06.05.1985
Efri deild: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4813 í B-deild Alþingistíðinda. (4079)

470. mál, Þroskaþjálfaskóli Íslands

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Um þetta frv. sem hér liggur fyrir um Þroskaþjálfaskóla Íslands get ég verið fáorður. Ég vísa til aths. með frv. sem eru ítarlegar. Meginástæðan fyrir framlagningu þessa frv. er sú að treysta þarf betur lagalegan grundvöll skólans þar sem gildandi lagaákvæði er að finna í leifum laga um fávitastofnanir, sem að öðru leyti hafa verið numin úr gildi, sbr. nú lög nr. 41/1983 um málefni fatlaðra, áður lög um aðstoð við þroskahefta, sem eru nr. 47 frá 1979. Fyrirsjáanlegt er enn fremur að lög um framhaldsskóla ná ekki fram að ganga á næstunni, en ein ástæðan fyrir því að frv. að sérlögum fyrir Þroskaþjálfaskóla Íslands hefur ekki fyrr litið dagsins ljós er einmitt sú að rn. vænti þess að tekið yrði á menntun þroskaþjálfa í lögum um framhaldsskóla og þá á vegum menntmrn. Á undanförnum árum hefur heilbrn.- og trmrn. unnið að því að færa þá skóla heilbrigðisstétta, er á þess vegum starfa, yfir til menntmrn. Þannig eru í dag aðeins starfræktir á vegum heilbrrn. fimm skólar, þ. e. Þroskaþjálfaskóli Íslands, Röntgentæknaskóli Íslands, Sjúkraliðaskóli Íslands, Ljósmæðraskóli Íslands og Lyfjatæknaskóli Íslands. Öllum er þeim það sameiginlegt að veita svokallaða starfsréttindamenntun. Sem stendur er unnið að því að færa Röntgentæknaskólann yfir til Tækniskóla Íslands í samvinnu við menntmrn.

Það er ekkert launungarmál að á árunum 1980–1983 leitaði heilbr.- og trmrn. ítrekað eftir því að menntmrn. tæki að sér menntun þroskaþjálfa og þar með starfsemi skólans, en á það var ekki fallist. Með skírskotun til óskar stjórnar skólans, starfsliðs hans og Félags þroskaþjálfa er lagt til að stjórn skólans verði áfram í höndum heilbr.- og trmrh. meðan ekki hefur verið mörkuð heildarstefna í framhaldsmenntunarmálum hér á landi. Að samþykktum heildarlögum um framhaldsmenntun verður að ætla að sérlög um einstaka framhaldsskóla verði felld úr gildi og stjórn þeirra falin menntmrh. eins og eðlilegt hlýtur að teljast.

Ég sé ekki ástæðu til að fara frekari orðum um þetta frv. en legg áherslu á að með því eru í reynd ekki lagðar til neinar breytingar á starfsemi þessa skóla, heldur aðeins reynt að skapa honum eðlilegan lagagrundvöll eins og málum er háttað. Þá legg ég til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.