07.05.1985
Sameinað þing: 80. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4917 í B-deild Alþingistíðinda. (4178)

Skýrsla um utanríkismál

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að flytja hér langt mál, síst eftir jafnítarlegar upplýsingar alla leiðina frá Kína og við höfum hlustað á að undanförnu. En það er margt kyndugt í kýrhausnum. Eitt af því er að hreindýr heyra undir menntmrn., en hvalveiðar eru orðnar að ríkisleyndarmáli í utanrmn. Þær einu upplýsingar sem við fáum hér eru þær að þinginu mun verða gerð sérstök grein fyrir hvalveiðimálum þegar tímabært þykir. Nú er það fsp. mín til hæstv. utanrrh. hvenær hann telji að sú stund muni upp renna að þeirri hinni miklu hulu um stöðu hvalveiðimála verði aflétt, málið verði ekki í reynd lengur leyndarmál í utanrmn. heldur þingheimur upplýstur um stöðu málsins. Ástæðan fyrir því að ég leita svo fast eftir svörum um þetta er að í harðri atkvgr. á Alþingi Íslendinga gerðust þau tíðindi að ákveðið var að mótmæla ekki ákvörðun hvalveiðiráðsins, en sú ákvörðun var tekin tn. a. á atkvæði varamanns eins af ráðh. í núv. ríkisstj. sem var á öndverðum meiði við sinn varamann í þeim efnum. Ég ætla einnig að fleirum hafi snúist hugur í þessu máli.

Klukkan gengur mjög hratt á okkar hagsmuni hvað þetta snertir. Það er nánast óþolandi afskiptasemi af innanríkismálum Íslands ef erlendir aðilar ætla að þvinga það í gegn að við látum af því að nytja okkar auðlindir. Ég tel að það sé mjög brýnt, og ég treysti hæstv. utanrrh. vel til að fylgja því eftir, að leitað verði lausna í þessu máli sem tryggi að Íslendingar haldi áfram að nytja hvalveiðistofninn, hvort sem þær lausnir fela það í sér að Ísland verður að segja sig úr Alþjóðahvalveiðiráðinu eða ekki. Reyndar tel ég að miðað við þær hugmyndir sem þar hafa verið uppi sé okkur lítill sómi að setunni í þessu ráði.

Það getur vel verið að þeir séu til sem telja að það skipti ekki miklu máli fyrir þessa þjóð hvort víð setjum vel rekin fyrirtæki á Íslandi á höfuðið og lækkum þannig lífskjör í landinu. En mér sýnist að það sé ekki borð fyrir báru til að lækka lífskjörin og ég hygg að það séu fleiri sama sinnis. Þess vegna tel ég að það sé mjög brýnt að þannig verði að málum staðið að hvalveiðar geti haldið áfram í íslenskri lögsögu, að sjálfsögðu undir vísindalegu eftirliti, og vænti þess að hæstv. utanrrh. ljái því máli lið og geri grein fyrir sinni afstöðu í þessu máli.