03.05.1985
Neðri deild: 63. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4769 í B-deild Alþingistíðinda. (4016)

455. mál, nýsköpun í atvinnulífi

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Þegar þessi umr. hófst fyrr í vikunni gerði ég grein fyrir helstu sjónarmiðum mínum, einkum og sér í lagi að því er varðar frv. til l. um Byggðastofnun. Síðan hafa ýmsir hv. þm. tekið til máls og m. a. fjallað um það sem ég setti fram í minni ræðu á dögunum. Ég hirði ekki um að eltast við hótfyndni hv. 5. þm. Vestf., en ástæðan til þess að ég kveð mér aftur hljóðs er ræða hæstv. forsrh. því að mér sýndist hann að nokkru leyti misskilja inntak minnar ræðu.

Hann minntist lítillega á það starf sem unnið var af þeirri nefnd sem ég átti sæti í og gat um að hún hefði fjallað um endurskoðun á lögum um Framkvæmdastofnun og fjárfestingarsjóðunum skv. umboði frá hæstv. ríkisstj. Hann taldi að lítið bitastætt hefði komið frá þeirri nefnd og minnti réttilega á að formaður þeirrar nefndar, Tómas Árnason núverandi seðlabankastjóri, hefði viljað ganga lengst og hafði lagt til róttækustu breytinguna, þ. e. að það yrði stofnaður sérstakur banki eða mjög öflug stofnun í staðinn fyrir Framkvæmdastofnunina og hina ýmsu fjárfestingarsjóði. Í raun og veru var hér um að ræða tillögu um að búa til nýjan ríkisbanka, mjög öflugan nýjan ríkisbanka, og vitaskuld gátum við ekki fallist á það sem gengum til þessara nefndarstarfa með það í huga að draga úr ríkisforsjánni og bákninu. Við töldum að þessi tillaga formannsins hefði þveröfug áhrif og væri ekki tilgangur þess nefndarstarfs.

Hæstv. forsrh. taldi, eins og ég greindi frá áðan, að lítið bitastætt hefði verið í því séráliti sem ég, Lárus Jónsson og Árdís Þórðardóttir skiluðum af okkur. Þetta er ekki nákvæmlega rétt vegna þess að það vill nefnilega svo til að margt af því sem fram kemur í þeim frv. sem hér eru til umr. er tekið upp úr okkar áliti. Má ég þá minna á í því sambandi að hér er lagt til að fjárfestingarsjóðunum verði fækkað, hér er lagt til að skilið sé á milli Framkvæmdasjóðs og Byggðasjóðs, hér er gert ráð fyrir að allverulegt fé renni til rannsókna og nýsköpunar og síðast en ekki síst er lagt til að Framkvæmdastofnun verði breytt í Byggðastofnun. Þetta eru allt tillögur sem hægt er að finna í séráliti okkar þremenninganna. Að því leyti held ég að það nefndarstarf hafi orðið til nokkurs árangurs. Gallinn er hins vegar sá að að því er varðar sér í lagi Byggðastofnun er gerð formbreyting en ekki efnisbreyting. Því miður er stigið þar of lítið skref í átt að því sem til var lagt að gert yrði þegar Framkvæmdastofnun yrði lögð niður og ný stofnun undir nafninu Byggðastofnun yrði sett á laggirnar.

Ekki hef ég á móti því að til sé sjóður eða stofnun í landinu sem hafi aðstöðu til þess að rétta hjálparhönd af félagslegum ástæðum ef um neyðarástand er að ræða eða mjög verulega byggðaröskun eða til þess að fylgja eftir áætlunum um eflingu atvinnulífs eða byggðaþróunar. Hins vegar finnst mér að það eigi að fara varlega í slíkar sjóðsstofnanir vegna þess að hættan er sú, eins og við sjáum af reynslunni, að slíkir sjóðir séu misnotaðir og mjög frjálslega með þá farið af hálfu þeirra sem þeim stjórna, auk þess sem mér heyrist tónninn vera sá í hinni opinberu stjórnmálaumræðu að það eigi að draga sem mest úr fjárveitingum til stofnana eða sjóða nema um sé að ræða hreina arðsemi af þeirri starfsemi sem veita á féð til.

