30.10.1984
Sameinað þing: 11. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í B-deild Alþingistíðinda. (402)

90. mál, Seðlabanki Íslands

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Út af fsp. hv. 2. landsk. þm. vil ég taka fram að það hefur verið reynt að vinna eins vel og unnt er að þeim hluta frv. sem varðar reikningsskil bankanna og upplýsingar. Ég er mjög fús til að skoða það sérstaklega hvort þau ákvæði sem hér hafa verið samþykkt munu ekki verða í því frv. sem endanlega verður frágengið þegar það verður lagt fyrir þingið.

Út af því sem hv. fyrirspyrjandi, hv. 5. landsk. þm. sagði og hafði eftir mér-ég orðaði það held ég svo að þingflokkarnir hefðu getað sett mönnum forskrift ef þeir hefðu kært sig um, þar sem þeir eru kjörnir hér á Alþingi í bankaráð og þeim er hér stillt upp af þingflokkunum — vil ég benda á að það verður ekki litið öðruvísi á en að þeir séu fulltrúar kosnir af þeim. En að sjálfsögðu fara þeir að störfum þar eins og við öll eftir okkar eigin samvisku og vonandi hafa þeir gert það í þessu bankaráði eins og annars staðar. Ég vakti athygli á þessu vegna þess að þm. sagði að hvergi væri hægt að koma að athugasemdum og þessar stofnanir fengju að vaða áfram eins og þeim sýndist. Ég held einmitt að það fyrirkomulag að héðan séu kosnir fulltrúar af Alþingi sé viðhaft til að tryggja að slíkt gerist ekki. Ef þm. heldur þessu fram, þá stafar það af því að hann metur það svo að þeir aðilar sem þarna stjórna, hvort sem þeir eru kjörnir af Alþingi eða þá sem starfsmenn, hafi ekki sinnt sínum störfum.