07.05.1985
Sameinað þing: 79. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4867 í B-deild Alþingistíðinda. (4139)

441. mál, brunavarnir

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Einarsson):

Herra forseti. Ég ætla að mótmæla því að ég sé hérna með einhæfar yfirlýsingar og hafi ekki kynnt mér málin. Ég hef vitnað hérna í gögn. Í fyrsta lagi hef ég vitnað í viðtal við Inga R. Helgason, í öðru lagi hef ég vitnað í bréf frá stjórn Landssambands slökkviliðsmanna sem ættu að vita um hvað þeir eru að tala og síðan lýsti ég athugasemdum sem ég veit að eru réttar og voru gerðar af þar til kvöddum mönnum vegna brunanna bæði á Hellissandi og í Keflavík. Ég vísa því algerlega á bug að ég tali hérna af einhæfni eða vanþekkingu.

Ég held að ráðh. hafi, hvort sem það var viljandi eða ekki, reyndar komið að kjarna málsins í máli sínu síðast. Það sem hlýtur að þurfa að gera er að afnema einkarétt og afnema þessar skyldutryggingar Brunabótafélags Íslands. Það þarf að koma málum svo fyrir að tryggingafélög tryggi ekki brunagildrurnar. Þá útvega menn sér peninga til þess að uppfylla sínar brunavarnaskyldur hvort sem það þarf svo til þess einhvern sérstakan brunavarnasjóð Íslands, það er hins vegar annað mál. Það væri svo sem eftir öðru eins og menn hafa unnið í svona málaflokkum hér.