06.05.1985
Neðri deild: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4832 í B-deild Alþingistíðinda. (4108)

5. mál, útvarpslög

Frsm. 2. minni hl. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það var vegna ummæla hv. þm. Ellerts Schram hér áðan um að þingflokkur Alþb. væri hér ásamt þingflokki Framsfl. að þvælast fyrir í þessu máli og stuðla að því að það fengi hér ekki eðlilega meðferð að ég kvaddi mér hljóðs. Ég upplýsti það áðan í mínu máli að ég hefði lagt mig fram um það í hv. menntmn. að koma inn þeim brtt. sem ég stend að og dregnar voru til baka við 2. umr. og þeim brtt. hef ég lýst. Þær voru lagðar hér fram 1. apríl s. l. Nú er 6. maí og það er fyrst á þessum degi sem fram koma brtt. frá svonefndum meiri hl. hv. menntmn. Það er því alveg ljóst hverjir það eru sem standa fyrir þeim drætti sem orðið hefur á því að þetta mál kæmi hér til 3. umr.

Hitt er síðan komið fram að borist hafa sérstök tilmæli erlendis frá frá hv. formanni þingflokks Framsfl. sem ekki er staddur í sauðburði norður á Höllustöðum heldur erlendis við gegningar. Hann óskar eftir því sérstaklega að umræðu ljúki hér ekki fyrr en hann komi til leiks hér í þingsölum. Ég hef óskað eftir því sérstaklega að Framsfl. skýri sína afstöðu til þessa stóra máls í ljósi þess hvernig á hann er teflt af hálfu samstarfsflokksins og ég tel það ofur eðlilegt að orðið sé við þeirri beiðni þó að ég treysti hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni fyllilega til þess að standa fyrir sínu máli. En enn þá gildara væri væntanlega að heyra í formanni þingflokks Framsfl. hér við umræðuna og því eðlilegt að orðið verði við hans óskum um að umræðu ljúki ekki áður en hann á kost á að tala hér sínu máli.

Hitt er síðan umhugsunarefni, sú óþolinmæði sem ríkir hjá hv. 6. þm. Reykv., Ellert Schram, í sambandi við þetta mál. Ég skal ekki segja af hverju hún er sprottin eingöngu. En ekki kæmi mér á óvart að hún tengdist eitthvað fyrirætlunum fjölmiðils, sem hv. þm. er ritstjóri fyrir, að eiga hlut að útvarpsrekstri eða standa af eigin afli fyrir slíkum rekstri. Það skyldi nú ekki vera? En þannig geta reitirnir ruglast einnig hér inni í þingsölum og ekkert við því að segja.