07.05.1985
Sameinað þing: 80. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4893 í B-deild Alþingistíðinda. (4170)

Varamaður tekur þingsæti

Guðrún Agnarsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með þeim hv. þm. sem talað hafa í þessari umr. á undan mér og þakka hæstv. utanrrh. fyrir að leggja þessa skýrslu um utanríkismál fram með góðum fyrirvara og mun meiri fyrirvara en á s. l. þingi. Hér hefur þegar verið fjallað um ýmsa þætti þeirrar víðtæku skýrslu sem hæstv. utanrrh. hefur lagt fram og kynnt fyrir Alþingi. Það væri vert að minnast þar á marga þætti því að víst eru þeir merkilegir og nauðsyn að ræða þá ítarlega bæði hér á Alþingi og utan þess. Það hafa þó aðrir gert á undan mér og hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir reifað málefni skýrslunnar almennt fyrir hönd Kvennalistans. Ég vil því takmarka mál mitt verulega og einskorða mig við örfá atriði hér á eftir.

Í fyrsta lagi vil ég lýsa undrun minni yfir þeirri einlitu sýn sem skín af þessari skýrslu. Sú heimsmynd, sem þar blasir við, minnir miklu fremur á daga kalda stríðsins, hólfaða heimsmynd á svarthvítum grunni, líkt og hv. þm. Sigríður Dúna komst að orði, fremur en þann flókna og margræða nútíma sem ég þekki og skynja. Er það enn furðulegra þar sem margir aðilar hljóta að hafa komið við sögu við gerð skýrslunnar. Ekki nota þeir allir sömu gleraugu?

Ég hefði enn fremur fagnað því ef heimildaskrá hefði fylgt svo yfirgripsmikilli skýrslu um svo mörg ágreiningsmál til þess að þm. og aðrir, sem læsu skýrsluna, gætu leitað fanga og upplýsinga víðar.

Mér finnst að frásögn af heimsmálum hefði mátt vera hlutlausari í aðra röndina en síðan hefði jafnframt þurft að fjalla um málið frá sjónarhóli þess sjálfstæða smáríkis sem Ísland er. Það er nauðsynlegt fyrir okkur að taka sjálfstæða ákvörðun og afstöðu til þeirrar þróunar heimsmála sem fyrirsjáanleg er, ekki síst til þess vígbúnaðar sem ógnar lífríki þessarar jarðar. Eða með orðum hæstv. utanrrh., með leyfi forseta: „Ef kjarnorkuvopnum verður beitt er öll heimsbyggðin ofurseld þeim án tillits til landamæra.“

Nú eru fyrirsjáanleg ógnvænleg stigmögnun og þáttaskil í vígbúnaðarkapphlaupinu milli stórveldanna ef áætlanir Reagans Bandaríkjaforseta um varnafrumkvæði í geimnum ná fram að ganga og ekkert er að gert. Því vil ég eyða nokkrum orðum að þessari áætlun að lítið er á hana minnst í skýrslunni og afleiðingar hennar og áhrif á vígbúnað geigvænleg. Auk þess er þessi áætlun gríðarlega fjárfrek og menn skulu ekki gleyma því að halli á bandarískum fjárlögum er um 1800 billjónir dollara. Þessi skuldastaða bergmálar svo um efnahagskerfi heimsins og glymur einna hæst í eyrum þeirra sem sjálfir skulda í dollurum og þá ekki síst í fátækum ríkjum þriðja heimsins. Sérfræðingar hafa giskað á að heildarkostnaður þessarar geimvarnaráætlunar yrði um 1000 billjónir dollara. Altént hefur Reagan Bandaríkjaforseti farið fram á við Bandaríkjaþing á þessu ári a. m. k. 4 billjónir dollara til rannsókna á þessum efnum. Það er mikilvægt að bandaríska þjóðin myndi sér skoðun á þessu máli. En það er ekki síður mikilvægt að aðrar þjóðir og þá einkum þær sem eru í hernaðarbandalagi með Bandaríkjamönnum kynni sér þessi mál og taki síðan afstöðu.

