12.10.1984
Sameinað þing: 4. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í B-deild Alþingistíðinda. (41)

Skýrsla ríkisstjórnarinnar um kjaradeilurnar

Árni Johnsen:

Herra forseti. Það er undarlegt að heyra jafnungan mann og hv. 4. þm. Norðurl. e. tala á þeim nótum sem hann talar. Ég þekki engan ungan mann sem er jafnellilegur og hrumur í hugsun og það er sorglegt að slíkt skuli vera hjá jafnmyndarlegum ungum manni.

Það var kynning kenning sem hv. 4. þm. Norðurl. e. lét hér falla um sjávarútveg og kostnað í þeim efnum, og væri nú nær að þm. tæki með sér rétt gögn en ekki þann bunka sem hann hafði og fer síðan með staðlausa stafi og vitleysur. Þm. sagði að vaxtakostnaður í fiskvinnslu í landinu væri jafnmikill og ívið meiri en launakostnaðurinn. (SJS: Bull og vitleysa. Svipuð stærð sagði ég.) Svipuð stærð. Við skulum fara ofan í það.

Launakostnaður í fiskvinnslu á þessu ári er 25% að meðaltali yfir landið. Hráefniskostnaður er 50%. Vaxtakostnaður er mikill ef hann fer yfir 8%. Þm. hefur ugglaust verið að tala um fyrirtæki sem er á næsta bæ við hans heimabyggð, Jökul á Raufarhöfn. Það er ljótasta dæmi landsins. (SvG: Er það betra í Vestmannaeyjum?) Það er betra í Vestmannaeyjum, já, vegna þess að í Vestmannaeyjum, hv. 3. þm. Reykv., reikna menn með að gera út af alvöru og að útgerð borgi sig og standi undir sér. Það er ekki í dæminu sem hv. 4. þm. Norðurl. e. nefndi. (Gripið fram í: Það er þess vegna sem allt er stopp?) Já, það er betra að hafa vaðið fyrir neðan sig. Við skulum útskýra það aðeins nánar í dæminu af Jökli á Raufarhöfn, sem þm. hefur ugglaust nefnt. Þar hefur vaxtakostnaður á þessu ári verið 12.2%. Launakostnaður er 16%. En tapið á árinu það sem af er er 16 millj. kr. Þm. hefur ekki áhyggjur af þessari stöðu, en væri þ6 nær að líta sér nær áður en hann fer að dylgja um aðrar verstöðvar á landinu þar sem menn verða að reka fyrirtæki af fullri alvöru því þar er svo mikið í húfi.

Það er óþarft að vera að skjóta hér á Vestmannaeyjar. Vestmannaeyjar hafa um áratuga skeið skilað 10% til 15% af afla landsins í vinnslu, en þar búa tæplega 2% íbúanna. Það er til nokkuð sem heitir ábyrgð og festa. Það er ekki nóg að gaspra hér, vera með skemmtilegar svívirðingar, eins og þm. gerði í sínu máli. Það verður að krefjast þess að hann byggi á staðreyndum en ekki bulli og vitleysu. (Gripið fram í: Það ættu nú fleiri að gera.) Ég get lánað þm. gögn Þjóðhagsstofnunar sem staðfesta það sem ég hef sagt en hrekja það sem hann sagði.

Það má einnig benda á að það eru hinir almennu launamenn í landinu sem eiga milli 60 og 70% af sparifé landsmanna, en það eru fyrirtækin sem eiga 80% af skuldunum. Þess vegna hlýtur það að vera rétt stefna að það séu raunvextir á sparifé þannig að peningarnir séu ekki fluttir frá launafólki til fyrirtækjanna sem bera skuldirnar. Ef þm. gáir að þessu hljótum við að vera sammála, ég trúi ekki öðru. (SJS: Eiga raunvextirnir að vera svipuð stærð og laun?) Það er álitamál. Ég er sammála í því. Það er álitamál hvað raunvextir eiga að vera háir.

