06.05.1985
Neðri deild: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4828 í B-deild Alþingistíðinda. (4104)

5. mál, útvarpslög

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það fór ekki á milli mála hjá síðasta ræðumanni hvers konar hugmyndir hún hefur í sambandi við jöfnun í þjóðfélaginu, en ég ætla ekki að ræða frekar um það.

Hv. þm. Halldór Blöndal, sem talaði hér fyrir hönd meiri hl. nefndarinnar, fór fjálglegum orðum um þetta mikla frelsi sem hann væri að berjast fyrir í sambandi við útvarpsrekstur. Útvarpsrekstur ætti að vera frjáls. Auglýsingar ættu að vera frjálsar. Frelsi hvers er hv. þm. að berjast fyrir? Er það frelsi þeirra sem með einhverjum hætti hafa náð peningum undir sig? Það er ekki frelsi hinna. Það er það sem hv. þm. er að berjast fyrir. Ég er ákaflega hræddur um að kjósendur á Norðurl. e. muni líta öðruvísi yfirleitt á þessi mál en hv. þm.

Ég vil, herra forseti, óska eftir því að athugað verði hvort nærstaddir eru formenn stjórnmálaflokkanna sem voru hér þegar til umr. var frv. til stjórnskipunarlaga. Ég sé að hv. þm. Þorsteinn Pálsson er hér staddur en ég kem ekki auga á hina. Það var ekki hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson sem ég var að hugsa um, heldur hv þm. Kjartan Jóhannsson. Ég vildi óska eftir því að forseti afhugaði hvort forsrh. og hv. þm. Svavar Gestsson og hv. þm. Kjartan Jóhannsson eru hér í húsinu. Ég á við þá erindi. (Forseti: Það er í athugun að þessir menn, sem hv. ræðumaður hefur óskað eftir að yrðu viðstaddir, verði hér í salnum innan tíðar.) Ég mun halda áfram ræðu minni og sjá til hvort þessir hv. þm. eru hér innan húss.

Ég er ákaflega hræddur um að ef margar útvarpsstöðvar rísa upp á þessu svæði með ótakmarkað frelsi, þá muni það koma allhart niður á Ríkisútvarpinu. Ég er eiginlega undrandi á því að hv. þm. skuli ekki athuga betur allar hliðar þessa máls en mér virðist hafa verið gert. Ég er a. m. k. alveg sannfærður um að ef rísa upp kannske margar útvarpsstöðvar með ótakmarkað frelsi til að taka auglýsingar eftir því sem þær bjóðast, þá hljóti það að leiða til þess að Ríkisútvarpið hafi ekki fjármuni til að inna þær skyldur af hendi við alla landsmenn sem nauðsyn ber til. Ég veit ekki betur en því hafi verið borið við, í sambandi við sjónvarpið a. m. k., að góðar myndir séu það dýrar að Ríkisútvarpið hafi ekki fjárhagslegt bolmagn til þess að fá þær og sýna.

Það er auðvitað þarflaust fyrir mig að ræða mikið um þetta mál. Ég hef lýst því yfir áður af þeim ástæðum sem hér hafa komið fram að ég er algerlega á móti þessu frv. og mun greiða atkvæði gegn því.

Hv. þm. Páll Pétursson, formaður þingflokks Framsfl., er erlendis í opinberum erindum. Hann hringdi í mig rétt áður en hann fór og bað mig að koma þeim tilmælum til hæstv. forseta að umræðum um þetta mál yrði ekki lokið fyrr en hann ætti þess kost að vera viðstaddur. Ég vil koma þessari beiðni hans á framfæri og ég legg ríka áherslu á að orðið verði við henni.

Herra forseti. Hæstv. forsrh. virðist ekki vera hér í húsinu né heldur hv. þm. Kjartan Jóhannsson. En erindi mitt við formenn flokkanna er það að í grg. með frv. til stjórnskipunarlaga stendur hér:

„Þingflokkur Alþb., Alþfl., Framsfl. og Sjálfstfl., sem að frv. þessu standa, hafa auk þess orðið ásáttir um eftirfarandi.“

Svo kemur fyrsti liður, sem kemur ekki þessu máli við, en 2. liður er þannig:

„Að beita sér fyrir aukinni valddreifingu og virkara lýðræði samhliða afgreiðslu nýrrar stjórnarskrár. M. a. fái sveitarfélög meira sjálfsforræði og þannig verði völd og áhrif landsmanna allra í eigin málum aukin, óháð búsetu þeirra. Jafnframt munu þingflokkarnir beita sér fyrir sérstökum aðgerðum til þess að jafna félagslega og efnalega aðstöðu manna þar sem mismununar vegna búsetu gætir helst.“

Ég sé ekki betur, herra forseti, en þessi yfirlýsing sé alveg þveröfug við þá stefnu sem nú er verið að taka. Ég sé ekki betur en félagsleg aðstaða fólksins úti um land sé skert ef það er rétt skilið hjá mér að Ríkisútvarpið muni hafa minni fjárhagsgetu eftir þessa breytingu á útvarpslögunum en áður. Ég hef ekki orðið var við að þeir stjórnmálaforingjar eða flokkar þeirra hafi borið við að lyfta hendi til þess að standa við þessi fyrirheit. Kannske skjátlast mér en þá óska ég eftir því að þeir sem hér eru minni mig á hvað hefur verið gert í þessu tilliti.

Ég sé ekki ástæðu til þess að lengja þessa umræðu meira en orðið er en ítreka það að farið verði eftir ósk þingflokksformanns framsóknarmanna, sem er bundinn í opinberum erindum erlendis, að þessari umræðu verði ekki lokið fyrr en hann á kost á því að taka þátt í henni.