03.05.1985
Neðri deild: 63. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4808 í B-deild Alþingistíðinda. (4063)

50. mál, ríkisábyrgð á launum

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Enn þakka ég hæstv. forseta fyrir að gefa mér orðið hér. Út af því sem hæstv. félmrh. sagði um formann margnefndrar nefndar varðandi orlofsmálin þá hefði mér fundist eðlilegt að hæstv. ráðh., fyrst hann ætlaði að leita til formanns í nafni nefndarinnar, hefði leitað til nefndarinnar sem heildar því að þar eigi þó fleiri fulltrúar sæti.

Varðandi þá ágalla sem Gestur Jónsson lögmaður telur á brtt. er því til að svara að það eru fleiri lögmenn til í landinu en hann. Lögfræðingur Alþýðusambands Íslands hefur aðstoðað við að móta tillögur þær sem hér liggja fyrir á þskj. 803 og 724 og telur þær báðar geta staðist að því er frv. varðar. Ég kem því ekki auga á að neitt sé því til fyrirstöðu að þessar tillögur komi hér til frekari umfjöllunar og atkvgr. við 3. umr. málsins.

Ég vil hins vegar minna á það að Póstgíróstofan er opinber stofnun. Ríkið hlýtur að bera alla ábyrgð á slíkri stofnun og því sem þar fer fram fjármunalega séð, eins og í öðrum tilvikum, þannig að orlofsfé greitt inn í póstgíró er nánast ríkistryggt. Það fer ekki hjá því. Þarna er um ríkisstofnun að ræða sem ber ábyrgð á sínum gjörðum.