Það er svo þegar hversdagslegir hlutir, sem skipta miklu máli, bjagast og skekkjast að þá er um óhöpp að ræða. Það er margt í okkar þjóðfélagi sem hefur skekkst á undanförnum árum þegar stjórn landsins hefur farið úr böndum af ýmsum ástæðum. Alvarlegasta skekkjan sem við búum við er ótrúleg launamisskipting þar sem segja má að allt sé úr böndum og verkafólkið sem vinnur við undirstöðuatvinnugreinarnar situr aftast á merinni.

Um árabil hefur það verið meginstefnan að verkalýðsfélög og vinnuveitendur hafa samið um kaup og kjör, en síðan hafa stjórnvöld í ýmsum tilvikum skekkt útkomuna, eins og frægt var t.d. í leiðsögn Alþb. í síðustu ríkisstj. þegar 14 sinnum var krukkað í kaupið. (Gripið fram í: Var það ekki orðið nógu lágt þá?) Allt á kostnað þeirra lægst launuðu. Á hinn bóginn má nefna aðgerðir núverandi ríkisstj. um síðustu áramót þegar þeir lægst launuðu hlutu 20% kauphækkun á meðan aðrir urðu að láta sér lynda 6% kauphækkun.

Alþb. hafði gert tillögur fyrir síðustu kosningar um fjögurra ára neyðaráætlun, fjögurra ára neyðaráætlun hv. þm. Svavars Gestssonar og co. Hvað varð af þessari neyðaráætlun? Hvers vegna kom hún til? Að loknum kosningum, þegar stjórnarandstaðan blasti við, þá var sú neyð fokin út í veður og vind vegna þess að það skiptir engu máli fyrir Alþb. hvort hægt er að stjórna þannig að kaup og kjör batni. Það sem skiptir máli fyrir Alþb. er að hrekja frá völdum þá stjórn sem þessi misjafni flokkur á ekki aðild að.

Samsetning, efnahagskerfi, flokkar er flókið spil og þegar taka þarf djarfar og áhættusamar ákvarðanir til þess að freista þess að snúa skipinu upp í vindinn í stað þess að hrekjast sífellt undan vindi, þá er að sjálfsögðu hætta á því að mistök eigi sér stað. Og víst hafa orðið mistök hjá stjórnvöldum í þeim sviptingum sem átt hafa sér stað til þess að ná tökum á efnahagsmálum landsins, til þess að snúa vörn í sókn, til þess að treysta atvinnu, treysta kaup og kjör fólks og fyrirtækja. Þetta helst í hendur. Þetta er ein leið, eitt band.

Gróðapungarnir, eins og hæstv. samgrh. Matthías Bjarnason orðaði það á sínum tíma, eru enn til staðar og þeir eru naskir að finna smugurnar þegar straumar skella saman, þegar rótgróin óstjórn og tök til stjórnar flæða saman í baráttu. Þegar þjóðfélagsgerðin skekkist, þá höfum við lent í óhöppum. Þegar við höfum náð tökum til þess að koma á skynsamlegri stjórn, þá höfum við lent í höppum. Það er markvisst unnið að því að rétta af kompás þjóðfélagsins, markvisst unnið að því að rétta hag þeirra lægst launuðu, og hv. þm. Helgi Seljan á ekki að glotta af því nema af fögnuði. (StB: Kallast það að rétta af kompásinn ef skipið fer í aðra átt?) Arkitektar hafa oft verið þekktari fyrir annað en að ná réttum og smekklegum línum, að maður minnist nú ekki á öll balahúsin.

Það er markvisst unnið að því að koma í veg fyrir svindl á innheimtu söluskatts. Það er nýmæli frá því sem verið hefur undanfarin ár. Það er markvisst unnið að því að afnema tekjuskatt sem er einhver óréttlátasti skattur á okkar landi — skattur sem bitnar harðast á þeim sem síst skyldi. Það þarf harðskeytta stjórn í okkar landi ef við eigum að komast út úr þessum darraðardansi, komast út úr tortryggninni sem sífellt eykst vegna þess að einum einstaklingi í okkar landi er ætlað að fara að lögum á meðan annar kemst hjá því á kostnað meðbróður síns. Við slíkar kringumstæður er auðvelt að ala á úlfúð og vera með slettirekuskap, skapa rótleysi og trúnaðarbrest milli manna. En við slíkar aðstæður skiptir öllu máli að þeir sem eigi að stjórna þessu landi haldi ró sinni, haldi stefnu.

