. Við viljum nota þessa sterku aðstöðu til eflingar norrænni samvinnu. Ég fel að hún sé mjög mikilvæg fyrir okkur því að hér er um að ræða þær þjóðir sem eru okkur skyldastar að sögu, tungu og menningu.

Þá er rétt að geta um starf þingmannanefndar sem vinna á að auknum samskiptum Færeyinga, Grænlendinga og Íslendinga. Það hefur orðið mikill dráttur á að sú nefnd hæfi formlega störf. Það er vegna þess að Grænlendingar hafa ekki enn þá tilnefnt formlega fulltrúa sína í þessa nefnd. Þeir frestuðu því meðan þeir væru að losa sig út úr Efnahagsbandalagi Evrópu. Nú er því lokið og þetta stendur til bóta. Í sambandi við þing Norðurlandaráðs héldum við tvo undirbúningsfundi með fulltrúum frá Færeyjum og Grænlandi og þar var það yfirlýst af Grænlendinga hálfu að þeir mundu kjósa sína fulltrúa nú í vor og nefndin ætti því að geta ofurlífið síðsumars eða í haust af fullum krafti.