03.05.1985
Neðri deild: 63. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4804 í B-deild Alþingistíðinda. (4057)

77. mál, byggingarlög

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég kom aðeins hér til að hafna því alfarið að hér sé um óvandað frv. að ræða. Það eru helber ósannindi. Ég get ekki séð á hvern hátt það er óvandað enda hafa engin rök komið fram um það, hreint engin. Ég ætla að leyfa mér að lesa hér 1. gr. eins og hún kæmi til með að hljóða ef frv. hefði orðið að lögum.

9. gr. byggingarlaga hljóðar svo eins og lögin eru í dag.

„Óheimilt er að grafa grunn, reisa hús, rífa hús eða breyta því eða notkun þess eða gera önnur þau mannvirki, sem áhrif hafa á útlit umhverfisins, nema að fengnu leyfi viðkomandi bygginganefndar.“

Síðan koma undirgreinar: „Framkvæmdir skv. 1. mgr. skulu vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deildarskipulag, sbr. 4. gr. 1. mgr. skipulagslaga.“ Önnur undirgrein fjallar um niðurrif og breytingar á húsum, og þriðja undirgreinin í 9. gr. fjallar um að byggingarleyfi skuli vera skriflegt og öðlast gildi þegar eftirtöldum skilyrðum hefur verið fullnægt:

„1. Sveitarstjórn hefur staðfest samþykkt byggingarnefndar um veitingu byggingarleyfis . . .

2. Þeir sem ábyrgð bera á byggingarframkvæmdum hafa undirritað yfirlýsingu, sbr. 2. mgr. 18. gr. og 2. mgr. 19. gr.

3. Byggingarleyfisgjöld og önnur tilskilin gjöld hafa verið greidd.“

Þetta eru lögin eins og þau eru nú. Síðan hefði bæst við eftirfarandi málsgrein: „Opinberum stofnunum, öðrum þjónustustofnunum og atvinnufyrirtækjum skal sett það skilyrði fyrir byggingarleyfi að frá lóð verði gengið svo fljótt sem kostur er og aðrar framkvæmdir leyfa. Skal gert ráð fyrir að óbyggður hluti lóðar verði skrýddur gróðri svo sem unnt er.“ Greinilega eru þm. á móti þessu.

Síðan er eina breytingin sem gerð er í frv. að skilað skuli uppdrætti að fullfrágenginni lóð, helst undirrituðum af landslagsarkitekt þar sem til hans næst, annars staðgengli hans, sérfræðingi í garðyrkju eða skógrækt.

Það er ekkert formlega athugavert við þetta frv. enda lét ég að sjálfsögðu lögfróðan mann fara yfir það eins og öll þau frv. sem ég hef flutt, og hef ekki enn þá fengið neinar ábendingar um formgalla. En sé þá að finna á þessu frv. hefði ég gjarnan viljað heyra um það frá nefndinni. Sannleikurinn er sá að það er ekkert fljótfærnislegt við þetta frv. Í frv. var lögð mikil vinna. Nálægt því komu þó nokkrir menn sem vit hafa á, þar af, minnir mig, ekki færri en þrír lögfróðir, þannig að sú er ekki ástæðan fyrir því að þessu frv. er hafnað. Hins vegar er mér fullljóst að Magnús E. Guðjónsson og fleiri, sem unnu byggingarlögin eins og þau eru núna, eru auðvitað haldnir sömu tregðu og flestir slíkir, að vilja helst engar breytingar á þeim merku lögum, því að sjálfsögðu finnst þeim sín verk fullkomin. Og þm. treysta sér ekki til þess að taka um það ákvörðun að þarna megi nú e. t. v. úr bæta.

Aðalatriðið er þó að það nægir ekki að hafa þessi atriði í byggingarreglugerð. Eftir byggingarreglugerð er ekki farið. Það má vel vera að það sé ekki farið að lögum heldur í þessu landi. Vissulega eru mörg dæmi um það. En það ætti þó að vera nokkuð alvarleg ítrekun Alþingis að atriði sem þetta sé sett beint inn í lög. Ég harma því þessa afgreiðslu.