03.05.1985
Neðri deild: 63. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4793 í B-deild Alþingistíðinda. (4044)

424. mál, erfðalög

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil benda hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni, 5. þm. Vestf., á ofurlítinn misskilning í sambandi við skilgreiningu á orðinu „öreigi“. Það hlýtur að teljast til nauðþurfta hverrar manneskju að eiga sitt eigið heimili, þ. e. þak yfir höfuðið. Hann hefur áhyggjur af því að við sem berum fyrir brjósti þá sem minnst mega sín séum svona áhugasöm um arf. Við teljum að fólk þurfi að eiga heimili, en ég vil benda hv. þm. á, ef hann hefur áhyggjur af því að stóreignarmenn sem kannske hafa tekjur af eignum sínum, fái þarna rétt, að hann hefur sjálfur orðið til þess að flytja frv. þar sem réttur þessa fólks er tryggður líka. Ástæðan fyrir því að í mínu upphaflega frv. var ekki lagt til að allar eignir kæmu til skipta var einmitt sú að við töldum að það væri ekki nauðsynlegt, einungis að eftirlifandi maki ætti rétt á setu í sínu eigin heimili og skiptum á því væri frestað. En þm. hefur nú flutt frv. sem tryggir að jafnvel þó að um verulegar eignir væri að ræða, sem gæfu af sér stórkostlegar tekjur, er nú með erfðaskrá hægt að fresta öllum skiptum á þeim eignum.

Ég hafna alfarið þeim mismun sem gerður er á stjúpbörnum og sameiginlegum börnum viðkomandi hjóna. Ég veit ekki hvaða hugmyndir hv. 5. þm. Vestf. hefur um líf stjúpbarna nú til dags. Ég held að sögur Grimms-ævintýra tilheyri liðinni tíð og ég hef engar sönnur fyrir því að stjúpbörn eigi harðari ævi í okkar nútímaþjóðfélagi en önnur börn. Um það veit ég auðvitað ekki neitt. (ÓÞÞ: Það hef ég.) Skv. íslenskum lögum ber foreldrum að annast framfærslu barna sinna, hvort sem þau eru í hjúskap eða utan, og löggjafinn hefur sjálfur markað þá stefnu með barnalögum að auka skyldur foreldra við börn sín, hvernig sem þau annars eru í heiminn komin, auk þess að tryggja rétt barnsins til aðgangs og umgengni við báða foreldra sína. Ég get því ekki séð að stjúpbörn eigi að hafa nokkurn meiri rétt en önnur börn til þess að hrekja eftirlifandi maka úr búi. Ég held líka að löggjafinn ætti að huga að því, ef hann vill stuðla að betri samskiptum meðal manna í þessu þjóðfélagi, að það vill svo til að um er að ræða hálfsystkin í þessu tilviki og það er auðvitað ekki til að efla samkomulag þeirra og styrkja ef nokkuð af systkinunum getur vaðið inn í heimili móður eða föður hinna og hrakið þau brott. Ég held að menn skyldu huga að því hvaða afleiðingar löggjöf hefur. Ætli væri ekki heilbrigðara að öll börn, sem búið varðar, sætu þar við sama borð og biðu þess að búinu yrði skipt þegar eftirlifandi maki hefði ekki lengur fyrir það neina þörf.

Menn tala hér um fjárþörf ungs fólks, væntanlega þess sem er að byggja. Heilagir allir! Ætli það fólk sem nú er að skila þjóðfélaginu hafi ekki orðið að lúta meiri fjárhagsörðugleikum en sú kynslóð sem nú er að vaxa upp í landinu? Ég tel að henni sé vorkunnarlaust að sjá um sig sjálf (ÓÞÞ: Það er verra ástand en í Indlandi.) þangað til hún fær þennan arf, sem hún að sjálfsögðu fær fyrr eða síðar þó enginn viti raunar hver annan grefur.

Ég heyri það frá hv. 5. þm. Vestf. að hann hefur ótrú á húsnæðismálastefnu núv. ríkisstj. og ég er sammála honum um það. Það er kannske rétt hjá honum að þetta er verra en oft áður. En þrátt fyrir allt held ég að æska þessa lands hafi fengið það uppeldi og ýmsa þá þjónustu, menntun og allan betri aðbúnað en jafnvel við fengum sem erum nú á miðjum aldri, að ég tali nú ekki um þá sem eldri eru, að henni sé vorkunnarlaust að reyna að koma undir sig fótunum eins og foreldrar hennar urðu að gera og þurfi ekki að hrekja foreldra sína úr eigin heimili til þess að geta gleypt eigur þeirra. Það tel ég siðferðilega gjörsamlega alrangt.

Varðandi það sem hér var sagt um umsagnaraðila vil ég aðeins geta þess að ég er þeirrar skoðunar að það sé Alþingi sjálft sem á að móta stefnu í löggjöf landsins. Það á auðvitað að hlýða á skoðanir ýmissa annarra í þjóðfélaginu og til þess er eflaust um umsagnir beðið. En svo lítið mark er tekið á þeim beiðnum aftur og aftur, eins og við öll vitum sem í nefndum sitjum og sendum mál til umsagnar, að sumu af því er ekki sæmandi að taka við athugasemdalaust.

Ég vil enn og aftur geta þess að mér finnst ekki sæmandi Lögmannafélagi Íslands að hafa ekki mikið annað um lagafrv. að segja en að þar sé varað við samþykkt frv. þar sem gengið sé á rétt erfingja til arftöku og ráðstöfunarrétt arfleifenda. Menn geta bent á að þarna sé um þetta atriði að ræða, en þeir eiga ekki að vara við samþykkt þess. Það er bein ókurteisi við Alþingi Íslendinga og við það stend ég.

Ég skal ekki eyða tíma þeirra fáu þm. sem á mál mitt hlýða og ég harma að þeir skuli ekki vera fleiri vegna þess að ég hef tröllatrú á því að þm. margir hverjir skilji þetta mál og séu því hlynntir. Það er hins vegar afar erfitt að sannfæra nokkurn mann ef hann ekki hlýðir á það mál sem flutt er svo sjálfsagt verð ég þar með að gefast upp. En ég þakka þeim þm. sem hafa sýnt þessu máli áhuga og ekki síður þeim fjölmörgu úti í þjóðfélaginu sem hafa haft samband við mig vegna þessa. Og þó að þm. treysti sér e. t. v. ekki til að samþykkja brtt. þá sem við höfum flutt við hið nýja frv., en treysta sér samt til að samþykkja frv. óbreytt, þakka ég hv. allshn. fyrir að flytja það. Ég tel það vissulega skref í rétta átt þó mér finnist það allt of stutt. Það er a. m. k. betra en ekki neitt því að það ástand sem nú viðgengst er öldungis óþolandi og ósæmandi.

Ég ítreka þá ósk mína, herra forseti, að þess verði freistað að greiða um þetta mál atkv. Ég hlýt að geta þess að vegna starfa í Norðurlandaráði verð ég ekki á næsta þingdeildarfundi. Ég vil biðja herra forseta að kanna hvort ekki sé unnt að finna svo marga þm. hér í hv. deild að hægt sé að greiða um þetta atkv. Ég vil helst eiga þess kost að taka þátt í þeirri atkvgr. Takist það ekki vil ég jafnframt fara þess á leit við hæstv. forseta að með atkvgr. verði beðið til miðvikudags, en þá verð ég komin aftur til starfa.