03.05.1985
Neðri deild: 63. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4790 í B-deild Alþingistíðinda. (4041)

424. mál, erfðalög

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég hef hlýtt á mál hv. 10. landsk. þm., bæði í n. og einnig hér á þingfundi, og hlýt því að hafa fullnægt öllum skyldum um hlustun í málinu. Hitt vekur undrun mína þegar hv. þm. fullyrðir að þeir sem fá mál til umsagnar eigi ekki að senda í sinni umsögn neitt álit á stefnunni sem verið sé að marka, það sé yfir höfuð ekki tilgangurinn með því að senda þeim mál til umsagnar. Ég kem af fjöllum. Auðvitað er það aðalatriði þegar mál er sent til umsagnar að þeir sem fjalla um málið segi álit sitt á málinu og þeirri stefnumörkun sem þar færi fram. Hvernig í dauðanum má annað eiga sér stað? Er hugsunin á bak við slíkar yfirlýsingar sú að menn eigi að gefa á því skýringar hvort þessi lög muni vera falleg eða ljót í lagasafninu eða hvað eru menn að fara fram á? Hvað eru menn að fara fram á með því að senda mál til umsagnar?

Auðvitað verða menn að una því þegar þeir senda mál til umsagnar og fá mjög neikvæðar umsagnir manna sem hafa hugsað um þessa hluti, tekið afstöðu til þeirra. Þá ber þeim að snúast með rökum gegn slíkum málflutningi en ekki að halda því fram að viðkomandi hafi farið út fyrir sitt verksvið, þeim komi þetta nánast ekkert við, það sé ekki þeirra að móta stefnuna. Þeir eru að segja sitt álit og eftir því er stefnan mótuð.

Mér hefur fundist, eins og mörgum öðrum, alveg fráleitt hvernig þetta frv. var sett fram af hv. flm. og mig undrar að fulltrúi öreiganna skuli hafa mestar áhyggjur af því hvað verður um arfinn því það er eignastéttin sem löngum hefur haft áhyggjur af arfinum en ekki öreigarnir. Þeir erfa ekkert og eiga ekkert. En það er flest farið að snúast við í þjóðfélaginu.

Ég vil líka spyrja í þessu sambandi: Er það óeðlilegt að sá sem er dauðvona og tekur ákvörðun um að hann vill ekki að eftirlifandi maki fái að ráðskast með þessa hluti geti haft þau áhrif, ef hann segir nei við þeim rétti sem hér er settur, að hans börn fái sinn hlut? Er það óeðlilegt vald? Oft eru þessar eignir í framkvæmd í sameiginlegri notkun barna og foreldra. Á þá ekkjan, ef henni sýnist svo, að geta sparkað stjúpbarninu út og sagt: Þú færð engan arf strax. Ég ætla að hafa þessar eignir í minni umsjá, hvort sem það er um fjögur hundruð fermetra íbúð eða minni að ræða. Er þetta réttlætið sem menn eru að tala um? Það er ekkert þak á þessum hugmyndum.

Ég tel að það megi vissulega finna þess dæmi að börn hafi sýnt óbilgirni sínum foreldrum eða því foreldri sem hefur verið eftirlifandi. Það er þó meginreglan að börn samþykkja að foreldri sitji í óskiptu búi. Spurningin er þegar hitt gerist og þau neita: Hvers vegna neita þau? Það er vegna þess að það er ósamkomulag á milli barnanna og þess foreldris sem eftir lifir. Og sjaldan veldur einn þá tveir deila.

Ég lýsti því yfir í n. að ég væri efnislega andvígur frv. eins og það væri flutt og mundi greiða atkv. gegn því og væri hlynntur því að það færi sem fyrst úr n.till. sem hér er sett fram grundvallast á sömu grunnhugsun og er í núgildandi erfðalögum, þ. e. að sá aðili sem er að kveðja hefur réttinn til að segja fyrir um hvað verði gert við hans eigur.

Það liggur nefnilega alveg ljóst fyrir að skv. núgildandi erfðalögum, eins og réttilega var upp talið, fær eftirlifandi maki 4/6 af eignunum. Hann fær helming og hann fær 1/3 af því sem eftir er. Ég hygg að í þeim lögum eins og þau eru sé vissulega tekið mikið tillit til eftirlifandi maka. Hann fær bæði þann helming sem hann á með réttu og hann fær 1/3 af hinu.

Það hlýtur að vera umhugsunarefni varðandi börn, sem oft og tíðum hafa ílengst á heimili sinna foreldra og unnið þeim mikið fjárhagslega, hvort það sé rétt að ganga þannig frá þessu í lögum að við brottför annars foreldrisins geti hitt raunverulega úthýst þeim sem eftir eru. Mér er ekki ljóst hvort það er hugsjónaeldur eða fáfræði sem liggur á bak við það mikla kapp sem hv. 10 landsk. þm. leggur á að boða að hér sé eitthvað réttlætismál á ferðinni. Ég veit ekki til þess að stjúpbörn í þessum heimi hafi haft of góða daga. Það getur vel verið að hv. 10. þm. Reykv. telji að svo sé og það sé rétt að ná af þeim þeim rétti sem þau hafa í lögum. Ég er ekki þeirrar skoðunar. Ég mun hiklaust líta á það sem mína skyldu að líta svo á að þau séu hinn veikari aðili en ekki hinn sterkari í þeim leik sem hér er verið að tala um og tel ég að ég hafi fullar skyldur í því sambandi að veita þeim lið þannig að það sé ekki reitt af þeim sem þau hafa samkv. íslenskum lögum.