03.05.1985
Neðri deild: 63. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4781 í B-deild Alþingistíðinda. (4032)

364. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Já, það er sumt kynlegt í sambandi við orkumál okkar, það er ekki ofmælt. Það er rétt að ekki náðist samkomulag um að fylgja fram því frv. til l. um jöfnun og lækkun húshitunarkostnaðar sem nefnd á mínum vegum útbjó fyrir ári síðan eða rúmlega það. Ég vil aðeins nefna að frá því 1. ágúst 1983 hefur raungildi, miðað við kaupgjaldsvísitölu, orku til húshitunar lækkað um tæp 20%. Að vísu er viðmiðunin sú að fá stórhækkun á orkuverði til þess að bjarga Landsvirkjun og orkufyrirtækjum frá gjaldþroti, en hæstv. fyrirrennari minn hafði tekið sér alræðisvald í þeim sökum og stjórnaði þessu svo snilldarlega að Landsvirkjun stefndi í 400 millj. kr. greiðsluþrot á árinu 1983 ef ekki hefði verið tekið í taumana.

Það er rétt, og ég þakka hv. 5. þm. Austurl. fyrir undirtektir við þetta frv., ég tala nú ekki um, hversu erfitt og andstætt það er þegar tvö ráðuneyti þykjast eiga um að véla í sambandi við einstök fyrirtæki eins og fjmrh. þykist hafa með að gera fyrirtæki eins og sjóefnavinnslu o. s. frv. Það er spauglaust að ráða við þetta þegar margir vilja taka í taumana og ég tala nú ekki um þegar straumarnir ganga á misvíxl.

En ég hafði hugsað mér alveg sérstaklega að taka til hendinni í sambandi við olíustyrkina. 108 hafa breytt úr olíu- á fyrsta ársfjórðungi yfir í rafhitun, 108. 126 lán alls hafa verið veitt til breytinganna, en það er hyggja manna að verulega fleiri hafi breytt úr olíu- yfir í rafhitun án þess að leita eftir slíkum lánum. En mér þykir ástæða til að lesa hér bréf, sem mér barst á dögunum, sem er skrifað norður í Skagafirði af Helgu Þórðardóttur búsettri þar og hljóðar svo:

„Ég undirrituð óska eftir upplýsingum um olíustyrki. Mig langar að vita hvort eftirlit sé haft með því að réttir aðilar fái styrkinn. Ástæðan fyrir spurningu minni er sú að þegar ég las listann um styrkþega hér í Lýtingsstaðahreppi ofbauð mér hve margir sem hita hús sín með rafmagni eða heitu vatni þiggja olíustyrk. 50 millj. kr. eru á fjárlögum til þess að borga þessu fólki olíustyrki og framkvæmdin með þeim hörmungum að hér er það staðfest að í Lýtingsstaðahreppi einum er fjöldi manna sem þiggja olíustyrk en hita hús sín annað tveggja með rafmagni eða heitu vatni. (PP: Þetta hlýtur að vera lygi.) Þú, hv. 2. þm. Norðurl. v., skalt spyrja þessa framsóknarkonu, Helgu Þórðardóttur á Mælifellsá. (Gripið fram í.) Hvað hefurðu kosið? (Gripið fram í.) Þá þarf ekki að seilast um hurð til lokunnar. Þá fel ég hv. 5. þm. Austurl. einkanlega, fyrrv. orkumálaráðh., að rannsaka sannleiksgildi þessa bréfs.