07.05.1985
Sameinað þing: 79. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4860 í B-deild Alþingistíðinda. (4134)

440. mál, öndunarfærasjúkdómar hjá starfsfólki álversins í Straumsvík

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Það virðist vera full ástæða til að grennslast fyrir um þetta mál. Það kemur í ljós í svörum hæstv. ráðh., sem ég vil þakka honum fyrir, að í fyrsta lagi er ekki hafður sami reglubundni háttur á um heilsugæslu hjá starfsfólki álversins og er hjá öðrum stórum efnaverksmiðjum í landinu. Ég veit ekki hvort það skiptir raunverulegu máli en það er vissulega ástæða til að hafa þarna eftirlit. Í öðru lagi virðast ekki vera fullnægjandi upplýsingar um ástand ryk- og mengunarmála þarna núna, einu og hálfu ári eftir að þessi rannsókn Vinnueftirlitsins var gerð, og að mati eftirlitsins er enn þörf frekari úrbóta. Það er því augljóslega full ástæða til að taka þetta mál föstum tökum.

Í þriðja lagi var spurt um hvort vísbendingar væru til um að þessir sjúkdómar séu óeðlilega algengir hjá starfsfólki álversins og það kom ekki beint fram í svari ráðh. Þar er lýst þeirri óvissu sem ávallt sé á skýrsluhaldi um þessa hluti, að menn telji alltaf ástæðu til að ætla að sjúkdómatilfelli séu verulega fleiri en þau sem tilkynnt eru, auk þess að þessir öndunarfærasjúkdómar geti komið í ljós talsvert löngu eftir að viðkomandi hefur sinnt þessum störfum. En af öðrum svörum hæstv. ráðh., sérstaklega við fjórðu spurningu, virðist mér mega skilja af svörum Vinnueftirlitsins að það óttist að þarna geti verið um hættulega hluti að ræða.

Í fjórðu spurningu var síðan spurt hvort sérstakar kerfisbundnar rannsóknir hefðu verið gerðar á tíðni þessara sjúkdóma í álverinu. Það hefur ekki verið gert þrátt fyrir það að í árslok 1983 hafi verið farið eindregið fram á að sú rannsókn yrði gerð.

Ef maður tekur saman svörin við öllum þessum fjórum spurningum virðist mér að þarna hafi verið haldið heldur illa á málum, að þarna sé ástæða til að óttast um heilsufar starfsmanna og að af þessu megi kannske sitthvað læra um framkvæmd þessara mála yfirleitt.