03.05.1985
Neðri deild: 63. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4772 í B-deild Alþingistíðinda. (4019)

455. mál, nýsköpun í atvinnulífi

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það getur vel verið rétt hjá hæstv. forsrh. að ástæða sé til að athuga þessi mál vandlega og ekki rasa um ráð fram, en ég hefði þá talið æskilegt að virðuleg ríkisstj. hefði verið búin að athuga það vandlega áður en hún lagði þessi frv. fram og ætlast til þess að þau verði samþykkt hér á nokkrum vikum. Í ljósi þess sem hæstv. forsrh. hér sagði sé ég ekki annað en að hann sé að segja sig frá þeim möguleikum að koma þessum stofnunum að einhverju leyti út úr Reykjavík, ef það er meiningin að keyra þessi frv. h$r í gegnum þingið á þeim vikum sem eftir lifa þingsins, en hann treystir sér ekki til að standa að neinum flutningi þessara stofnana út úr höfuðborginni nema eftir mjög vandlega og langa athugun.

Út af fyrir sig er ég til í að ræða um það við hæstv. forsrh. að það verði fremur Byggðastofnun en t. d. þetta þróunarfélag sem staðsett verði á Akureyri. Ég býst ekki við að það stæði á mönnum norður þar heldur að hafa endaskipti á því. En varðandi það sem hann síðan sagði um erfiðleikana á því að staðsetja svona stofnanir úti á landsbyggðinni og skýrslu þá sem hér á árum áður var gerð hvað þetta varðar, þá vil ég í fyrsta lagi benda á að það eru nokkuð breyttir tímar uppi, bæði hvað varðar samgöngur og hvað varðar möguleikana á því að miðla upplýsingum og koma boðskap áleiðis. Það þarf auðvitað ekki að fræða verkfræðinginn sjálfan, hæstv. forsrh., um þá breytingu sem orðin er í alls konar boðleiðum og fjarskiptum og öðru slíku sem auðveldar mjög allan flutning á upplýsingum og öll samskipti milli stofnana, manna og landshluta, en einnig eru t. d. mun betri flugsamgöngur og samgöngunetið hvað flug varðar um landið allt er nú mun betra en það var þó ekki sé farið nema nokkur ár aftur í tímann. Ég bendi á að frá Akureyri, sem hér er nokkuð til umræðu, er daglegt flug má ég segja, a. m. k. nær daglegt flug, til Ísafjarðar, til Egilsstaða og auðvitað mörgum sinnum á dag til Reykjavíkur. Sem slík er Akureyri samgöngulega séð nokkuð vel sett og í beinum tengslum við þjónustumiðstöðvar í öðrum fjórðungum og auðvitað í ágætis vegasambandi við sitt næsta nágrenni á Norðurlandi. Ég held því að uppi séu breyttir tímar m. a. hvað þetta varðar. Einnig held ég að uppi séu breyttir tímar hvað varðar vaxandi samstöðu landsbyggðarinnar sem slíkrar um það hreinlega að sameinast um einhverja valkosti í þessum efnum gegn Reykjavíkursvæðinu. Ég minni t. d. á ályktun sem samþykkt var í Neskaupstað til stuðnings því að Akureyri yrði fyrir valinu sem aðsetur þessa þróunarfélags. Þar var ekki hver að reyna að ota sínum tota. Þvert á móti var þar á ferðinni samstaða og skilningur á því að menn ná ekki neinum árangri með því að stíga skóinn hver niður af öðrum í þessum efnum. Ég held að það sem þurfi að gerast sé að menn nái samstöðu um að skipta þarna með sér verkum, ef svo má að orði komast, að einn fái þetta og annar hitt og við dreifum þessu með samkomulagi og fullum skilningi um landið.

Herra forseti. Mér þóttu svör hæstv. forsrh. og formanns Framsfl. heldur rýr í roðinu hvað þetta varðaði. Ég get ekki annað en lýst óánægju minni með það hversu lítil þau svör voru sem hann gaf hér við spurningum mínum. Ég hafði gert mér vonir um að ríkisstj. eða a. m. k. forsrh. og virðulegur formaður Framsfl. hefði hugleitt þessi mál og haft meira fram að færa um þau en raun ber vitni. Þau koma ekki aftur þau tækifæri sem ganga mönnum úr greipum í þessum efnum. Ef menn gefast sífellt upp við fyrstu erfiðleika í þessum efnum, fyrstu mótbáru, ná menn aldrei langt. Það gefur auga leið. Ég held að þeir erfiðleikar hafi oft verið ekki síður ímyndaðir en raunverulegir. Satt best að segja held ég að menn verði að rökstyðja það ærið vel áður en því er kyngt að það sé óhjákvæmilegt að allar þessar stofnanir rjúki upp á Reykjavíkursvæðinu. Ég sé fátt mæla gegn því en mjög margt mæla með því að það verði reynt að sporna við fótum gegn þeirri miklu byggðaröskun sem dynur yfir á dögum þessarar ríkisstj. og það stendur auðvitað engum nær en henni að grípa til einhverra ráðstafana í því sambandi. Til þess er nú líka verið að flytja, geri ég ráð fyrir, frv. til laga um Byggðastofnun að hafa þarna áhrif á. Það er ærið andkannalegt ef sú hin sama byggðastofnun, sem á nú að hafa þarna áhrif á, verða til blessunar í þessum efnum, gefst sjálf upp fyrir því að koma sér út á land eða þeir sem að henni standa. Það er auðvitað ærið hörð einkunn um stöðu þessara mála.

Fróðlegt væri að heyra í einstökum þm. stjórnarflokkanna utan af landsbyggðinni. Eru þeir alveg sáttir við þessi svör hæstv. forsrh.? Mér heyrðist einn þeirra kveðja sér hljóðs áðan. Eru menn tiltölulega ánægðir með að það eigi að afgreiða þessi frv. öll núna, en hins vegar sé viðamikið og erfitt mál, sem verði að skoða mjög lengi og vandlega, að reyna að koma einhverjum þessum stofnunum eða öðrum slíkum eitthvað út fyrir Elliðaárnar? Ég á þá ekki við að flytja eigi höfuðstöðvar þeirra suður í Arnarnes. Ég á við að finna ætti þeim stað í einhverjum þjónustumiðstöðvum annarra landshluta þar sem þær gætu haft þau áhrif sem slíkar stofnanir gjarnan hafa á sitt nánasta umhverfi. Kannske yrðu þær, og auðvitað, enn þá meiri vítamínsprauta fyrir slíka staði en þær verða hér á höfuðborgarsvæðinu sem þegar býr við verulega þenslu, t. d. á byggingarmarkaðinum. Sú þensla báknsins, þó hún verði kannske ekki mjög mikil í steinsteypu, sem hér er gerð till. um, mundi auðvitað bætast við það sem fyrir er á þessu svæði.

Það gefst e. t. v. tóm til að ræða þessi mál betur þegar þau koma til 2. umr. Ég mun a. m. k. gera það. En ég hefði talið ágætt og mjög eðlilegt ef hæstv. forsrh. treysti sér til þess að segja eitthvað meira um þetta áður en málið fer hér af dagskrá og eins hefði verið fróðlegt að heyra í talsmönnum byggðastefnunnar, t. d. öðrum í Framsfl. og Sjálfstfl.