30.10.1984
Sameinað þing: 12. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 623 í B-deild Alþingistíðinda. (418)

59. mál, aukin sjúkra- og iðjuþjálfun

Flm. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 59 hef ég leyft mér að endurflytja svohljóðandi till. til þál.: „Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir skipulegu samræmdu átaki til þess að koma sem bestri sjúkra- og iðjuþjálfun inn á heilsugæslustöðvar landsins sem allra fyrst. Kannað verði rækilega hversu tengja megi þessa þætti sem best við kennslu í heilsurækt í efstu bekkjum grunnskólans, efldir verði möguleikar Vinnueftirlits ríkisins til að vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum á vinnustöðum þar sem leiðbeint yrði sem gleggst um grundvallaratriði réttra vinnubragða og vinnustellinga jafnhliða bættri vinnuaðstöðu. Leitað skal samráðs um átak þetta við samtök launafólks og vinnuveitenda svo og þau félög heilbrigðisstétta sem málið varðar sérstaklega.“

Þegar ég flutti þessa till. í fyrra nokkuð síðla þings fór ég yfir grg. sem snýr að því mikla starfi sem þegar er unnið af þessum stéttum, sjúkraþjálfurum alveg sérstaklega, vegna þess að þeir eru miklu fjölmennari hér varðandi endurhæfingu ýmiss konar. En einnig benti ég á það að ef gagnsemi þeirrar starfsemi ætti að verða sú sem hún þyrfti að verða þyrfti einnig að huga verulega að forvarnarstarfi í þessum efnum. Ég vék þá að því hver nauðsyn okkur er á starfsemi þessara stétta m.a. vegna hins mikla vinnuálags sem við þekkjum öll úr þjóðfélaginu. Það er í raun einn þáttur vinnuverndar að koma þessari þjónustu að. Ég vék alveg sérstaklega að samstarfinu við skólana. Ég held að nauðsynlegt sé að samstarf komist á milli heilsugæslustöðva og skóla varðandi heilsuræktina sem kennd er í skólunum og byggist allt of mikið á fimleikaæfingum sem fyrst og fremst snúa að því að standa sig sem best, vera sem hraustastur á því sviði sem tekur til keppni og annars slíks.

Ég ætla ekki að endurtaka þessa grg., enda hafa menn hana fyrir augunum, en ég vildi aðeins minna á það að ýmsir fróðir aðilar um þessi mál hafa lagt flm. lið og til viðbótar sent honum ýmislegt efni sem ég hygg að væri rétt að skoða í þeirri n. sem þetta fær til meðferðar í stað þess að fara að rekja það hér og lengja úr hófi þessa framsögu.

En aðeins skulu nokkur atriði talin upp til frekari áherslu. Í fyrsta lagi: Stétt sjúkraþjálfara er ekki fjölmenn og það er ekki stór hópur sem útskrifast á ári hverju, enda ákveðnar takmarkanir þar á á háskólastigi. Þörfin er mikil og eru endurhæfingarstöðvar okkar gleggst dæmi þar um. Sjálfstæð starfsemi fer í vöxt, m.a. vegna lélegra launakjara þessara stétta. Það er góðra gjalda vert hvar sem aðstaða og möguleikar skapast, en brýnast mun þó að þessi þjónusta sé fyrir hendi þar sem mest þörf er á henni, svo sem í heilsugæslustöðvum og endurhæfingarstöðvum.

Iðjuþjálfar eru enn fámennari hópur enda þarf enn að leita erlendis til að ljúka því námi. Báðar stéttirnar hafa hins vegar sýnt þessu máli verulegan áhuga og heilsugæslulæknar á landsbyggðinni segja mér að á engu væri þeim meiri þörf en færum starfskröftum í þessum greinum sem um sumt fara saman.

Fullyrt hefur verið að mjög mundi létta á ofsetnum æfingastöðvum og endurhæfingarstöðvum okkar ef starfsemin færðist meira til heilsugæslustöðvanna og landsbyggðarsjúkrahúsanna og er það augljóst og rétt. Ég nefni tvö dæmi úr mínu kjördæmi. Af ýtrustu kröfuhörku og lagni tókst sjúkrahúsráðsmanni og læknum sjúkrahússins í Neskaupstað að fá endurhæfingaraðstöðu þar í kjallara sem annars var ætlunin að fylla upp í. Það hefur reynst hafa geysilega þýðingu og nú eru þar sjúkraþjálfarar að störfum með ofgnótt ærinna verkefna við ágæta aðstöðu og tækjabúnað.

