03.05.1985
Efri deild: 63. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4754 í B-deild Alþingistíðinda. (3992)

416. mál, þingsköp Alþingis

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Hæstv. forseti. Ræða hv. 3. þm. Norðurl. v. gæti gefið tilefni til að halda hér langa ræðu. Hann kom víða við og það má segja að það gefi tilefni til áframhaldandi og ítarlegri umr. En það má lengi halda svo áfram án þess að við ljúkum að segja allan sannleikann í þessu máli. Ég skal nú stilla máli mínu í hóf. En það verður ekki komist hjá því að minnast á viss atriði og það kannske frekar hvernig hv. þm. hagar málflutningi sínum hér.

Undir lok ræðu sinnar vék hann að þessu tilviki sem hann gerði áður að umræðuefni, að ríkisstj. vildi senda þingið heim þrjá til fjóra mánuði á venjulegum þingtíma og sagði að það þyrfti ekkert að vera útilokað. En hann vék ekki einu orði að því sem ég sagði hér rétt áðan, að jafnvel þó að við gæfum okkur að þetta væri ekki útilokað og þetta skeði væru þm. ekki verr settir með ný þingskapalög skv. þessu frv. en skv. þingskapalögunum í dag. Ég ætla ekki að endurtaka það sem ég sagði áðan. (Gripið fram í.) Hann kemur ekki inn á þetta, hv. þm.

Hv. þm. sagði núna í upphafi ræðu sinnar að það væri misskilningur að hann hefði sagt að þingskapalaganefndin, sem vann þetta frv., hefði unnið störf sín illa. En ef það var eitthvað til í því sem hann sagði m. ö. o. var kannske ekki fjarri lagi að draga þá ályktun að svo væri, að menn ynnu sín störf illa. En mér þykir vænt um að hv. þm. segir nú að svo sé ekki og við erum þá sammála um það.

Hv. þm. talar um það enn þá að verið sé að hraða málinu og ekki leitað samráðs. Þetta er meginkjarninn.

Ég svaraði þessu hvoru tveggja allítarlega í ræðu minni áðan. Hann kom ekkert inn á það sem ég sagði, hann hrakti ekkert af því sem ég sagði í því efni um málsmeðferðina. Hann bara endurtekur þetta: Það er ekki haft samráð og það er hraðað, ekkert annað. En það er ekki hægt að taka þetta alvarlega að því hafi verið hraðað úr hófi fram sem gert hefur verið í þessu máli frá því að nefndin var skipuð 1983. Það er ekki hægt með nokkurri sanngirni að halda því fram að ekki hafi verið höfð samráð við þingflokkana ef menn vilja líta á það hvernig nefndin varð til, hvernig nefndin var skipuð og hvernig sambandið hlaut alla tíð að vera á milli þingskapalaganefndarinnar sem vann frv. og þingflokkanna og ef menn vilja taka tillit til margs annars sem ég sagði áðan og ætla ekki að fara að endurtaka hér. En hv. 3. þm. Norðurl. v. svarar engu af þessum atriðum sem ég hef hér tíundað. Hann bara segir: Málinu er óhæfilega hraðað, það er ekkert samráð við þingflokkana. Þetta er hans staðhæfing.

Hv. þm. sagði að hann gæti ekki sætt sig við þá málsmeðferð að þingskapalaganefndin sem vann frv. hefði ekki tekið till. þá sem hér liggur frammi frá honum til athugunar. Ég held að þetta sé misskilningur. Þessi till. fékk athugun. Hún fékk athugun í þingskapanefnd þessarar hv. deildar. Auðvitað hefði verið betra að hv. þm. hefði komið með þetta fyrr. En ég er ekkert að ásaka hann fyrir það. En þrátt fyrir að þetta kæmi á síðustu stundu fékk þessi till. athugun. Hún fékk bara ekki hljómgrunn, ekki hjá fulltrúum neinna flokka.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. taldi að till. sú sem hann hér flytur sé sama eðlis og ákvæði í þingsköpum varðandi útvarpsumræður. Ég held að hér sé ólíku saman að jafna. Fyrir utan allt annað er við útvarpsumræður verið að takmarka umræður en ekki lengja eða hafa möguleika á lengingu eins og felst í till. hv. þm. En ég skal ekki fara frekar út í þetta. Um þetta má hafa langt mál að sjálfsögðu.

Hv. þm. hélt sig við það sem hann hafði sagt áður um utandagskrárumræður skv. 1. mgr. 32. gr., að þar mundi allt verða í belg og biðu, og fann máli sínu til stuðnings að talað væri um mál í þessari grein í fleirtölu og af því að orðið „mál“ kæmi í fleirtölu í greininni hlyti þetta að vera svo. Ég held að þessi röksemd sé nokkuð langsótt og sé ekki ástæðu til að fjölyrða um það.

Ég benti á það í minni fyrri ræðu hve þingskapalaganefndin sem vann frv. hefði leitast við að ná sem víðtækustu samkomulagi. Ég efast um að í annan tíma hafi verið reynt að ná meira samkomulagi um breytingar á þingsköpum en núna. Hv. þm. talar eins og þingsköp hafi verið afgreidd áður algerlega ágreiningslaust og það hafi ekki komið fram brtt. Ég bið hann bara að kynna sér þingtíðindi og þá sér hann að þessu er öðruvísi farið. En auðvitað er best og um það erum við sammála að það sé sem víðtækast samkomulag. Ég verð að segja það og kannske ættu það að verða mín lokaorð, að þingskapalaganefndin sem vann að þessu máli lagði sig sérstaklega fram um að ná samkomulagi og nálgast hugmyndir sem hún taldi að hv. 3. þm. Norðurl. v. hefði. Í brtt. nefndarinnar, sem nú eru lagðar fram, er einmitt fólgin viðleitni nefndarinnar til að nálgast sjónarmið hv. 3. þm. Norðurl. v. Ég endurtek þess vegna að mér þykir það ómaklegt af þessum hv. þm. að segja að það hafi skort, að því er virðist, á vilja eða a. m. k. að sýna það í framkvæmd af hálfu nefndarinnar að leitað væri samkomulags, því að nefndin missti aldrei marks á slíku. Samkomulagið er það víðtækt eins og hér hefur verið bent á áður, bæði af hv. 2. þm. Austurl. og mér, að hér liggja fyrir aðeins tvær brtt.