06.05.1985
Neðri deild: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4834 í B-deild Alþingistíðinda. (4111)

5. mál, útvarpslög

Forseti (Ingvar Gíslason):

Út af þessum umr. öllum vill forseti taka það fram að það var ætlun hans að halda hér fund milli kl. 6 og 7. Enn þá er það meining forseta að svo verði gert ef ekki koma nein sérstök andmæli gegn því.

Hitt er annað mál að hér hafa orðið allmiklar umræður út af beiðni sem hv. þm. Stefán Valgeirsson flutti frá formanni þingflokks Framsfl. um að þessu máli yrði ekki lokið áður en hann hefði aðstöðu til að taka þátt í umræðunum. Þetta er 3. umr. og ef umræðunni yrði lokið gefst ekki tækifæri til þess að koma neinum athugasemdum af hálfu þeirra þm. sem nú eru fjarstaddir, þ. á m. í opinberum og eðlilegum erindum. Forseti hefur því haft það í huga að þessari umræðu lyki ekki í dag og ekki fyrr en formaður þingflokks Framsfl., sem hefur farið fram á það að mega taka þátt í þessari umræðu, hefur fengið tækifæri til að gera það.

Hins vegar taldi forseti enga ástæðu til þess að fresta umræðum hér í dag. Margir eru á mælendaskrá og eiga vafalaust eftir að verða fleiri þannig að vel mátti nýta tímann til þess að halda umræðum hér áfram. En nú hefur komið sú beiðni fram að þessari umræðu verði ekki haldið áfram kl. 6. Ég verð við því en ég tilkynni jafnframt að fundur verður kl. 6. Þá verður tekið fyrir 14. dagskrármálið, Áfengislög, 86. mál Nd.