Næstum allir munu fallast á það að heimurinn þurfi einhvern tíma að losna undan þeirri ógn sem býr í möguleikanum á gagnkvæmri gjöreyðingu. Fáir trúa því að sú fæling, sem felst í hótuninni um endurgjald í sömu mynt, geti forðað tortímingu endalaust. Síðan skilja gjarnan leiðir. Valdamiklir aðilar innan stjórna beggja stórveldanna virðast trúa því að látlaus samkeppni um vígbúnað, sem þó sneiðir hjá styrjöld, sé hin eina raunsæja framtíðarstefna. Þrátt fyrir nægar sannanir um hið gagnstæða láta þeir sem öryggi þjóða þeirra velti á því að nýta allt, sem tæknin býður upp á, í hernaðarskyni. Aðrir leita að áfangalausnum sem gætu a. m. k. stöðvað vígbúnaðarkapphlaupið. Enn aðrir hafa sett trú sína á róttækari lausnir, nýjar stjórnmálalausnir, byltingarkenndar tæknilausnir eða eitthvert sambland þessara tveggja. Geimvopnaáætlun Reagans Bandaríkjaforseta virðast tilheyra síðasta flokknum. Í sjónvarpsávarpi til þjóðar sinnar árið 1983 skoraði hann á bandaríska vísindamenn og bað þá að gera þessi kjarnavopn gagnslaus og úrelt. Forsetinn lét í ljós þá von að tæknibylting mundi gera Bandaríkjunum kleift að stöðva og eyðileggja kjarnorkueldflaugar áður en þær næðu til Bandaríkjanna eða til landa bandamanna þeirra. Ef slíkum byltingarkenndum áfanga væri náð, sagði hann, mundu frjálsar manneskjur geta lifað öruggar í vitneskjunni um það að öryggi þeirra væri ekki komið undir hótuninni um umsvifalausa endurgjaldsárás af hálfu Bandaríkjanna.

Getur þessi framtíðarsýn einhvern tíma orðið að raunveruleika? Getur nokkurt eldflaugavarnarkerfi útilokað ógnina um gereyðingu af völdum kjarnorkuvopna? Mundi leit að slíku varnarkerfi binda endi á vígbúnaðarkapphlaupið, eins og forsetinn og stuðningsmenn hans hafa gefið í skyn, eða er það líklegra til að auka það? Geyma áætlanir forsetans loforð um öruggari og friðsamari heim eða eru þær í raun stórkostlegt dæmi þeirrar blekkingar að vísindin geti endurskapað þann heim sem ríkti eða var til áður en fyrsta kjarnorkusprengjan var sprengd 1945? Þetta eru flóknar spurningar, spunnar tæknilegum og pólitískum þráðum og þær verður að kanna áður en Bandaríkin ætla sér að leita slíkra varna því að ef draumur forsetans rætist þá verður geimurinn gerður að orrustuvelli. Því eru geimvopnaáætlanir hans oft nefndar „stjörnustríð“.

Leitin að vörnum gegn kjarnorkueldflaugum hófst fyrir 30 árum og leiddi til þess að einhvers konar varnareldflaugar voru búnar til. Á 6. áratugnum varð samt gagnrýni vísindamanna, m. a. þeirra sem við þessi viðfangsefni unnu, svo hávær, bæði hvað varðar tæknilega og hagfræðilega þætti, að hún leiddi til þess að Nixon og Bresnéf undirrituðu svonefndan ABM-sáttmála árið 1972. Þar var viðurkennt að strangt eftirlit yrði að hafa með bæði dreifingu og þróun slíkra varnarkerfa ef takast ætti að hemja kapphlaupið um árásareldflaugarnar.

Fjölodda kjarnasprengjur (MIRV) með suma odda virka en aðra óvirka en allar þó möguleg skotmörk fyrir varnareldflaugar voru upphaflega hugsaðar sem kjörinn mótleikur við eldflaugavarnarkerfum og hefði í raun átt að gefa þær upp á bátinn þegar ofangreindur sáttmáli var undirritaður. Þrátt fyrir það reyndu Bandaríkjamenn ekki að semja um bann við þessum fjölodda sprengjum. Þess í stað beittu þeir sér fyrir dreifingu þeirra þvert ofan í endurteknar viðvaranir sinna eigin vísindalegu ráðgjafa um að sprengjurnar mundu grafa undan hernaðarjafnvægi og endanlega koma Sovétríkjunum til góða vegna þess að eldflaugar Sovétmanna væru stærri. Hina gríðarlegu fjölgun, sem varð á kjarnaoddum á hverri sprengju í vopnabúrum beggja stórveldanna á 7. áratugnum, má rekja einmitt beint til þessara fjölodda sprengja sem komu til sögunnar og árangur þess er endanlega, að mati langflestra, mun viðkvæmara hernaðarjafnvægi.

