06.05.1985
Neðri deild: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4828 í B-deild Alþingistíðinda. (4103)

5. mál, útvarpslög

Frsm. 1. minni hl. (Kristín S. Kvaran):

Herra forseti. Ég hef ekki hugsað mér að verða til þess að draga þessar umr. svo á langinn. Á því sviði hefur þegar verið nóg að gert þó að ekki hafi ég staðið að því. Það sem ég hef þurft að segja til að skýra tillögur mínar hef ég þegar sagt við fyrir umr. þessa máls. En nú er þetta mál allt orðið mun flóknara og í raun hálfundarlegt í sniðum.

Eftir háttstemmdar yfirlýsingar hv. formanns menntmn. Nd. fyrr í vetur um að málið yrði afgreitt úr nefnd innan viku og afgreitt sem lög frá Alþingi að viku liðinni þar frá, hvað eftir annað, þá er nú svo komið að menn eru farnir að tala með semingi um hvort yfirleitt verði greidd atkvæði um það. Ég á bágt með að trúa því fyrr en ég tek á að það verði ekki látið á reyna um hvert fylgi þetta lagafrv. á meðal hv. alþm. Ótrúlegt þykir mér einnig að sjálfstæðismenn ætli eina ferðina enn að láta framsóknarmenn svo auðveldlega og á svo augljósan hátt kúga sig til hlýðni, vegna þess að öllum má vera ljóst að ef þetta frv. kemur ekki til atkvæða er það vegna hótana framsóknarmanna um ,að þar með sé stjórnarsamstarfinu hætt komið.

Það skiptir auðvitað geysilega miklu máli almennt, jafnt fyrir almenning sem og stjórnmálamenn, að um sé að ræða greiða leið að streymi upplýsinga um það hvaða hugmyndir séu helstar uppi m. a. í þjóðmálum. Þessu streymi upplýsinga hefur enginn fjölmiðill yfir að ráða í jafnríkum mæli og útvarpið. Þess margbreytilegri sem slíkur fjölmiðill er, þess meiri líkur tel ég vera til þess að þeir kostir sem til boða standa verði augljósari. Þess vegna er það svo mikilvægt að við brettum nú upp ermarnar og afgreiðum þetta mál og því fyrr, því betra.

Þrátt fyrir að langur tími sé liðinn frá síðustu umr. treysti ég því að mönnum sé enn í fersku minni þegar ég talaði fyrir þessum brtt. sem ég flyt á þskj. 507 ásamt hv. þm. Guðmundi Einarssyni, en ég vil samt sem áður þakka þann stuðning og þær undirtektir við ýmsar af þeim tillögum sem hafa komið fram og ég á von á því að þó nokkrar af þeim verði samþykktar. Af þessum till. sem eru á þskj. 507 eru fjórar sem einnig voru lagðar til af tveimur öðrum flm. með mjög svo svipuðu orðalagi. Þess vegna höfum við nú ákveðið að flytja þær í sameiningu. Nýju tillögurnar eða nýi, búningurinn þeirra er á þskj. 660 og hefur 1. flm. þeirra þegar gert grein fyrir þeim. En þetta eru tillögur sem varða skipun og ráðningu útvarpsstjóra, um notendaráðstefnu, um þingmannanefnd til þess að hafa eftirlit með þróun fjölmiðlunar og lagasetningar meðal nágrannaþjóða og um málefni útvarps og svo að síðustu um gildistöku þessa frv.

Að lokum vil ég ítreka von mína um að þingheimi takist að afgreiða mál þetta og það sem fyrst.