Það er með ólíkindum hvernig stjórnarandstaðan hefur veinað og alið á illu umtali í þessum umræðum. Sumt hefur að sjálfsögðu verið byggt á rökum í gagnrýni, en flest úr lausu lofti gripið vegna skorts á staðreyndum, eins og kom berlega fram í máli hv. 4. þm. Norðurl. e. Flest hefur verið sagt á grundvelli pólitísks bögglauppboðs.

Tjáningarfrelsi hefur verið tíðrætt í þessum umræðum sem vonlegt er þegar hvorki dagblöð né útvarp og sjónvarp starfa. Þótt Ríkisútvarpið sendi út fréttir tvisvar á dag bætir það ekki mikið úr í rauninni því það er slíkum tilviljunum háð hvað verður að frétt við slíkar aðstæður sem nú eru uppi. Blaðamenn og fréttamenn eru sem betur fer mannlegir og gera sín mistök og slíkt er hægt að fyrirgefa, en þau verða svo himinhrópandi þegar miðstýring ræður því hver fær að tjá sig. Slíkt hefur átt sér stað undanfarnar vikur í fjölmiðlun hins opinbera á Íslandi.

Ég skal nefna hér eitt dæmi um það hvernig fréttastofa útvarpsins féll í þá gryfju að fela stórfrétt vegna þess að hún var hagstæð fyrir þjóðfélagið í heild en óhagstæð fyrir þá baráttustemmningu sem BSRB vann að fyrir kosningarnar, fyrir atkvgr. um sáttatillögu ríkissáttasemjara. Þar rugluðu sumir fréttamenn auðheyrilega saman málum þótt flestir þeirra hafi staðið af sér freistingu.

Fréttamaður útvarps hringdi í alþm. og leitaði upplýsinga um væntanlegar kosningar til Alþingis, um uppstokkun í ríkisstj. eins og fréttamaðurinn orðaði það, en viðmælandi fréttamannsins svaraði því til að það væri ekkert um þessi atriði að segja vegna þess að það væri hvorki verið að ræða um nýjar kosningar né breytingar á ríkisstj. Þú segir mér aldrei neinar fréttir, sagði fréttamaðurinn þá við alþm. Ég skal segja þér eina góða frétt, sem ég var að fá inn á borð hjá mér, svaraði þm. — Þetta var daginn fyrir atkvgr. um sáttatillögu ríkisstarfsmanna. Og fréttamaður útvarpsins fékk þarna stórfrétt um nýafstaðna vöruverðskönnun verðlagsstjóra, en þá höfðu blöð ekki komið út um nokkurt skeið.

Háar raddir höfðu verið vikurnar á undan í öllum fjölmiðlum um að mjög óeðlileg vöruverðshækkun ætti sér stað á nauðsynjavöru, langt umfram kauphækkanir. Ég hygg að það séu allmörg dæmi um slíkt, en þá verður líka að taka heildina til. Og fréttamaður útvarpsins fékk þarna svart á hvítu staðreyndir í málinu, þar sem niðurstaðan varð sú að á fyrstu átta mánuðum ársins, við könnun á 200 vörutegundum og viðmiðunarþáttum framfærsluvísitölu, þá er meðaltalshækkunin 9.7% á sama tíma og kauphækkanirnar höfðu orðið 12.2%. Í fyrsta skipti í mörg ár hafði þessi þróun orðið sem raun bar vitni. Í fyrsta skipti hafði vöruverð hækkað minna en kaupið á umtalsverðu tímabili. Það er sama hvort maður hefur unnið eitt ár eða tuttugu ár í blaðamennsku, slík niðurstaða er stórfrétt, hlutlaust metið.

