03.05.1985
Neðri deild: 63. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4784 í B-deild Alþingistíðinda. (4035)

364. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður var einn af frumkvöðlum þess eða a. m. k. réð hann úrslitum sem formaður nefndar um að hér var afgreidd í fyrra þáltill. um að rannsakaðar yrðu orsakir hins háa orkuverðs. Nefnd er starfandi, nefnd hlutlausra sérfræðinga eins og það var orðað í till., og hún hefur kostað ríkissjóð rúmar 2 millj. kr. og skilar tæplega niðurstöðum sínum, ekki lokaniðurstöðum, fyrr en á miðju næsta ári, en áfangaskýrslu e. t. v. undir lok þessa árs. Þetta er af þessu að segja. En ég er þeirrar skoðunar og raunar er ég sannfærður um að framkvæmd olíustyrkjanna er ólíðandi subbuskapur og fyrir það ætla ég að setja fót. Og ef þessi lög ná fram að ganga er það ákvörðun mín að þeim sem þiggja olíustyrk verði tilkynnt til að mynda að frá og með 1. okt. eða 1. nóv., þannig að menn hafi nægjanlegan umþóttunartíma, verði olíustyrkur af lagður ef viðkomandi á tök á því að fá annan innlendan orkugjafa. Okkur hefur ekki tekist að fá áreiðanlegar upplýsingar um hvernig úthlutun olíustyrkjanna er háttað og það hefur farið mjög illa úr hendi viðskrn. Það hefur verið tillaga mín í 11/2 ár að iðnrn. fengi fangs á þessu máli. En embættismannakerfi viðskrn. hefur spyrnt við fótum vegna þess að það vill halda áfram að útdeila þessum peningum með þeim hætti sem er fullkomlega óeðlilegur og eins og ég segi að mínum dómi, enda hef ég sannanir fyrir því, hreinn og beinn subbuskapur.