06.05.1985
Neðri deild: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4833 í B-deild Alþingistíðinda. (4109)

5. mál, útvarpslög

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það mun hafa verið ætlun forseta að halda hér áfram umræðu um þetta mál fram til kl. 4 og síðan á milli kl. 6 og 7 í dag. Ég vil taka það fram af minni hálfu að ég get ekki sótt þingfundi milli kl. 6 og 7 í dag og þannig er um fleiri þm. Alþb. þar sem við erum bundnir á fundi annars staðar. Ég hlýt að fara fram á það að umræðu verði einfaldlega frestað þangað til á miðvikudag eða þá á morgun ef menn finna tíma fyrir deildarfundi á morgun. Það gerir svo sem ekkert til mín vegna. En hér er um að ræða fund sem boðaður er fyrir löngu og við getum ekki vikist undan að mæta á.

Ég vil mótmæla því mjög harðlega sem hv. 6. þm. Reykv. var að dylgja um hér áðan að við Alþb.-menn værum að þvælast fyrir og tefja þetta mál. Eins og hv. 5. þm. Austurl. benti á hér áðan eru það aðrir sem hafa verið að tefja þetta mál. Það er stjórnarmeirihlutinn sem hefur verið að tefja þetta mál með ýmsum hætti í allan vetur og það er fyrst í dag sem tillögur liggja fyrir frá þeim hv. þm. Halldóri Blöndal og hv. þm. Ólafi Þórðarsyni um ákveðna mikilvæga efnisþætti í þessu máli. Það er því fyrst núna sem þingið á kost á því að taka afstöðu til þeirra tillagna sem þeir hafa lagt fyrir. Þess vegna er ósköp eðlilegt að þessi mál komi núna inn í þingflokkana, ekki aðeins stjórnarandstöðuna heldur sýnist mér ekki vanþörf á því að þessi mál komi til meðferðar í a. m. k. öðrum þingflokki ríkisstj. þannig að þar geti menn tekið afstöðu til málsmeðferðar við þessar athyglisverðu tillögur sem ekki hafa verið lagðar fram í menntmn. og eru þó báðir hv. þm. þar inni. Þetta eru kostuleg vinnubrögð, að sniðganga menntmn. með þeim hætti sem hv. skrifarar deildarinnar hafa hér báðir gert og situr þó síst á þeim sem trúnaðarmönnum okkar hér í hv. deild að fótumtroða venjur og reglur sem tíðkast hér á hv. Alþingi varðandi meðferð mála. Ég harma það alveg sérstaklega að trúnaðarmenn þm., sem eru kosnir samhljóða kosningu til að gegna skrifarastörfum, skuli traðka með þessum hætti á þingvenjum sem myndast hafa hér á undanförnum árum og áratugum.

En kjarni málsins í þessu, hv. þm. Stefán Valgeirsson, er auðvitað ekki skilaboð frá hv. þm. Páli Péturssyni. Kjarni málsins er sá: Ætlar framsókn að láta beygja sig í þessu máli þannig að auglýsingaútvarpið verði rekið ofan í hausinn á Framsfl.? Ef framsókn ætlar að láta beygja sig í þessu máli og það liggur fyrir niðurstaða um það, þá spyr ég í ljósi reynslunnar frá síðasta þingi: Með hvað var verslað? Í fyrra var það Mangósopinn, en hvað er það núna? Hvaða sull er það núna sem hefur verið verslað með á milli stjórnarflokkanna? Það væri fróðlegt að fá um það upplýsingar, herra forseti. Þó að það sé ekki í verkahring forseta á forsetastóli að svara þeim spurningum er ég sannfærður um að varaforsetar væru tilbúnir til að gegna fyrir hann um hríð meðan hann svaraði sem varaformaður þingflokks Framsfl. sem hæstv. forseti ku einnig vera. Ég skil vel að það sé flókið verk að gegna þeim störfum báðum þessa stundina og á hann alla mína samúð í þeim efnum.

Herra forseti. Ég endurtek óskir mínar um það að þessari umræðu verði hreinlega frestað og málið verði ekki tekið hér fyrir aftur fyrr en á morgun. Það er alveg ástæðulaust að vera að reka tryppin með þeim hætti að þetta verði svo aftur tekið upp milli kl. 6 og 7, m. a. vegna þess að við óskum eftir því, þm. Alþb., að fá ráðrúm til þess að sækja annan fund á tímabilinu milli kl. 6 og 7 í dag.