Geimvopnaáætlun forsetans er miklu metnaðarfyllri en áformin um eldflaugavarnarkerfin voru á 6. áratugnum. Þau síðastnefndu miðuðust eingöngu við það að vernda hernaðarmannvirki en hin fyrrnefnda miðar að því að vernda heilar borgir, hinn almenna borgara. Hún miðar að því að ráða niðurlögum árásareldflauga stuttu eftir að þeim er skotið á loft, áður en þær yfirgefa gufuhvolf jarðar. Slíkar árásareldflaugar, sem ættu upptök sín þúsundir mílna frá Bandaríkjunum, væri eingöngu hægt að ráðast á og stöðva frá varnarstöðvum úti í geimnum. Ef áætlun forsetans verður fylgt munu verða straumhvörf í vígbúnaðarkapphlaupinu, e. t. v. jafn mikilvæg og þegar eldflaugar komu til sögunnar.

Robert S. Cooper, forstjóri rannsóknastofnunar varnarmála í Bandaríkjunum, komst svo að orði þegar hann kom fyrir herrannsóknanefnd fulltrúadeildar bandaríska þingsins, með leyfi forseta: „Stefnumarkendur hafa í fyrsta sinn viðurkennt þörfina fyrir það að hafa stjórn á geimnum sem hernaðarsvæði.“

Svo sannarlega mundu yfirráð í geimnum vera lykilatriði fyrir Bandaríkjamenn ef þeir ætluðu að koma sér upp áreiðanlegu eldflaugavarnarkerfi fyrir alla þjóðina því að slík geimvarnarkerfi eru í eðli sínu mjög viðkvæm. Jafnframt kallar núverandi stefna á vopn sem hægt er að beita gegn gervitunglum.

Sú kenning, að Bandaríkin gætu komist í yfirburðaaðstöðu í geimnum og haldið henni, tekur ekki tillit til meginreynslu áranna sem hafa liðið síðan Hiroshimasprengjan var sprengd, en hún er sú að byltingarkenndar tækniframfarir, hversu áhrifamiklar eða óvæntar sem þær kunna að vera, geta einungis gefið tímabundinn ávinning. Í raun og veru er eina afleiðingin, sem skynsamlegt er að búast við, sú að bæði stórveldin mundu þróa eldflaugavarnarkerfi sem staðsett væru í geimnum. Hæfni þessara varnarkerfa yrði óviss og mundi gera hernaðarjafnvægi mun viðkvæmara en það er í dag. Bæði stórveldin mundu þróa árásarvopn sín til að tryggja sér að þau gætu brotist í gegnum varnir af óþekktum styrkleika. Og hvötin til að komast hjá tjóni með því að verða fyrri til að gera árás á neyðarstund verður án efa sterkari en hún er nú. Hvort sem vopnakerfi, staðsett í geimnum, gætu nokkru sinni veitt áreiðanlega vörn gegn eldflaugum eða ekki yrðu þau mögnuð vopn gegn gervihnöttum. Sem slík gætu þau eyðilagt á svipstundu þá gervihnetti andstæðingsins sem gegna viðvörunar- og fjarskiptahlutverki. Það mundi síðan leiða til þess að taka þyrfti mikilvægar ákvarðanir á mjög stuttum tíma, svo stuttum að illa hentaði dómgreind venjulegra manna. Á grundvelli tæknilegra athugana eðlisfræðinga má álykta að lang líklegustu viðbrögð Sovétmanna við áætlunum forsetans verði mjög aukin viðbót árásarvopna, enn fremur verður hún til þess að minnka það svigrúm sem gefst til ákvarðana á hættustund og ekki síst getur hún einmitt leitt til þeirrar kjarnorkuvopnaárásar sem áætluninni var ætlað að koma í veg fyrir. Auk þess væri óvíst hve áreiðanlegt varnarkerfið væri þar til það yrði endanlega prófað í alvöru.

