03.05.1985
Neðri deild: 63. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4767 í B-deild Alþingistíðinda. (4014)

455. mál, nýsköpun í atvinnulífi

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Á tveimur þingdögum hefur farið fram ítarleg umr. um þau þrjú mál sem hér eru í raun og veru til meðferðar, þ. e. frv. um þróunarfélag, frv. um Byggðastofnun og frv. um Framkvæmdasjóð. Ég hef í ræðu minni gert grein fyrir mínum sjónarmiðum og Alþb. til þessara frv. og hef í sjálfu sér ekki miklu við það að bæta. En eftir svör forsrh. og svör hv. 1. þm. Suðurl. vil ég leggja áherslu á að hér er ekki um það að ræða að verið sé að draga úr því sem kallað hefur verið miðstýring. Hér er verið að auka embættismannavaldið, efla miðstýringu og draga vald úr höndum Alþingis. Svo virðist á sumum talsmönnum Alþfl., Framsfl. og Sjálfstfl. að allt sé af hinu illa sem frá Alþingi kemur og það sé hin eina raunverulega miðstýring þegar Alþingi kýs stjórn í stofnanir — og þetta á auðvitað við um BJ líka — en þegar að því kemur að afhenda embættismönnum vald, svo að segja óskorað vald eins og yfir Framkvæmdasjóði, afhenda ráðh. óskorað vald, eins og forsrh., yfir öllum þessum stofnunum, þá heitir það ekki miðstýring, þá heitir það að draga úr miðstýringu vegna þess að Alþingi er svipt valdi. Það er alveg kostulegt að heyra endurtekið frá talsmönnum þessara þriggja eða fjögurra stjórnmálaflokka þá fyrirlitningu á lýðræðinu sem kemur fram með þessum hætti. Ég held að þessi vinnubrögð og þessi viðhorf séu ákaflega varasöm. Ég held að það sé eðlilegt að Alþingi hafi forustu og kjósi stjórnir í ákveðnar stofnanir. Ef þær stofnanir ekki standa sig með eðlilegum hætti á auðvitað að bæta lagareglur og ákvæði um vinnubrögð þessara stofnana. Það á ekki að gefast upp með því að henda öllu í embættismannavaldið eins og verið er að gera í frv. um Framkvæmdasjóð. Það á ekki að gefast upp með því að afhenda t. d. forsrh. einum valdið sem ráðh. yfir þessum stofnunum sem hér er verið að tala um. Ég tel að það sé auk þess algerlega óeðlilegt, miðað við verkaskiptingu í stjórnarráðinu, að forsrh. sé með valdið yfir þessum stofnunum öllum. Ég tel að það eigi að vera félmrh. sem fari með Byggðastofnunina, svo að ég nefni dæmi, og atvinnuvegaráðherrarnir eigi með einhverjum hætti að fara með stjórn atvinnumálafélags eins og þessa þróunarfélags.

Þetta vildi ég láta hér koma fram, herra forseti, og mótmæla mjög harðlega þeirri lítilsvirðingu — að ég segi ekki fyrirlitningu — á Alþingi í sambandi við það að stýra málum fyrir okkar hönd.

Þessi mál koma til meðferðar í þeirri nefnd sem ég á sæti í., fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar, þannig að ég ætla ekki að lengja þessar umr. hér frekar og vafalaust gefst kostur á því að taka málin til ítarlegri meðferðar í þeim fimm umr. sem eftir eru í báðum deildum um þessi þrjú frv. Þau eru hér afgreidd með einni umr. um eitt þessara mála. Það sýnir auðvitað eins og fleira hvað stjórnarandstaðan er jafnan reiðubúin til þess að greiða fyrir því að mál fái skjóta og glögga meðferð hér í þinginu og ástæðulaust að kvarta yfir því að hún sé að setja fótinn fyrir afgreiðslu mála.

Að lokum, af því ég sé hérna hv. skrifara, hv. þm. Ólaf Þórðarson, og ég er eiginlega aldrei sammála honum, þá ætla ég að geta þess að ég er sammála mörgu af því sem hann sagði í ræðu sinni um þetta mál.