Til þess að skýra þá hugsun sem að baki þessum orðum mínum liggur og til þess að útskýra frekar hvað við var átt við þegar við töluðum um og lögðum til að Byggðastofnun yrði sett á laggirnar, en með afmarkað hlutverk, þá vildi ég leyfa mér að lesa hér upp úr séráliti sem ég hef verið að vitna hér til, en þar segir, með leyfi forseta, að „Byggðastofnun eigi að starfa í tveimur deildum, byggðadeild og lánadeild. Byggðadeild annist áætlunargerð og fylgist með byggðaþróun, lánadeild annist afgreiðslu lána og starfrækslu sjóðsins. Um lánveitingar úr sjóðnum gilda eftirfarandi reglur:

a) Lán verði bundið áætlunum um eflingu atvinnulífs og byggðaþróun.

b) Lán verði veitt til að forða neyðarástandi í einstökum byggðarlögum eða fyrirtækjum sem hefur í för með sér verulegt atvinnuleysi og röskun búsetu.

c) Óafturkræf framlög verði aðeins veitt til rannsókna og tilrauna í atvinnulífinu.

d) Lán verði veitt til almennra fjárfestinga, ef fjárfestingarsjóðir eða peningastofnanir sinna ekki lánveitingu, sé þess talin brýn þörf, en þó einvörðungu þegar fjárfestingin er talin arðbær.

Sjóðnum verði heimilt að lána samkvæmt liðum a og b með lægri vöxtum og lengri greiðslutíma en tíðkast hverju sinni á almennum lánamarkaði. Slíkar lánveitingar takmarkist við framlög ríkissjóðs á hverjum tíma, enda sé það meginstefnan að lána á sem sambærilegustum kjörum sem Byggðasjóður hefur sjálfur aflað fjár til með lántökum. Framlag ríkissjóðs til Byggðasjóðs verði ákveðið á fjárlögum hverju sinni, enda hefur ákvæðið um hvað framlagið skuli miðast við, þegar sjóðurinn hefur 2% af upphæð fjárlagafrv. til ráðstöfunar, reynst dauður lagabókstafur.“

Ég hirði ekki um að vitna frekar til þessa sérálits, enda held ég að öllum sem með fylgjast sé ljóst að hér er gert ráð fyrir mjög þröngri og afmarkaðri notkun á því lánsfjármagni sem til ráðstöfunar er. Það frv. sem hér er til umfjöllunar felur þetta ekki í sér. Gert er ráð fyrir að Byggðastofnun hafi nokkurn veginn sama svigrúm til lánveitinga og Framkvæmdastofnun hafði. Ég hef í því sambandi lesið upp ákvæði úr frv. annars vegar og ákvæði úr lögunum hins vegar til að benda á að þar er nánast enginn munur á.

Í öðru lagi gerir frv. um Byggðastofnun ráð fyrir því að í staðinn fyrir að Framkvæmdastofnun og Byggðasjóður fái nú 2% af fjárlagaupphæðinni fái sú stofnun 0.5% af þjóðarframleiðslu, sem er nokkurn veginn sama féð, sem þýðir það að þarna er til meðferðar fyrir Byggðastofnun nokkurn veginn sama upphæðin og enn þá opið í allar áttir hvernig með þetta lánsfé skuli fara.

Ein af höfuðmeinsemdunum og aðalgagnrýnin sem beinst hefur að Framkvæmdastofnuninni er auðvitað sú að þar hefur verið lánað fé undir því yfirskini að um félagslega aðstoð væri að ræða, en í raun er verið að lána þar að mjög verulegu leyti til starfsemi sem er óarðbær. Ef á að halda áfram þeirri stefnu stríðir það gegn yfirlýstum markmiðum hæstv. ríkisstj. og stríðir gegn margendurteknum skoðunum og stefnum sem stjórnarflokkarnir hafa sett saman að undanförnu. Síðast í morgun las ég í Morgunblaðinu ræðu seðlabankastjóra þar sem hann leggur mjög mikla áherslu á að því er varðar stjórnun peningamála á næstu mánuðum og misserum að það sé stöðvaður hinn mikli straumur fjármagns í gegnum farvegi sem ekki taka tillit til arðseminnar.

Þó að ég hafi tekið fram og endurtaki að í þessum frv. sé margt athyglisvert sem ástæðulaust sé að hafna með öllu finnst mér gallarnir vera mjög stórir og mjög áberandi. Og þeir snerta því miður grundvallaratriði. Enn er gert ráð fyrir að allt of miklu fé sé varið í gegnum ríkissjóð til opinberra sjóða án tillits til arðseminnar, enn er gert ráð fyrir að þessir sjóðir verði starfræktir með erlendum lántökum, enn er gert ráð fyrir því að Byggðastofnun hafi jafnmikið fjármagn umleikis og Framkvæmdastofnun hafði áður og í frv. um Byggðastofnunina er það lagt í vald stjórnar þessarar stofnunar sjálfrar á hvaða lánskjörum lánað er. Þessar meinsemdir eru þess eðlis að mér finnst, og held fram þeirri skoðun, að Byggðastofnun sé formbreyting en ekki efnisbreyting og það sé til lítils að gera kerfisbreytingar og tala hátíðlega um slík frv. þegar innihaldið er ekki meira en ég hef gert grein fyrir.