06.05.1985
Efri deild: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4810 í B-deild Alþingistíðinda. (4072)

146. mál, sjómannalög

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um það ágæta frv. sem hér er til umr. Mér sýnist að þar sé flest eins og best verður á kosið og að hv. samgn. hafi unnið sín störf með mikilli prýði.

Það sem mig langar til að segja fáein orð um er um sérstök réttindi sjókvenna, en það er gamalt orð yfir þær konur sem sjó stunda og nefndar eru „konur sem eru skipverjar“ í þessu frv.

Í fyrsta lagi langar mig til að minnast á 23. gr. frv., 3. lið þar sem stendur, með leyfi forseta:

„. . . kona, sem er skipverji, verður vanfær og af þeim sökum ófær til að annast störf sín.“

Heimilað er að skipstjóri geti vikið henni úr skipsrúmi. Ég fagna því að hv. samgn. hefur gert tillögu um að 3. málsl. 23. gr. falli brott, enda brýtur hann í bága við anda gildandi laga um fæðingarorlof þar sem stendur, með leyfi forseta: „Óheimilt er að segja barnshafandi konu upp starfi nema gildar og knýjandi ástæður séu fyrir hendi.“

Ég vildi lýsa ánægju minni með það að hv. samgn. skuli hafa lagt til að 3. liður 23. gr. falli út.

Þá langar mig til að víkja aðeins að 17. gr., en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Ef kona, sem er skipverji, verður vanfær getur hún krafist lausnar úr skipsrúmi ef hagsmunir hennar eða barnsins krefjast þess og á hún þá aðeins rétt á kaupi fyrir þann tíma sem hún var í skipsrúminu.“

Mér finnst koma mjög til álita í sambandi við þessa grein hvort ekki væri rétt að hafa þarna inni ákvæði um að konan eigi rétt á því að vera færð til í starfi vegna þungunar sinnar, en haldi launum sínum og öðrum réttindum eftir sem áður meðan á þunguninni stendur.

Í þessu sambandi vil ég benda á mál sem núna er fyrir dómstólum, en það er mál Sigrúnar Ólafsdóttur lögreglukonu sem á þeim tíma er hún var barnshafandi var færð til í starfi. Hún er rannsóknarlögreglukona og var færð til í starfi meðan á þungun stóð og missti við það hluta af sínum launum og réttindum. Nú er það svo að lögreglukonur eru opinberir starfsmenn og opinberir starfsmenn hafa alla jafna þau réttindi að halda sínum launum óskertum við þessar aðstæður. Að sönnu eru sjókonur ekki opinberir starfsmenn, en mér finnst mjög koma til áliti. hvort ekki sé rétt að setja inn í þessi ágætu sjómannalög ákvæði þess efnis að sama skuli gilda um sjókonur. Ég vil í því sambandi benda á að í álitsgerð Jafnréttisráðs um mál Sigrúnar Ólafsdóttur stendur, með leyfi forseta:

„Jafnréttisráð felur ekki einungis rétt heldur mjög æskilegt að settar verði sérreglur um vinnu barnshafandi kvenna, t. d. þeirra er vinna hættuleg störf, en jafnframt verði tryggt að launakjör eða önnur hlunnindi séu ekki skert.“

Þar sem hér er ekki verið að setja sérstakar heildarreglur um aðstæður og launakjör barnshafandi kvenna liggur beint við að grípa inn í lagasetningu eftir því sem hún kemur hingað inn á okkar borð. Þar sem mér vannst ekki tími til að ganga frá formlegri brtt. um þetta atriði fyrir 2. umr. geri ég ráð fyrir að hún komi fram við 3. umr. málsins.