30.10.1984
Sameinað þing: 11. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í B-deild Alþingistíðinda. (401)

90. mál, Seðlabanki Íslands

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Það hefur komið í ljós hér í þessum svörum að nýbygging Seðlabankans kostar 154 millj. kr. Og hvaðan koma þeir peningar? Þeir koma frá þjóðinni. Það er þjóðin sem leggur fram þetta fé til að byggja þetta musteri. Um það þarf enginn að velkjast í vafa.

Tvennt sem hæstv. ráðh. sagði vildi ég gera athugasemd við. Hann var að tala um þá ágætu menn sem skipa bankaráð Seðlabankans. Ekki skal ég draga úr því að þar sitji ágætir menn, kosnir af þingflokkunum. En það er mikill misskilningur hjá ráðh., a.m.k. er það mín skoðun, að þessir menn séu kosnir þangað til þess að fylgja forskriftum þingflokkanna. Það er rangt. Þeir eru kosnir í bankaráð Seðlabankans til að starfa þar af bestu sannfæringu, þekkingu og viti að þeim málum sem þar ber að starfa að. Ég á t.d. sæti í útvarpsráði, kosinn hér á Alþingi. Ég tel mig ekki vera sérstakan fulltrúa þingflokks Alþfl. þar, þannig að ég held að þetta sé misskilningur hjá hæstv. ráðh.

Í öðru lagi vék hæstv. ráðh. að öðrum byggingum sem væru að rísa á vegum ríkisins og sagði að ég væri að flytja í eina slíka byggingu. Ég kannast nú ekki við það að ég sé neitt að flytja, en hins vegar hefur hann kannske átt við það að Ríkisútvarpið væri að reisa mikla nýbyggingu. Það er rétt. Ég hef gagnrýnt þá byggingu og gagnrýni hvernig að málum var staðið þar og er staðið. Það er hlálegt til þess að hugsa að þegar sjónvarpið selur sitt húsnæði á Laugavegi 176, þá skuli — (Forseti hringir.) Ég er að ljúka máli mínu, herra forseti, — þá skuli kannske bróðurparturinn af því sem fæst fyrir það húsnæði fara í það að borga kostnaðinn við flutninginn upp á Háaleitisbraut.