07.05.1985
Sameinað þing: 80. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4874 í B-deild Alþingistíðinda. (4155)

12. mál, leit að brjóstakrabbameini

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil benda hér á að það þarf ekki að vera forsenda fyrir læknismeðferð þeirra brjóstakrabbameina sem greinast við skipulagða leit með röntgengreiningu brjósta að línuhraðall sé fyrir hendi. Bæði orkar tvímælis hvort allar konur eigi að fá geislameðferð og svo hitt að ef um geislameðferð er að ræða, þá er hún víða gefin með kóbaltgeislalækningatæki eins og hér hefur verið notað í hálfan annan áratug.

Vegna orða hv. 3. landsk. þm., 1. flm. þessarar till., vil ég taka fram að það voru ekki mín orð að þetta yrði ekki komið af stað fyrr en haustið 1987. Ef undirbúningur gengur að óskum og ekki stendur á peningum, þá getur það orðið fyrr. En ég vil ekki taka þannig til orða að maður sé að lofa því sem maður sér ekki í dag að verði hægt að efna fyrr. En æskilegt er að það byrji fyrr og ef allt gengur að óskum, þá er það ekki útilokað. Hér er eins og fyrri daginn um að ræða skiptingu á fjármagni.

Ég vil líka minna á að það var mikilvæg ákvörðun sem tekin var með því að hefja framkvæmdir við K-bygginguna á þessum vetri og með því að taka inn byrjunarframlag á fjárlög þessa árs. Ég vil sömuleiðis vekja athygli á og biðja hv. alþm. að minnast þess að ákvörðun hefur verið tekin um stórátak í baráttu gegn þeim sjúkdómum sem flestir Íslendingar deyja úr, hjarta- og æðasjúkdómum. Innan mánaðar verður rannsóknaraðstaða fyrir hjartasjúkdóma e. t. v. komin í gagnið á Landspítalanum og vonandi fer þjálfun á íslensku starfsliði fram í tæka tíð til þess að hefja ekki seinna en í byrjun næsta árs hjartaskurðlækningar hér á landi. Nýlega hefur sendinefnd á vegum ráðuneytis og ríkisspítala ferðast um Svíþjóð og sömuleiðis til Bretlands til þess að leita samstarfs og samninga í þessum efnum. Ég tel nokkurn veginn öruggt að þjálfun muni verða í Lundi í Svíþjóð. Þar hefur verið svo rausnarlega boðið að ég held að það sé ekkert áhorfsmál að af því verði. Aðgerðir fara þó enn um sinn fram í Bretlandi, bæði á meðan verið er að þjálfa og þangað til þessi starfsemi hefst hér heima. Vitaskuld verða meðfæddir hjartasjúkdómar og hinir erfiðustu áfram um hríð meðhöndlaðir erlendis, en það er ekki nema lítið brot af tilfellunum.

Með þessum tveimur átökum erum við að flytja alla lækningu þessara sjúklinga inn í landið. Við getum líka og eigum að auka miklu frekar, ef svo mætti segja, útflutning á okkar þekkingu með aukinni samvinnu við aðrar þjóðir og þá á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Við erum því að verða nokkuð vel í stakk búnir að taka upp aukið samstarf á þessum sviðum og e. t. v. verður það líka til þess að lækka á einhvern hátt kostnað okkar við heilbrigðisþjónustu.