En hver voru viðbrögð fréttamanns útvarpsins? Jú. Þetta getur ekki verið rétt, sagði fréttamaðurinn. En eftir að hafa farið yfir gögnin í heild og skráð allar upplýsingar í smáatriðum, þar sem m.a. var útskýrt hvað allt hefði hækkað og hvað mikið, hvað lækkað og hvað staðið í stað, þá sagði fréttamaðurinn: Þetta er jákvæð frétt. Ég get svo sem lagt hana fyrir fréttastjórann.

Þessi frétt kom ekki í Ríkisútvarpinu þá. Hún kom í Ríkisútvarpinu þremur vikum seinna, í fyrradag og daginn áður, sem aðalfrétt í fréttatímum útvarpsins. Hvers vegna ætla ég ekki að svara. En slíkt er umhugsunarvert. Þessari stórfrétt, sem varðaði hvert einasta mannsbarn í landinu og skiptir máli til þess að fólk fái tækifæri til að vega og meta út frá staðreyndum, var stungið undir stól. Henni var sleppt, e.t.v. vegna þess að hún var óhagstæð, daginn fyrir viðkvæma atkvgr. Þetta er að tapa áttum í sínu starfi. Þetta er gagnrýnivert. Þetta er óþolandi. Það var ekki í önnur hús að venda en opinbera fjölmiðla. Dagblöðin höfðu verið stöðvuð í einhverju vitlausasta verkfalli sem um getur í sögu landsins, verkfalli prentara í dag, þar sem enginn ræðir við þá, enginn miðar við þá og þeir sitja út undan af því þeir eru í verkfalli á vitlausum tíma.

Á ferðum mínum um lönd og álfur hef ég að s álfsögðu kynnst ýmsu furðulegu og það er góður skóli. Ég minnist þess að eitt sinn kynntist ég því sjónarmiði hjá útvarpsfréttamanni í Afríku að stundum geymdu þeir fréttir í nokkra mánuði. Hvers vegna? Jú, vegna þess að þegar fréttin birtist er hún samt sem áður ný. Til sanns vegar má færa, en eru þetta nú vinnubrögð sem við viljum tíðka í okkar landi? Sem betur fer er þetta ekki verklag íslenskra blaðamanna nema í undantekningum. En því miður hafa fréttir útvarpsins verið óhugnanlega litaðar á stundum frá því að blöðin hættu að koma út. Það á ekki að vera hlutverk fjölmiðla að afvegaleiða fólk með partasölu í fréttum.

Launabilið í landinu er með þeim hætti að ekki verður við unað til lengdar og væri hægt að nefna mörg dæmi þar um. Það er t.d. vitað mál að sumir prentarar eru 100% yfirborgaðir á meðan aðrir eru lítið yfirborgaðir og sumir ekkert. Þetta gengur ekki upp, þetta getur ekki gengið upp.

Það er vitað mál að verkafólkið í landinu, fiskvinnslufólk, fólk í iðnaði og margir fleiri, hefur fengið minnstar kjarabætur við hverja samninga á annan áratug. Það eru örfá ár síðan ég fylgdist með kjarasamningum sem blaðamaður á Hótel Loftleiðum. Eftir margra vikna þref var skrifað undir samninga við verkamenn að kvöldi dags, fyrst við Verkamannasamband Íslands, félög í þeim samtökum, um kauphækkun upp á 12% kjarabót í trausti þess að allir sætu við sama borð og eitt gengi yfir alla. Örfáum mínútum síðar stóðu upp talsmenn iðnaðarsambandanna í landinu og sögðu: Nú komum við með okkar sérkröfur. Verkamenn voru eins og oft áður skildir eftir. Átta klukkutímum síðar var skrifað á samninga við iðnaðarmenn upp á allt að 54% kauphækkun. Hvað er þetta annað en bjögun á launakerfi landsins og hvernig á slíkt að ganga upp til lengdar? Hvernig á að vera unnt að sigla áfram þannig að hver treysti öðrum með þessum hætti? Ábyrgð verkalýðsforustunnar er mikil í þessum efnum eins og annarra aðila og hún getur ekki skotið sér undan ábyrgð, fjarri því.