Allir ljúka upp einum munni um ágæti þessa. Meðan færð er góð sækja nágrannar þessa þjónustu í ríkum mæli sem þeir annað tveggja færu alveg á mis við sér til tjóns eða þá að þeir þyrftu að leita hingað suður með ærnum óþægindum, aukakostnaði og vinnutapi, og þá venjulega enn seinna en nú er þegar þessi aðstoð býðst þar eystra.

Annað dæmi gæti ég rakið um sjúkraþjálfara á Breiðdalsvík sem þangað fluttist í fyrra og hefur síðan stundað tugi fólks þar og úr nágrannabyggðum. Tvisvar í viku fer þessi sjúkraþjálfari nú á Djúpavog og verkefnin eru ærin þar. Þessi kona fullyrðir það við mig að verulegur hópur hefði annars þurft að leita burtu í endurhæfingu eða fá ákveðna lækningu sinna meina, trúlega hér syðra. En enn þýðingarmeira kveður hún það að margt fólk kemur miklu fyrr en ella með kvilla sína og fær meðhöndlun sem á seinni stigum yrði miklu erfiðari viðfangs og tæki lengri tíma. Þó er það mest um vert að það fólk, sem til þessa sjúkraþjálfara hefur leitað, talar um betri líðan sína og minni krankleika einmitt vegna þeirrar þjónustu sem þarna er veitt.

Ég las í sumar ágæta grein eftir góða vinkonu mína í Eystra-Horni, blaði þeirra skaftfellinga, þar sem hún hvatti til þess og taldi þá nauðsyn mesta varðandi heilsugæslustöðina á Höfn í því fjölmenna byggðarlagi sem þar er að sjúkraþjálfun yrði komið sem fyrst á. Sjálf gat hún djarft úr flokki talað um nauðsynina sem langdvölum hefur orðið að dveljast hér syðra æ ofan í æ til þess að ná heilsu og bærilegri líðan undir umsjón sjúkraþjálfara. Hún vitnaði til fjölmargra sem hún vissi að þyrftu nauðsynlega á þessu að halda, ýmist drægju það eða vanræktu þar til í óefni væri komið eða færu suður til að leita sér lækninga og heilsubótar með verulegum aukakostnaði og vinnutapi.

Ég gæti haldið lengi áfram enn, en ég get þó ekki stillt mig um að vekja sérstaka athygli á niðurstöðum könnunar um vinnusjúkdóma sem birtist í fjölmiðlum í sumar. Vissulega voru þær tölur og þær prósentur, sem þar voru tilgreindar, umhugsunarefni. Þar var um að ræða vinnusjúkdóma vegna vinnuaðstöðu, vegna vinnutímalengdar og annarra slíkra ástæðna. Þar kom fram mjög há tíðni vinnusjúkdóma, eða hjá 75% þeirra sem vinna í frystihúsunum við grunnframleiðslu okkar. Vel mætti þetta vekja okkur til umhugsunar um „blessun“ bónuskerfisins og allra þeirra sönnuðu ókosta sem því fylgja. En af því að þessi till. um forvarnarstarf í sjúkra- og iðjuþjálfun er á dagskrá mættu þessar tölur gjarnan vera ofarlega í huga þeirra sem eiga að sinna því þarfa verkefni að koma sjúkra- og síðar iðjuþjálfun úti um land sem allra víðast og tryggilegast, m.a. til að koma í veg fyrir þá tíðni atvinnusjúkdóma, sem þessi vinnusjúkdómakönnun leiddi í ljós, til frambúðar og gera þeim lífið bærilegra sem þegar hafa hlotið hér af tjón.

Vissulega mættu atvinnurekendur axla hér ákveðinn hlut og leggja til þessara mála sinn skerf, það væri verðugt verkefni. Sums staðar er mér tjáð að tilraunir séu uppi í þessa átt, takmarkaðar að vísu en spor í rétta átt. Ekki mundi atvinnureksturinn tapa á þessu, síst þegar til lengri tíma er litið, þó aðalatriðið sé hitt hvernig fólkinu megi líða bærilegar. Stórátak í þessum efnum ber því að reyna að gera til að vekja aukna athygli á þessum rökum um þarfa framkvæmd. Því er þessi tillaga flutt. Ég legg til, herra forseti, að að loknum þessum hluta umr. verði till. vísað til hv. allshn.