07.05.1985
Sameinað þing: 79. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4852 í B-deild Alþingistíðinda. (4124)

420. mál, fiskeldi

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Hv. 4. landsk. þm. hefur borið fram fsp. til mín um frv. til l. um fiskeldi. Í framsöguræðu sinni sagði hann að það hljómaði nokkuð undarlega að spyrjast fyrir um frv. sem ekki hefði komið fram eða ekki hefði verið endanlega samið, enda fór hann út um nokkuð víðan völl í máli sínu og ræddi um ýmislegt fleira en þá fsp. sem hér er á dagskrá.

Í núgildandi lögum um lax- og silungsveiði er sérstakur kafli um klak- og eldisstöðvar ríkisins. En vegna þess hvað aðstæður hafa breyst frá því að þau lög voru sett með tilliti til fiskeldis, þá var það mat landbrn. að eðlilegra væri að setja sérstök lög um þann þátt og þá sérstaklega með tilliti til þess að það snertir fleiri stofnanir en þær sem heyra undir landbrn. Að þessu verki var unnið í vetur og drög að frv. voru mótuð á vegum rn. Endanlega hefur ekki verið gengið frá því og þess vegna er ekki hægt að ræða um það sem fullbúið frv.

Markmið þessa frv. er vitanlega að mynda lagaramma fyrir þessa starfsemi í landinu. Þar voru ekki settar á blað neinar hugmyndir um eitthvert gífurlegt bákn, eins og hv. fyrirspyrjandi var að gefa í skyn, heldur er einn megintilgangurinn með frv. að reyna að leita eftir samstarfi allra þeirra aðila í þjóðfélaginu sem geta stutt að þessum málum. En það eru allmargar stofnanir og aðilar sem hingað til hafa ekki að mínu mati haft nægilega náið samstarf.

Veiðimálastofnun fer með framkvæmd laga um lax- og silungsveiði fyrir hönd rn. í fjölmörgum atriðum og veitir leyfi til þessarar starfsemi eða umsagnir um hana. Auk þess hefur svo laxeldisstöðin í Kollafirði starfað alllengi að tilraunastarfi á þessu sviði. En þar til viðbótar tel ég að þurfi að koma samstarf við Rannsóknastofnun landbúnaðarins vegna þess að þar er til þekking í sambandi við kynbætur á þessu dýri eins og öðrum okkar húsdýrum hér á landi. Einnig þarf að hafa samstarf við bændaskólana. Við Bændaskólann á Hólum hefur þegar verið sett upp fiskeldisbraut og ég vil leggja áherslu á að þar er um mjög þýðingarmikið atriði að ræða því að fyrsta skilyrðið til þess að ná árangri í þessari búgrein eins og öðrum er að hafa þekkingu. Það er reynsla Norðmanna, sem við vitnum mjög til, að það þurfi einmitt að byggja á þeim sömu hefðum og brýnastar eru í sambandi við annað skepnuhald og þess vegna þurfi að tengja þetta saman. Einnig þarf að hafa samstarf við dýralækna vegna sjúkdóma og sjúkdómavarna. Það mál hefur verið ofarlega á baugi og var því öllum ljóst. Síðan eru aðrir aðilar og stofnanir utan landbrn. sem búa yfir þekkingu og hafa þarna hagsmuna að gæta. Þar má nefna Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins sem hefur á undanförnum árum unnið að tilraunum með fóður fyrir fiska. Hafrannsóknastofnun býr vitanlega yfir mikilli þekkingu á þessu sviði og síðan eru samtök fiskeldis- og hafbeitarstöðva sem hafa og eru að öðlast mikla reynslu. Alla þessa aðila þarf að reyna að sameina til átaka í þessum málum og það vakti fyrir mér með þessu frv. að það yrði einn gildasti þátturinn í því að stuðla að slíku.

En eins og ég sagði er þarna um fleiri aðila að ræða en þá sem undir landbrn. heyra og því er ljóst að þetta þarf að vinna í samstarfi við þá og þar af leiðandi einnig þetta frv. Þess vegna hefur verið ákveðið að forsrn. skipi nefnd með aðild frá landbrn. og sjútvrn. til þess að ljúka við frágang þessa frv. og fjalla þá um þessi mál að öðru leyti eftir því sem snertir þessa starfsemi og það gæti orðið þar til aðstoðar. Einnig hef ég ákveðið að kalla saman til fundar alla þá aðila sem ég taldi hér upp að snertu landbrn., enda þótt ekki hafi verið felld í lagaramma sú starfsemi, til að koma þessu samstarfi á sem fyrst. En hlutverk landbrn. verður vitanlega það að hafa forustu um að leiða saman þessa aðila sem á þess vegum eru og stuðla á annan hátt að því að þessi atvinnuvegur uppfylli þær vonir sem menn gera til hans og geti orðið svo mikilvægur fyrir okkur á komandi árum.