Árið fyrir myntbreytinguna skrifaði ég tvær greinar í Morgunblaðið sem fjölluðu um launataxta í iðnaði og ég hafði eytt miklum tíma í gagnaöflun og úrvinnslu. Þar sýndi ég m.a. fram á að iðnaðarmaður sem vann við lagningu á steypu í gólf gat ráðið því, eftir því hvaða kerfi hann notaði í skalanum, í samningum, hvort hann hafði 40 kr. gamlar á tímann eða 4000 kr. gamlar á tímann. Hvaða glóra er í þessu? Við hverju er að búast þegar slíkt fær að velta upp á sig ár eftir ár eins og gerst hefur? Er unnt að leiðrétta slíkt á einu ári? Er hægt að krefjast slíks af einni ríkisstj.? Það er ómögulegt. Þarna verður að taka tökum, þarna verður að láta skynsemina vinna.

Það komu engin viðbrögð við þessum umræddu greinum og þrátt fyrir fullt af slíkum dæmum hefur Verkamannasamband Íslands ávallt haft samflot með Alþýðusambandi Íslands. En við þessar aðstæður og þróunina á annan áratug í skiptingu launa í landinu hefur Verkamannasambandið auðvitað átt að sigla sinn sjó eitt og sér. Verkamannasambandið hefur ekki átt samleið með Alþýðusambandi Íslands í þessum málum.

Þetta kann að reynast byltingarkennt, en þetta er sannleikur. Það var fyrst um síðustu áramót að hanskinn var í alvöru tekinn upp fyrir þá lægst launuðu af núverandi ríkisstj. og það er hennar stefna að halda því áfram, snúa eins og unnt er ofan af jöfnum prósentuhækkunum á kaup manna. Ef við ætlum að búa í þessu landi verðum við að byggja á friði, sanngirni og tillitssemi. Slíkt yrðu okkar höpp.

Það er láglaunafólk innan ASÍ, láglaunafólk innan VSÍ og láglaunafólk innan BSRB. Það má t.d. nefna kennara og hjúkrunarfólk. Fyrir tuttugu árum voru laun kennara slök miðað við marga aðra. Fyrir tíu árum voru þau orðin þolanleg. En nú eru þau aftur orðin langt á eftir svo ósæmilegt er. En stjórnvöld hafa lýst því yfir að þau séu reiðubúin að rétta þarna af á skynsamlegan hátt, koma viðunandi lagi á. Fá störf í landinu eru eins krefjandi og kennarastarfið og reyndar má segja það sama um hjúkrunina. Þetta eru störf sem fólk verður ósjálfrátt bundið mjög sterkum böndum og þetta eru störf sem við eigum að leggja metnað okkar í að gera þannig úr garði að hæfasta fólkið laðist í þau.

Fjmrh. áréttaði það í máli sínu í gærkvöld að laun kennara væru of lág. (EG: Hann sagði nú sitthvað fleira um kennara.) Hann sagði sitthvað fleira um kennara, það er rétt hv. þm. Eiður Guðnason, en það er óþarfi að vera snúa út úr fyrir hæstv. fjmrh. Það hefur ekki þótt löstur hingað til í þessu landi að vera eilítið skáldmæltur.

Það sem vó þyngst í því sem fjmrh. sagði um kennara var það að launin væru of lág og hann mundi stuðla að því að þar yrði bætt úr. Nefna má að samninganefnd ríkisins hefur boðið að samið yrði um breytingar í þeim efnum á stuttum tíma. Þannig er jákvætt tekið undir þar sem vandinn er mestur, en að tala um jafna hækkun yfir línuna er óraunhæft við þær aðstæður og staðreyndir sem við búum við í okkar landi, óheyrilegt launamisrétti. Þeim mun vandasamara er að semja, en þeir sem bera ábyrgð á stjórn þessa lands verða og eiga að hafa þrek og þor til þess að takast á við þennan vanda í stað þess að láta undan geðþótta þrýstihópa. Við verðum að horfa á sviðið allt, landið allt og miðin. Hvarvetna er fólk við vinnu sína, í rauninni alla jafnmikilvæga, og við verðum fyrst og fremst að feta þá leið að traðka ekki á rétti manns til manns, rétta hönd þar sem hjálpar er þörf, stuðla að því að allir séu jafnir fyrir lögum og skyldum.

