07.05.1985
Sameinað þing: 80. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4872 í B-deild Alþingistíðinda. (4154)

12. mál, leit að brjóstakrabbameini

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Ég fagna því að þessi þáltill. skuli nú vera afgreidd frá hv. allshn. Sömuleiðis lýsi ég yfir ánægju okkar flm. með það að hv.. nm. skuli hafa samþykkt efni till.brtt. sem nm. flytja breytir í litlu meginefni till. Ég vil jafnframt lýsa yfir mikilli ánægju yfir því hve jákvæður heilbrrh. er í þessum efnum og fagna því hve vel upplýstur hann er um öll málsatvik.

Síðan mælt var fyrir þessu máli í október s. l. hefur ýmislegt komið í ljós sem gerir það enn brýnna að slík hópskoðun hefjist hér á Íslandi. Hæstv. heilbrrh. vék reyndar í sínu máli nokkuð að þessum niðurstöðum en ég ætla að reifa þær aðeins ítarlegar hér.

Nú fyrir nokkrum vikum hélt sænski landlæknirinn blaðamannafund þar sem tilkynntar voru niðurstöður rannsóknar á röntgenmyndatöku af brjóstum kvenna til að leita að brjóstakrabbameini. Þetta er ekki hinn hefðbundni háttur til að kynna rannsóknarniðurstöður en þeirra hafði verið beðið með eftirvæntingu og blaðamenn höfðu komist á snoðir um málið og því valdi landlæknir þetta ráð til að fyrirbyggja misskilning og mistúlkun þar sem niðurstöðurnar biðu enn birtingar í læknatímariti. Þær hafa nú reyndar birst í læknatímaritinu Lancet föstudaginn 13. apríl s. l. og þær niðurstöður sem þar birtust eru í stuttu máli byltingarkenndar. En meginniðurstaðan er sú að í hópi 135 þús. sænskra kvenna á aldrinum 40–75 ára, eins og hæstv. heilbrrh. greindi frá, er voru skoðaðar á 2–3 ára fresti með röntgenmyndatöku af brjóstum varð 31% lækkun á dánartíðni á 8 ára rannsóknartímabili. Þessar niðurstöður hafa verið tölfræðilega grandskoðaðar og eru ótvírætt marktækar. Þessi rannsókn staðfestir að röntgenmyndataka af brjóstum eða mammografi er mun árangursríkari en venjuleg læknisskoðun. Ég hef áður rakið ástæðurnar fyrir því í umræðum hér í október s. l. og vísa til þeirra. Sænski landlæknirinn lýsti yfir því þegar í stað að slík hópskoðun yrði tekin upp á öllum sænskum konum sem fyrst. Sænsk stjórnvöld hyggjast í fyrstu þjálfa um 1001ækna sérstaklega og 200 röntgentækna til að sinna slíkum skoðunum en þeir munu síðan kenna öðrum.

Í grein í breska blaðinu Guardian frá 14. apríl s. l. kom í ljós að breski heilbrrh., Kenneth Clarke, lofaði umsvifalaust eftir birtingu þessara niðurstaðna að láta fara fram víðtæka könnun á möguleikum til slíkrar hópskoðunar kvenna í Bretlandi. Bandarísku læknasamtökin hafa enn fremur mælt með því að slík hópskoðun verði gerð á bandarískum konum eins fljótt og unnt er.

Ég vil leggja áherslu á það að meginvandamál allra þessara þjóða og annarra fjölmennra þjóða er að ná til þeirra kvenna sem mundu njóta góðs af slíkri skoðun þannig að hinn eftirsóknarverði árangur skili sér. Hér á Íslandi höfum við ekki slíkt vandamál. Það má miklu fremur segja að við séum í einstakri aðstöðu til að njóta góðs af slíkri hópskoðun. Hjá Krabbameinsfélaginu er þegar virkt árangursríkt innköllunarkerfi fyrir konur. Þjóðin er fámenn og því fjöldi þeirra sem til skoðunar kemur mjög viðráðanlegur.

Eins og áður hefur komið fram hafa Krabbameinsfélaginu þegar verið gefin nokkur þau tæki sem þarf til að sinna slíkri hópskoðun. Það sem í reynd vantar fyrst og fremst, þegar skoðunin hefur verið skipulögð, er að tryggja rekstur hennar með nægilegu fjármagni. Ég vil vitna í blaðagrein í Morgunblaðinu laugardaginn 27. apríl s. l. þar sem greinir frá aðalfundi Krabbameinsfélags Reykjavíkur. Þar kemur fram að aðalfundurinn skoraði á heilbrrh. að beita sér fyrir því að fé yrði veitt til kerfisbundinnar leitar að brjóstakrabbameini hjá íslenskum konum því að skipulögð leit meðal kvenna mundi auka möguleikana á að greina sjúkdóminn á byrjunarstigi.

Sá kostnaður sem áætlaður er mun vera á bilinu 500–700 kr. á hvern einstakling, sem fer í skoðun, en áætlaður rekstrarkostnaður á ári mun láta nærri að jafngilda rekstrarkostnaði um fimm sjúkrarúma á ári.

Á hverju ári deyja um 25 íslenskar konur úr brjóstakrabbameini. Skv. niðurstöðum áðurnefndrar rannsóknar mundi þessum dauðsföllum fækka um 8 þegar hópskoðun væri farin að bera árangur. Það er ekki bara álitamál í mínum huga hve lengi má bíða með að fjármagna slíka hópskoðun, það er beinlínis ábyrgðarhluti.

Mér fannst verra að þessu máli skyldi hafa verið vísað til ríkisstj. Ég sé að heilbrrh. hefur fullan skilning á þessu máli og hefði fremur kosið að hann tæki að sér að koma þessu máli í framkvæmd. Ég skil að það er ekki hægt að fjármagna alla hluti, það er ekki til nóg fé, en þegar mál hefur svo margt til síns ágætis, þá finnst mér óhjákvæmilegt að leggja mun fyrr út í slíka framkvæmd heldur en áætlað er, haustið 1987. Mér finnst það allt of löng bið. Ég skil vel að það þurfi að skipuleggja og standa vel að málum. Það er ekki hægt að rasa um ráð fram og hlaupa að neinu, en tvö ár eru of langur tími að mínu mati. Ég óttast ekki svo mjög að fjöldi nýrra tilfella sem finnist og þurfi að koma til meðhöndlunar verði slíkur að ómeðfærilegt sé. Það eru þegar í landinu aðstæður til þess að meðhöndla krabbamein þó að þær séu ekki eins fullkomnar og þyrfti að vera, og ég hygg að það ætti ekki að verða til þess að tefja framkvæmd málsins.

Að lokum vil ég undirstrika þakklæti til nm. og ég vil fagna skilningi ráðh. á þessu máli. Allur sá stuðningur sem flm. gætu veitt ráðh. í þessu máli til að knýja fram fjárveitingu er falur hvenær sem er.