Án þess að fara verulega út í tæknilega lýsingu á tegundum mögulegra árása eða varna gegn þeim er þó rétt að leggja áherslu á það að varnarkerfi í geimnum gætu ekki forðað árás stýriflauga af svokallaðri Cruisegerð, sem fljúga lágt, skammt frá yfirborði jarðar. Bæði stórveldin eru reyndar að þróa slíkar lágt fljúgandi eldflaugar sem skjóta má úr kafbátum eða skipum og er talið að þær muni verða veigamikill þáttur árásarvopna ef varnarvopn í geimnum koma til sögunnar.

Svokölluð Fletcher-nefnd var sett á laggirnar árið 1983 af bandaríska varnarmálaráðuneytinu til að meta geimvarnafrumkvæði forsetans, en formaður hennar var James Fletcher frá háskólanum í Pittsburgh. Af upplýsingum frá þessari nefnd hafa bandarískir vísindamenn dregið nokkrar ályktanir og þeir vísindamenn, sem ég hef einkum leitað upplýsinga hjá, eru allir starfandi við bandaríska háskóla. Þeir eru Hans Bethe, Richard Garwin, Kurt Gotfried og Henry Kendall. Bethe veitti forstöðu eðlisfræðideild í Los Alamos og fékk nóbelsverðlaun í eðlisfræði en Garwin hefur verið ráðgjafi Bandaríkjastjórnar. Vert er einnig að minnast á Paul Nitze sem er sérstakur ráðgjafi Reaganstjórnarinnar í afvopnunarmálum en hann flutti nýlega ræðu þar sem hann benti á veigamikla veikleika í geimvarnaráætlunum forsetans. Eru rök hans og gagnrýni mjög svipuð þeim sem fyrrnefndir fjórmenningar hafa haldið fram.

Varnarkerfin byggjast m. a. á því að eyðileggja eldflaugar óvinarins með leysigeislum skömmu eftir að þeim er skotið á loft áður en þær yfirgefa gufuhvolf jarðar. En leysigeislanum, sem er örmjó ljósrák, hlaðin feikilegri orku, er ætlað og hann getur reyndar borað sig í gegnum málmhylki eldflaugarinnar og eyðilagt hana. Stjórnun leysigeislanna byggist að mestu leyti á gríðarstóru speglakerfi þar sem speglar eru staðsettir bæði á jörðu niðri og úti í himingeimnum. Þetta eru engir smá speglar sem menn eru að hugsa um, hvorki meira né minna en um 100 metrar í þvermál en stærstu sjónaukaspeglar sem til eru í heiminum í dag eru einungis um fimm metrar í þvermál og þykja nokkuð stórir.

Árangursrík vörn Bandaríkjamanna gegn árás þeirra 140 langdrægu kjarnorkuflugelda sem Rússar eiga mundi krefjast orkueyðslu sem svarar til 225 þús. megajoula, en joule er mælieining fyrir rafmagn. Ef tíminn, sem gæfist til viðbragðs varnarkerfisins, væri um 100 sekúndur og leysigeislarnir hefðu rafleiðnivirkni um 6% — því mikið af þeim glatast reyndar við beitingu yrði orkuþörfin meiri en afköst 300 eitt þúsund megawatta orkuvera, eða meira en 60% af allri orkuframleiðslugetu Bandaríkjanna í dag. Það yrði ekki hægt að sækja þessa orku skyndilega í hefðbundin orkuver þjóðarinnar og ekki væri hægt að geyma hana. Því þyrfti að byggja sérstök orkuver til þessara nota, en kostnaður á kílówattið væri u. þ. b. 300 dollarar. Því mundu útgjöld vegna orkuþarfarinnar einnar verða rúmlega 100 billjón dollarar.

Því nefni ég þetta dæmi til þess að gefa nokkrar upplýsingar um kostnað áætlunarinnar. En þó er þessi takmarkaða kostnaðaráætlun, sem lýsir hluta framkvæmdanna, mjög bjartsýn og hófsöm og reiknar með hámarksvirkni og velgengni varnarkerfisins. Þar að auki mundi svo koma kostnaður vegna leysigeislakerfisins, speglakerfisins, skynjunartækja, tölvubúnaðar o. fl. sem mundi fara langt fram úr kostnaði orkuveranna sem fyrr var nefndur. Þó er erfitt að meta hann vegna þess að sú tækni, sem þyrfti til að gera þessar hugmyndir að veruleika, er enn svo stutt á veg komin.

