06.05.1985
Neðri deild: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4831 í B-deild Alþingistíðinda. (4107)

5. mál, útvarpslög

Frsm. meiri hl. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég held að ljóst sé að vilji þm. stendur til þess að þetta frv. fái afgreiðslu og að vilji þingsins komi fram um það hvort hér skuli vera frjálst útvarp eða ekki. Ég sé ástæðu til að taka það fram vegna þeirra ummæla sem hér komu fram áðan. Ég vil einnig taka fram að við því mátti alltaf búast að þeir menn, sem andvígir eru frjálsu útvarpi, vildu athuga þetta mál lengi. Þess vegna tókst ekki að ná þessu máli fram fyrir áramót. Síðan hefur orðið dráttur upp á síðkastið sem ég skýrði í ræðu minni áðan og þarf ekki að þráspyrja um. Ég hélt að þm. væru það skilningsgóðir og skilningsríkir að ekki þyrfti einlægt að svara sömu spurningunni.

Út af því sem hv. þm. Stefán Valgeirsson sagði um traust kjósenda fyrir norðan þá held ég að þeir treysti varaformanni þingflokks Framsfl., Ingvari Gíslasyni, alveg jafn vel og Páli Péturssyni til þess að hafa orð fyrir þeim framsóknarmönnum og sé ekki af þeirri ástæðu rétt að draga umræðu á langinn eða fresta henni. Ég held að hæstv. forseti hafi fulla uppburði í sér til þess að skýra viðhorf þingflokks Framsfl. Hins vegar er ástæðulaust annað en gefa hv. 2. þm. Norðurl. v. kost á því að segja sitt álit við 3. umr. enda er við því að búast að þingfundir haldi áfram út þessa viku. Deildin ætti því að geta afgreitt frv. fyrir helgi.