Það verður að hlúa að allri nýrækt með sérstakri alúð. Og kennarar þessa lands eru í því hlutverki. Við megum ekki afmennta þjóðina með því að einangra kennarana. Í skólamálum eins og mörgu er margt úr böndum og margt sem þarf að lagfæra með það í huga að bruðla hvorki með fjármagn né starfsþrek kennara og nemenda. En starf kennarans verður ekki metið í klst. Þorri kennara er í rauninni í starfi meðan dagur endist. Það er eins með þá og sjómennina. Þeir eru bundnir starfi sínu á svo margan hátt að vinnudagurinn verður miklu lengri en menn gera sér almennt grein fyrir.

Ég nefndi í umræðum á hv. Alþingi s.l. haust að nemandi í háskóla lækkaði í launum þegar hann hæfi kennslu ef hann veldi sér það fag. Ég gagnrýndi einnig að verkafólk í frystihúsum og iðnaði hefur lægri upphæð til ráðstöfunar en námsmaður á fullum námslánum. Það gengur ekki. Slíkt fyrirkomulag er óhæft fyrir þá verr settu, verkafólkið.

Það er að mörgu að hyggja og margt sem þarf að bæta úr þótt það sé vissulega búið að ná miklum árangri. Það má nefna það brýna verkefni að tryggja fjármagn sem Húsnæðisstofnun ríkisins er í rauninni búin að lofa og fólk er búið að reikna með í samningum sínum. Á hinn bóginn verður að viðurkenna að aldrei fyrr hefur eins mikið verið lánað til bygginga og á þessu ári, kannske of mikið. En það er búið að gefa loforð og það verður að freista þess af öllum mætti að standa við þau loforð.

Á hinn bóginn verða menn að gera sér grein fyrir því að hér er ekki um neitt einfalt mál að ræða. Þessi staða kristallast nefnilega í því að á sama tíma og það vantar stórlega fjármagn í Húsnæðisstofnun er verulegur hluti fiskvinnslunnar í landinu svo illa staddur að jafnvel í stærstu verstöð landsins er athafnalífið lamað að mestu vegna þess að grundvöllurinn er fúinn. Eyjamenn, með sína löngu reynslu í sjósókn, áræði og athöfnum, fara ekki í róður á bát með fúinn kjöl. Það er betra að gá til veðurs áður en farið er á sjó. Það er betra að hafa grundvöll áður en siglt er til framkvæmda og athafna.

Á sama tíma og sá atvinnuvegur, sem skilar þjóðinni 75% af tekjum þjóðarinnar, býr við þessar aðstæður af ytri og innri áföllum eru á lofti í fullri alvöru kaupkröfur upp á 30% einu stéttarfélagi til handa. Er nú ekki ástæða til að líta upp og horfast í augu við staðreyndir?

Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson fjallaði málefnalega og skynsamlega um stöðu mála í gærkvöld og var skemmtilega sammála hv. þm. Þorsteini Pálssyni formanni Sjálfstfl., enda vitnaði þm. oft til orða Þorsteins til áréttingar sínum orðum.

Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson fjallaði m.a. um það sem hann kallaði ríkidæmið í landinu og launamisréttið í landinu. Því miður er hv. þm. ekki alveg laus við það að bera ábyrgð á því hvernig launaskiptingin í landinu hefur farið úr böndum.

Þm. vék að tekjumun á Íslandi og Norðurlöndum þar sem hann benti á að ráðstöfunartekjur væru hærri. Þm. spurði að því hver hirti þann mismun sem væri á tekjum fólks í aðskiljanlegum norrænum löndum. Þetta er auðvitað forvitnileg spurning, en þótt víðar sé pottur brotinn, sem lagfæra þarf, skyldi það ekki vera morgunljóst að stór hluti af þessum peningum fer í rekstur yfirbyggingar samfélagsins sem er óheyrilega mikil fyrir svona fámenna þjóð sem býr í stóru landi?

Hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson hélt því fram að á Reykjavíkursvæðinu væri ekki byggt annað en stórhýsi. Það er ekki hægt annað en að mótmæla slíku. Þm. ætti t.d. að fylgjast með því hverjir eru að byggja í Grafarvogi og Selási þar sem mest er byggt í Reykjavík um þessar mundir. Ég fullyrði að þar er um venjulegt fólk að ræða, almenning sem byggir skynsamlega, og stórhýsi á þessu svæði eru undantekningar. (Forseti: Má ég vekja athygli hv. ræðumanns á því að það verður kvöldfundur í kvöld og það er ekki seinna vænna að fresta þessum fundi ef hv. ræðumaður vildi gera hlé á ræðu sinni, ef hann gæti ekki lokið henni nú.)

Ég vil gera hlé, herra forseti, ég á nokkrar mínútur eftir. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég hafði hugsað mér að víkja dálítið að orðum hv. 4. þm. Norðurl. e., Steingríms J. Sigfússonar, en hann er ekki í salnum svo ég læt það bíða, en virði þm. það til vorkunnar ef hann er að leita sér að gögnum þar sem hann getur fundið stað sínum málflutningi varðandi sjávarútvegsmál.

Ég var þar kominn í ræðu minni að fjalla um ummæli hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar sem hélt því fram að á Reykjavíkursvæðinu væri ekki byggt annað en stórhýsi. Það er ekki hægt annað en mótmæla slíku því betra er að hafa það sem sannara reynist og óþarfi að útvíkka hlutina meira en ástæða er til. Þingmaðurinn ætti t.d. að fylgjast með því hverjir eru að byggja í Grafarvogi og Selási — (Gripið fram í: Þingmaðurinn var búinn að ræða þetta.) — þar sem mest er nú byggt af húsum í Reykjavík. Ég var kominn þar í ræðu minni, hv. þm., og mun taka upp þráðinn þar sem frá var horfið. (Gripið fram í: Ég hlustaði ekki gaumgæfilega.) Gott. Ég vona að þm. geri það framvegis. (Gripið fram í: Góð vísa er aldrei of oft kveðin.) Rétt. Þarna er skynsamlega byggt af almennu fólki og undantekning ef um stórhýsi er að ræða. Ástæðulaust er að ráðast á fólk, sem er að byggja þarna, með því að þar sé um einhverja gróðapunga að ræða. Forréttindafólkið í Stigahlíðinni er ekki sýnishorn af öllum þessum húsbyggjendum. Þeir eru í einni girðingu, Stigahlíðarmenn.

Ég vil taka undir það sem hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson sagði um söluskattsmálin, en hann spurði m.a. að því hvers þau fyrirtæki megnuðu sem greiddu söluskatt á móti þeim fyrirtækjum sem kæmust hjá því. Fjmrh. hefur upplýst hér að það er verið að þjálfa upp menn til að taka á í þessum efnum og er það vel. Það kom fram í máli hv. fjmrh. í gærkvöld hvernig það mál stóð. Ég vil bæta við: Hvers megnar sá launþegi sem enga hefur yfirborgun og greiðir skilvíslega skatta og skyldur? Hvers megnar hann gegn þeim yfirborgaða og þeim sem kemst hjá því að standa skil á sköttum og skyldum? Þetta er dæmi sem má fylgja með. Þarna verða menn að ná áttum því grundvöllurinn fyrir því að við getum búið saman í þessu landi er sá að við deilum byrðunum af réttlæti.

Hv. þm. Eiður Guðnason spurði í gær hvar sá Sjálfstfl. væri sem laut stjórn dr. Bjarna heitins Benediktssonar. Þótt hv. þm hafi lent í pólitískum hafvillum í Alþfl., Alþfl. sem virðist það eitt eiginlegt að leysast upp í öreindir, þá er Sjálfstfl. sami hryggurinn og fyrr í íslensku þjóðfélagi, flokkur sem er spegilmynd þjóðarinnar, flokkur allra stétta þar sem menn vilja leysa deilumál með áræði og framtaki, friði og mannlegum sveigjanleika.

