07.05.1985
Sameinað þing: 80. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4867 í B-deild Alþingistíðinda. (4143)

177. mál, fjárfestingar erlendra aðila í atvinnufyrirtækjum

Frsm. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Atvmn. Sþ. hefur haft til meðferðar till. til þál. á þskj. 189 um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnufyrirtækjum hér á landi. Flm. þessarar till. var hv. þm. Björn Líndal sem hér sat sem varaþm. um nokkurt skeið fyrr á þessu þingi.

Nefndin hefur rætt tillöguna allítarlega og fengið umsagnir frá ýmsum aðilum: Alþýðusambandi Íslands, Verslunarráði Íslands, viðskrn., Félagi ísl. iðnrekenda, Vinnuveitendasambandi Íslands og Landssambandi iðnaðarmanna.

Niðurstaða nefndarinnar er sú að mæla með því að till. þessi verði samþykkt með breytingu sem flutt er á sérstöku þskj. Tillögugreinin orðist svo skv. þessari brtt.:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta endurskoða gildandi lagaákvæði um fjárfestingar erlendra aðila í atvinnufyrirtækjum hér á landi.“

Um þetta var nefndin sammála og undir nál. rita auk mín Kristín S. Kvaran, Þórarinn Sigurjónsson, Björn Dagbjartsson, Garðar Sigurðsson og Jóhanna Sigurðardóttir.