Og hver er svo sá mótleikur við varnarkerfum úti í geimnum sem búast má við á sviði árásarvopna? Sá mótleikur, sem er hvað mest ógnandi fyrir eldflaugavarnarkerfi úti í geimnum, er einnig sá ódýrasti og öruggasti, en það er stórfelld aukning virkra og óvirkra, langdrægra eldflauga. Staðsetning slíks varnarkerfis mundi brjóta gegn sáttmálanum um bann við eldflaugavarnarkerfum. Ef sá sáttmáli yrði sniðgenginn mundi það án efa leiða til þess að allar umsamdar hömlur gegn fjölgun árásareldflauga mundu falla og enn má geta þess að öll varnarkerfi yrðu geysilega viðkvæm fyrir virkum árásum. Þar að auki, eins og Richard de Lauer varaframkvæmdastjóri rannsókna- og verkfræðideildar varnarmála í Bandaríkjunum hefur lagt áherslu á, er gerð slíkra varnarkerfa bundin mjög mörgum og alvarlegum vandkvæðum. Raunveruleg prófun slíkra kerfa er augljóslega ómöguleg nema ef til átaka kæmi og mat á virkni kerfanna væri komið undir tölvueftirhermu af raunveruleikanum.

Talsmenn Reaganstjórnarinnar hafa haldið því fram að varnarfrumkvæði forsetans muni verða til þess að beina hernaði yfir í varnarstöðu fyrst og fremst. Slíkt stenst ekki nema til komi veruleg fækkun árásarvopna beggja stórvelda en um slíkt hefur ekkert heyrst, þvert á móti. Rök forsetans og stuðningsmanna hans til að réttlæta geimvopnaáætlun sína hafa verið breytileg og oft mótsagnakennd og voru nýlega rædd og gagnrýnd í leiðara í New York Times. Það er ýmist að geimvopnin eru talin eina varnarkerfið sem hægt er að réttlæta siðferðislega eða að hér sé einungis um rannsóknir að ræða sem taka muni langan tíma, áratugi að þróa og muni fyrst nýtast barnabörnum okkar, en að okkur sé nauðsyn að leggja þennan grundvöll að framtíð þeirra. Þessi vopn eigi eftir að verða ómissandi þegar fram líða stundir. Nú, enn ein rökin hafa verið þau að hér sé einungis um að ræða að eiga sigurstranglegt tromp á hendi í samningaviðræðum við Sovétmenn, ætlunin sé alls ekki að búa þessi vopn til.

Hvernig framtíðar megum við vænta ef stórveldin bæði gera tilraunir til þess að taka í notkun eldflaugavarnarkerfi í geimnum til að koma í veg fyrir kjarnorkuvopnaárás?

1. Ef vel lætur mun það taka fjölda ára að þróa slík kerfi og þau munu sjálf verða mjög viðkvæm fyrir árásum.

2. Bæði stórveldin eiga þegar annríkt við það að yngja upp og gera árásarvopn sín kænni og nýtískulegri. Það mundi aukast.

3. Um leið og eldflaugavarnarkerfin verða byggð verður mikil áhersla lögð á að þróa árásarvopn gegn gervihnöttum sem um þessar mundir eru tiltölulega lítilvæg.

4. Sáttmálinn um bann gegn eldflaugavarnarkerfum, sem þegar er verið að grafa undan, mun verða einskis metinn.

Öll þessi atriði í sameiningu munu verða til þess að hraða og auka á vígbúnaðarkapphlaupið og jafnframt minnka stöðugleika hins svokallaða ógnarjafnvægis eða gagnkvæmrar fælingar. Vaxandi gagnrýni bandarískra vísindamanna hefur leitt til þess að talsmenn stjórnarinnar hafa dregið eitthvað í land með réttlætingar sínar á nauðsyn þess að nota slík varnarkerfi. Eins og ég gat um áðan er ein útskýring þeirra sú að geimvarnaráætlunin sé einungis rannsóknaverkefni og að engin ákvörðun verði tekin um notkun slíkra vopna fyrr en eftir mörg ár. Þess ber þó að geta að hernaðarleg rannsóknaverkefni eru ekki venjulega tilkynnt frá skrifstofu forsetans sjálfs og það eru engin fordæmi fyrir hernaðarrannsóknaáætlun sem kostar 26 billjón dollara án þess að ætlunin sé að nota hana. Áætlun af þvílíkri stærðargráðu, sem sett er á laggirnar á þennan hátt, er mjög líklega tekin alvarlega af Sovétríkjunum og jafnvel álitin vera mikilvæg hernaðarstefna hvernig svo sem hún er skilgreind fyrir almenningi.