Herra forseti. Í lok máls míns vil ég víkja að tveim atriðum úr verkfalli BSRB. Þar eins og í öðru skiptast á skin og skúrir. Þorri BSRB-manna hefur komið eðlilega fram. Hjá stöku hópum hefur verið gengið of langt. Í fjölrituðum BSRB-tíðindum er frétt undir fyrirsögninni: „Alvarlegt verkfallsbrot“. Þótt allir séu nú ugglaust sammála um vigt brotsins vil ég lesa fréttina, með leyfiforseta:

„Alvarlegt verkfallsbrot!

Í Mosfellssveit starfar maður nokkur að vörslu óskiladýra og er félagi í starfsmannafélaginu í Mosfellssveit. Nú er nefndur maður í verkfalli eins og aðrir félagar hans. Nú ber svo til að rolla anar inn á lóð eins bæjarbúa og eigandi lóðarinnar kallar á téðan mann. Hann segist ekki sinna þessari rollu þar sem hann sé í verkfalli. Þá er hreppstjóri kallaður til og hann fjarlægir rolluna.

Þessi verknaður hreppsstjóra berst til eyrna verkfallsnefndarinnar á staðnum og er hreppstjóri þegar kærður fyrir verkfallsbrot til æðri staða.

Af þessu hafa skapast miklar deilur í hreppnum og ekki vitað hvernig þær enda.“

Svo er nú komið að jafnvel Jóni á Reykjum er blandað inn í verkfallsmál, og hefði nú verið nær að einhver aðstoðaði þennan 300 punda mann hlaupandi á eftir rollu inni í húsagarði. En ég vona að þeir sem sinna skrifum í BSRB-tíðindi telji þetta frekar til spaugs en alvöru.

Á hinn bóginn vil ég nefna afstöðu BSRB til eins atriðis í verkfallsstöðunni. Í 60 ár hefur það verið þegjandi samkomulag í öllum kjaradeilum vinnuveitenda, ASÍ og Verkamannasambandsins að sjómenn fengju að komast heim til sín þegar skip þeirra kæmu til hafnar — í öllum kjaradeilum á landinu nema kjaradeilunni sem nú stendur yfir og síðasta verkfalli BSRB. Nú fá fraktskipin að liggja hér á Sundunum fyrir ankeri og sjómenn fá að skjótast í land, en verða að sinna skyldum til skiptis um borð. Það er ámælisvert að slík óbilgirni skuli höfð í frammi af BSRB að hindra það að fraktskipin fái að leggjast að bryggju og sjómenn fái að fara heim til sín þær fáu stundir sem þeim gefst færi á að vera heima hjá sér. Fyrir utan það er þetta hættulegt og gæti kostað ekki aðeins tjón á eignum heldur manntjón. Í morgun áttu menn t.d. í erfiðleikum að halda skipunum við ankeri og Álafoss varð að hverfa út á Sundin vegna þess að ankeri skipsins hélt ekki í því vonda veðri sem gekk yfir í morgun. Þarna er gjá á milli opinberra starfsmanna og sjómanna sem er ástæða til að mótmæla fyrir hönd sjómanna.

Ef við förum afríkönsku leiðina í fréttaflutningi og geymum fréttirnar, tíðindin, vikum og mánuðum saman, þá mun það dragast von úr viti að samningar náist. Ef við gerum hins vegar þá kröfu að allir aðilar komi fram af fullri ábyrgð og hreinskilni yrðu þær upplýsingar og staðreyndir til staðar um stöðu þjóðarbúsins að unnt ætti að vera að ná samningum á stuttum tíma, fáum dögum.

Það sagði við mig gamall veiðimaður fyrir nokkrum dögum að BSRB yrði að fá að blása út því að svo væri komið, hvalurinn yrði að fá að blása. Og þeir eru svo sem fleiri hvalirnir.

En nú er mál að snúa sér að morgundeginum, framtíðinni, og ganga frá samningum. Við eigum að sigla svo að við komumst hjá óhöppum en lendum í höppum. Að halda ró og stillingu, bera sig vel á hverju sem dynur og vinna sig út úr vandanum, það eru höpp.