07.05.1985
Sameinað þing: 79. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4856 í B-deild Alþingistíðinda. (4130)

425. mál, stofnútsæði

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Mér hefur borist svar frá Grænmetisverslun landbúnaðarins við fsp. hv. 8. landsk. þm. á þessa leið:

Við 1. spurningu: „Hve mörg tonn af stofnútsæði skemmdust vegna frosta í flutningum með Drangi nú nýverið frá Norðurlandi til Reykjavíkur?“ Svar: 98.8 lestir voru með skipinu.

2. „Hvað er þetta stór hluti af því stofnútsæði sem til er í landinu?“ Svar: Vegna mikillar og góðrar kartöfluuppskeru s. l. haust í Eyjafirði, þá eins í stofnrækt, má ætla þennan farm tæpan þriðjung.

3. „Hve hátt er þetta tjón metið?“ Svar: Verðmæti farmsins alls á útsöluverði var 2 millj. 768 þús. kr. en ekki var ljóst þegar þetta svar barst 19. apríl hvað stór hluti var þá ónýtur.

4. „Hver ber beinan fjárhagslegan skaða af þessu tjóni?“ Svar: Farmflytjandinn, flóabáturinn Drangur hf.

5. „Hver tók ákvörðun um þennan flutningsmáta?“ Svar: Leitað var tilboða í flutninginn til þriggja flutningafyrirtækja í Eyjafirði sem hafa sýnt áhuga á þessum flutningum undanfarin ár. Stjórn Grænmetisverslunar landbúnaðarins samþykkti að taka lægsta tilboði, frá Flóabátnum Drangi hf., enda var næsta tilboð 56% hærra.

6. „Mun það stofnútsæði sem enn er til í landinu fullnægja eftirspurn eða þarf að auka innflutning vegna þessa tjóns?“ Svar: Töluverð umframuppskera varð af stofnútsæðisræktuninni, sbr. 2. tölul. Auk þess er minni eftirspurn kartöflubænda eftir stofnútsæði sem ætla má að sé vegna þess hvað bændur eiga enn miklar birgðir kartaflna sjálfir. Innflutningur takmarkast við eitt kartöfluafbrigði, sem hefur gefið góða raun hérlendis en er ekki í stofnræktun, enda háð framleiðsluleyfi sem útsæði. Ekki er fyrirsjáanleg þörf fyrir frekari innflutningi þó að umrætt magn stofnútsæðis hafi misfarist.