Í skýrslu hæstv. utanrrh. stendur einungis eftirfarandi í kaflanum um geimvopn, með leyfi forseta: „Geimvopn. Af hálfu Sovétmanna hefur verið lögð mikil áhersla á þennan þátt fyrirhugaðra viðræðna við Bandaríkjamenn. Fyrir þeim vakir að stöðva rannsóknir Bandríkjamanna á varnarkerfum í geimnum, er bæði risaveldin huga nú að notkun geislavopna frá gervihnöttum. Bandaríkjamenn hyggjast fljótlega efna til tilrauna með því að beina geislum frá gervihnetti á móti raunverulegu skotmarki. Gífurlega fjármuni þarf í rannsóknaráætlanir af þessu tagi. Hugmyndin að baki rannsóknaráætlun Bandaríkjanna er sú að varnarkerfi í geimnum geti hugsanlega gert kjarnavopn gagnslaus í framtíðinni. Þess ber að geta að á árunum 1958–1983 var samtals 2114 gervihnöttum með hernaðarhlutverk skotið á loft, en það svarar til a. m. k. 75% allra gervihnatta á þessu tímabili. Hernaðarhlutverk núverandi gervihnatta er fyrst og fremst eftirlit, en tilkoma þeirra gerði mögulega samninga um vopnatakmarkanir sem áður höfðu strandað á ágreiningi um eftirlit.“

Mig langar til þess að spyrja hæstv. utanrrh.: Hvaða afstöðu hyggst hann taka gagnvart þessum ævintýralegu og feikilega dýru geimvopnaáætlunum Bandaríkjaforseta?

Eins og áður sagði, hef ég valið að fjalla eingöngu um þennan eina þátt skýrslunnar af því ég tel nauðsynlegt að hv. þm. og aðrir fái gleggri vitneskju um þessi mál þannig að um þau verði fjallað af meiri gagnrýni. Mér finnst fjarskalega leiðinlegt hve fáir eru hér staddir. Það liggur nærri að ég stundi hér eintal sálarinnar ef ekki væru staddir einn, tveir, þrír, fjórir, fimm, sex, nú stökkva þeir fram, sjö þm. fyrir utan utanrrh. hæstv. og forseta Sþ.

Hvernig getum við lítil þjóð við ysta haf verið kaþólskari en páfinn þegar allur þorri bandarískra vísindamanna og vaxandi fjöldi bandarískra stjórnmálamanna hefur uppi háværa gagnrýni á þessar hernaðaráætlanir þess Bandaríkjaforseta sem nú er við völd? Ég tek það skýrt fram að hér er ekki verið að varpa allri sök á annað stórveldið. Bæði eru læst í þeim darraðardansi sem vítahringur vígbúnaðarkapphlaupsins er. Bæði eiga þau sök, hvort þeirra um sig er ábyrgt fyrir sínu áfangaskrefi á þeim spíralferli sem er að leiða þau út í geiminn. Hvorugt er algott, hvorugt er alvont, hvorugt er hvítt, hvorugt er svart, þau eru bæði grá fyrir járnum og lífinu hættuleg. Þannig var merking orða hv. þm. Sigríðar Dúnu Kristmundsdóttur í umr. um þetta mál fyrr. Hún gerði ekki tilraun til að vega eða meta illsku og gæsku stórveldanna og hún fann ekki annað verra en hitt, eins og hv. þm. Kjartan Jóhannsson taldi, sem því miður er fjarstaddur, né heldur lagði hún þau að jöfnu eins og hv. þm. Eiður Guðnason hélt, sem því miður einnig er fjarstaddur, nema að því einu leyti — og þar tek ég mjög sterklega undir með henni — að vígbúnaður þeirra beggja er lífríki jarðar jafn hættulegur. Það er ógæfa þjóðar að búa við frelsisskerðingu þó að sá skortur, sem hv. þm. Eiður Guðnason sagði ríkja á símaskrám í Sovétríkjunum, sé kannske minnsti og léttbærasti böggullinn sem fylgir því skammrifi að búa við ófrelsi.

