03.05.1985
Neðri deild: 63. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4777 í B-deild Alþingistíðinda. (4023)

455. mál, nýsköpun í atvinnulífi

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég mun ekki flytja hér langa ræðu um þetta mál. Það kemur til af því að ég var í þeirri nefnd sem undirbjó þessi þrjú frv. sem hér eru til umræðu. Jafnframt er þess að geta að ég á sæti í þeirri hv. nefnd sem fær þetta mál til meðferðar. Það er óþarfi að fjalla um efni frv. í löngu máli, það hefur verið gert hér í mörgum ræðum. Það er ljóst að skv. tillögum ríkisstj., eins og þær birtast í þessum frv., er gert ráð fyrir að Byggðastofnun verði sjálfstæðari en hingað til þótt hennar verksvið sé heldur þrengra en Framkvæmdastofnunar í dag. Framkvæmdasjóður, sem hefur verið undir stjórn Framkvæmdastofnunar, mun færast til og draga saman seglin.

Varðandi þróunarfélagið er það að segja að þar er að finna aðferð til þess að koma fjármunum til atvinnulífsins, sérstaklega til þeirra fyrirtækja sem hugsanlega kunna að verða stofnuð á næstunni og þar sem nýjungar eru í fyrirrúmi, en slík fyrirtæki eiga ekki mikla möguleika til lánafyrirgreiðslu úr fjárfestingarlánasjóðum í dag.

Fyrir Nd. liggur brtt. frá hv. þm. Steingrími Sigfússyni og fleiri þm. um það að þróunarfélagið eigi varnarþing og aðsetur á Akureyri. Þessi till. er að mínu áliti algjörlega út í bláinn. Það er gert ráð fyrir því að ríkissjóður verði minnihlutaaðili í þessu hlutafélagi og það hlýtur auðvitað að vera hlutafélagið sjálft sem ákveður hvar það verður staðsett eins og önnur hlutafélög í landinu. Verði það ákvörðun meiri hlutans, sem semur samþykktir fyrirtækisins, að flytja þetta fyrirtæki til Þórshafnar, Kópaskers eða Akureyrar verður auðvitað að fara að því, því að það er meiri hluti í hlutafélaginu sem ræður slíku.

Ég vil hins vegar taka undir þau sjónarmið sem komu fram hjá hv. þm. Halldóri Blöndal að það gæti verið álitlegur kostur, og þar hefur Alþingi auðvitað fulli vald á málinu, að Byggðastofnun eigi heimili annars staðar en í Reykjavík. Akureyri kemur vissulega til greina. Þetta þarf að ræða í nefnd. Ég tek undir þau sjónarmið sem komu fram hjá hv. þm.

Ég held þó að ekki sé hægt að ljúka þessari 1. umr. hér í Nd. án þess að minnst sé á þrjú önnur frv., sem koma fram væntanlega innan tíðar, verða tilbúin af nefndarinnar hálfu í næstu viku og eru eins og þessi þrjú frv. byggð á samkomulagi stjórnarflokkanna frá því í september s. l. Skv. þeim frv., sem fjalla um fjárfestingarlánasjóðina, má gera ráð fyrir því að tillögur verði gerðar um að hægt sé að lána úr fjárfestingarlánasjóðunum til annarra atvinnugreina en þeirra sem lánin hafa hingað til verið einskorðuð við. Lán hafa verið bundin við ákveðnar atvinnugreinar. Þá er enn fremur gert ráð fyrir því að lánastarfsemi verði meira á vegum viðskiptabanka en hingað til hefur verið. Og í þriðja lagi er rétt að geta þess að sjóðirnir fá leyfi til að gerast aðilar að þróunarfélaginu sem um hefur verið rætt í þessum umræðum.

Mér finnst eðlilegt að nefndin, sem fær þau frv. og þessi mál til umræðu, ræði það hvernig hægt er að koma þessari starfsemi sem mest til atvinnugreinanna sjálfra. Það er markmið þessarar hæstv. ríkisstj. að draga úr ríkisumsvifum, að koma þessari starfsemi sem mest í hendur fyrirtækjanna sjálfra og auka þannig arðsemina til hagsbóta fyrir alla.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri en vænti þess að þessi þrjú frv. og þau sem á eftir koma fái greiða afgreiðslu á þingi nú í vor.