07.05.1985
Sameinað þing: 79. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4865 í B-deild Alþingistíðinda. (4137)

441. mál, brunavarnir

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir svörin. Mér skildist einhvern veginn að hann væri kannske ekkert sammála Inga R. Helgasyni um að hér væri óeðlilega mikið tjón í brunahúsnæði og bar þar fyrir sig samanburð á innlendum og erlendum tölum. Þeir verða greinilega að ræða þetta mál sín á milli, yfirmaðurinn og undirmaðurinn, til þess að komast að einhverri sameiginlegri niðurstöðu.

Það er kannske fróðlegt, áður en við förum lengra í það að velja fyrir okkur orsökum þessa, að lesa hérna ummæli úr bréfi frá Landssambandi slökkviliðsmanna sem þeir sendu til þingflokks Bandalags jafnaðarmanna dags. 21. jan. 1985 og sendu, ef ég man rétt, afrit til allra alþm. Þetta var sent vegna þáltill. sem Bandalag jafnaðarmanna lagði fram um könnun eða úttekt á brunamálum í fiskvinnslufyrirtækjum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Rétt er að geta þess áður en lengra er haldið að Brunamálastofnun ríkisins hefur í öll þessi ár haft 1–2 eftirlitsmenn sem hafa ferðast um landið og tekið út allar helstu brunaáhættur landsins, þar með talin öll frystihús, hótel o. fl. Hafa þeir jafnvel ár eftir ár heimsótt sama staðinn“ — eins og ég vísaði til áðan í sambandi við heimsóknir í frystihúsið á Hellissandi —„og óskað eftir sömu lagfæringunum án árangurs. Og enn í dag hefur ekki eitt einasta fyrirtæki eða stofnun verið ákærð eða lokað vegna ágalla í brunavarnamálum og þó gera allir sér ljóst að nóg er af brotunum.“ Þeir nefna jafnvel eitt dæmi sjálfir frá brunanum á Raufarhöfn þann 10. des. 1984.

Síðar í bréfinu segir, með leyfi forseta: „Greinilegt er að ekki er tekið nema lítils háttar mark á tilskipunum eldvarnaeftirlitsmanna og Brunamálastofnunar ríkisins vegna þess að eigendur fyrirtækja og stofnana geta verið nokkuð öruggir með að hótanir um umbætur á kostnað eigenda eða lokun eru bara orðin tóm. Af framkvæmd verður ekki.“

Síðar í þriðja lagi segir í bréfinu, með leyfi forseta: „Þykir stjórn Landssambands slökkviliðsmanna því ljóst að annað tveggja þurfi að gera, ýta við Brunamálastofnun ríkisins þannig að hún starfi eftir þeim lögum sem henni eru sett eða ef þau eru ekki nægilega sterk, þá þarf að breyta þeim þannig að þau virki eins og til er ætlast.“

Maður spyr sig þarna eins og kannske víðar í íslensku samfélagi hvort engir séu ábyrgir, hvort ekki sé nokkur leið að gera menn ábyrga fyrir þeim völdum sem þeir fara með og koma því svo fyrir að á þeim sé í raun hvatning til þess að standa sig betur, hvatning til þess að lufsast ekki og slugsa. Mér er t. d. sagt af fróðum mönnum að í öllum venjulegum þjóðríkjum í heiminum væri búið að setja stjórn frystihússins á Hellissandi í fangelsi fyrir að hafa ekki sinnt aðfinnslum eftirlitsmanna og fyrir að hafa starfrækt hreina brunagildru. Það kemur í ljós við könnun að þar eru a. m. k. 17 atriði sem er ábótavant.

Menn geta líka spurt sig hvers vegna Brunabótafélag Íslands neyðist til að tryggja svona brunagildrur. Á ekki að breyta lögum þannig að fyrirtæki fái ekki tryggingar nema þau hafi fullnægjandi brunavarnir og koma þannig í veg fyrir að Brunabótafélag Íslands gangi meðal kunnugra undir aukanefninu „Brunabyggðasjóður“?

Hæstv. ráðh. sagði að það vantaði fjármagn. Ég segi: Fjármagnið er til. 1983 eru borgaðar 96 millj. kr. út úr brunasjóðunum vegna þessara tjóna. Hvað hefði verið hægt að gera til úrbóta fyrir 96 millj. kr.? Eru menn ekki að tala um að reyna að byrgja brunninn áður en barnið er dottið ofan í? Eða eigum við að segja að brennt barn forðist eldinn?