Ég vil taka það fram og leggja ríka áherslu á það að gefnu tilefni að þm. Kvennalista hafa ítrekað lýst yfir eindregnum stuðningi við lýðræðislegt stjórnarfar og fordæmt hvers konar frelsisskerðingu og kúgun einstaklinga og þjóða. Ef það skyldi nú hafa farið fram hjá hv. þm. Eiði Guðnasyni, Kjartani Jóhannssyni eða öðrum í annríki daganna, þá eru samtök um Kvennalista einmitt kvenfrelsishreyfing sem sprottin er upp og farin á stúfana til að leita svigrúms og aukins frelsis fyrir konur. Og fyrst ég er nú einu sinni farinn að stíga þessa fordómaöldu á annað borð þá get ég líklega eins tínt fleira til þótt ég nenni því varla svo lágkúrulegt sem það er.

Í leiðara Morgunblaðsins þann 4. maí s. l. er talað um ratsjárstöðvar og þar er nú ekki talað í muddum frekar en fyrri daginn, en ansi eru þær gamlar lummurnar sem boðið er upp á og mér sýnast þær ekki bara gamlar heldur líka lúnar og lasnar. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Það kom heldur ekki á óvart þó þm. Kvennalista gengju á hæla og í fótspor Alþb. í afstöðu til öryggismála. Ef einhver munur er á stefnu Alþb. og Kvennalista í öryggis- og varnarmálum, sem vart er séður, þá er Kvennalistinn „sovétmegin“ Alþb. í þeim efnum.“

Hvaða endemis fimblufamb og áróðursrugl er nú þetta? Á hvaða forsendum ættu nú Kvennalistakonur að vera sovétmegin við Alþb. í öryggis- og varnarmálum? Þá fer nú að versna með fótsporin, hver fetar á eftir hverjum? Nei, svona blaðamennska þykir mér ekki vitræn. Auk þess sem hún er ekki boðleg lesendum blaðsins þá get ég ekki skilið hvernig hún er boðleg sjálfsvirðingu gagnrýnna blaðamanna. Hún viðheldur þó sannarlega þeirri heimsmynd kaldastríðsáranna sem flestir héldu að tilheyrði mannkynssögunni en kannske eru það einhverjir sem vilja koma henni á aftur? Ég hélt nú reyndar að það væru helst þessir sem smíðuðu vopnin sem hagnast á slíkri heimsmynd. En mennirnir eru breyskir og sumir eru þar að auki mjög hársárir. Á eftir fordæmingunni fylgir nefnilega lítil lykilsetning, með leyfi forseta:

„Enginn kjósandi, hvorki kona né karl, sem er fylgjandi aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningum við Bandaríkin getur fylgt Kvennalistanum að málum.“

Það var og, þá höfum við það. Þó voru það 39% af kjósendum Kvennalistans sem voru meðmæltir aðildinni að Atlantshafsbandalaginu skv. skoðanakönnun Ólafs Þ. Harðarsonar. Það er erfitt að hemja þessa kjósendur. Maður hélt nú af lestri Morgunblaðsleiðara og Staksteina að helst væri verið að halda konunum kyrrum á sínum stað svo þær færu nú ekki að liðka vængina og viðra sig af gáleysi upp á eigin spýtur. En það halda greinilega sumir að við Kvennalistakonur eigum atkvæðavon jafnt í körlum sem konum.

Ég vil nú hætta því að takast á við hortitti og snúa mér að alvarlegri og merkilegri málum. Áður en ég lýk máli mínu hér vil ég víkja að því nokkrum orðum að nýlega hefur lokið störfum undirnefnd á vegum utanrmn. Hún hefur leitast við að samræma þær tillögur um afvopnunarmál sem fram hafa komið á þessu þingi og hef ég átt sæti í þeirri nefnd. Það var greinilegur áhugi meðal allra nm. og góður vilji til að ná saman um þessi mál og komst nefndin endanlega að niðurstöðu sem kynnt hefur verið fyrir hæstv. utanrmn. Ég vil ljúka máli mínu með því að segja að það er einlæg von mín að kjörnir fulltrúar sem nú sitja á Alþingi hafi nægilega djörfung og góðan vilja til að sameinast um afdráttarlausa yfirlýsingu í afvopnunarmálum sem leyfir rödd Íslands að hljóma hvarvetna í þágu friðar og lífs.